27.11.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í D-deild Alþingistíðinda. (3512)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Flm. (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Ég er hissa, að hinn merkilegi sagnfræðingur og virðulegi forseti Nd. skuli fara svo langt út af venjulegum leiðum í málflutningi, en það er kannske ekki að ástæðulausu, því að hv. þd., bæði ég og aðrir, hefur farið fram á, að vínréttindi forseta verði afnumin. Þegar þessi ræða bætist við það, sem einn flokksmaður kommúnista færði rök fyrir í fyrra og forseti Nd. gat ekki borið af sér, þó að hann bæði d. að bera vitni með sér, en það var, að hann væri ekki fær um að vera forseti deildarinnar sökum of mikillar áfengisneyzlu við forsetastörf, þá er sannarlega kominn tími til að ræða þessi mál. Þessi ræða sýnir það líka, að það á ekki að freista manna, sem hafa mikla skapgalla, með hlunnindastöðum.

Ræða forseta Nd. var á engan hátt merkileg, en hún greinir það dálítið, hvernig vitsmunir manna fara, þegar þeir njóta hlunninda í of ríkum mæli. Forsetinn sagðist hafa lesið það í einhverjum lexikon, að ég væri kallaður sagnfræðingur. Það skiptir mig engu máli, því að ég hef aldrei gefið neinar upplýsingar um mig, nema ef væri — ég man það ekki vel —, þegar Brynleifur Tobíasson gaf út „Hver er maðurinn“, þá gaf ég honum upp nokkur ártöl. En misskilning og rangfærslur má oft sjá í blöðum og tímaritum. T. d. sá ég einhvers staðar í erlendu blaði, að ég var sagður vera dr. í lögum, og þá sá ég mér ekki annað fært en senda leiðréttingu. En hvort sem ég er sagnfræðingur eða ekki, þá held ég, að það hefði aldrei getað komið fyrir mig að halda fram dönsku kenningunni um uppruna. Íslendinga. Ég held, að forseti Nd. hafi aldrei verið talinn mikill sagnfræðingur, en þó að svo hafi verið, þá mun danska kenningin vera nægileg til þess, að hann þarf ekki að hafa áhyggjur af að vera talinn það lengur.

Um það, hvort heppilegt væri að setja upp snapsasölu í Alþingi, skal ég ekki ræða, en hitt liggur engu að síður fyrir, að það hefur komizt á kreik, eða veit þm, ekki, að í Tímanum, blaðinu, sem studdi hann til kosninga síðast, var viðurkennt, að hann sem annar aðili hefði tekið þátt í umr. um þetta mál? Um alvöruna veit enginn, og forseti getur sagt, að þetta hafi aðeins verið í gamni, en hitt skiptir miklu máli, að forseti Nd. hefur verið ásakaður fyrir ofdrykkju í forsetastól og orðið að kyngja því. (BG: Það er skömm fyrir þingið að hafa lygara í þingsæti.) (Forseti hringir.) Ég vil óska þess af hv. forseta, ef forseti Nd. vill viðhafa fúkyrði, þá sé hann ekki hindraður, því að gott er, að fram komi, til hvers ofnotkun umræddra fríðinda leiðir.