28.11.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í D-deild Alþingistíðinda. (3522)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Bernharð Stefánsson:

Hv. þm. V-Húnv. (SkG) spurðist fyrir um það hjá forseta Sþ., hvað væri hæft í því, sem stæði í grg. þessarar till., að til hefði staðið að setja upp brennivínsbar hér í þinginu. Hæstv. forseti vísaði til þess, að ég hefði skýrt þetta mál að fullu í gær. Þá mun hv. þm. V-Húnv. ekki hafa verið inni, en ég get nú ekki borið ábyrgð á því, þó að menn sitji ekki á þingfundum, og hefði því ekki skipt mér af þessu, ef hv. þm. S-Þ. hefði ekki áðan komizt svo að orði, að við deildaforsetar hefðum játað það að hafa hreyft þessu barmáli hneykslanlega. Má hreyfa málinu á ýmsan hátt, en bæði hv. þm. V-Húnv. og aðrir, sem ekki fylgdust með umr. í gær, gátu náttúrlega skilið þessi orð hans svo, að við hefðum látizt hafa ætlað að koma upp staupasölu, litlum bar, hér í þinghúsinu. Þess vegna skal ég enn taka fram, hvernig þetta samtal var. Við vorum að spauga um það að gefnu tilefni — grein, sem Halldór Kristjánsson skrifaði um okkur forsetana —, hvernig honum og skoðanabræðrum hans mundi verða við, ef bar væri settur upp í alþingishúsinu, eins og væri alsiða meðal annarra þjóða.

Ég hef hreyft þessu við fleiri. Má kalla á þann hátt, að ég hafi hreyft því við hv. 3. landsk., þessu barmáli, og hann getur borið um það, að ég hreyfði þessu á nákvæmlega sama hátt við hann. Ég er nú búinn að vera 24 ár á þingi og hef vanizt því, að þm. segðu utan funda eitt og annað að gamni sínu, og hv. þm. S-Þ. hefur gert það engu síður en aðrir. En ég hef aldrei vitað það fyrr, að hlaupið væri með svona lagað til þess að láta skrifa það í grg. frv. eða tillögu eða þyrla upp í útvarpið.

Þó að ég hafi ekki leyfi nema til að gera stutta aths., vil ég þó, úr því að ég stóð upp, láta þess getið, að mér þykir einkennilegur háttur, sem hv. þm. V-Húnv. vill hafa á þessu máli. Till. sú, sem hann flytur, er aðeins um eitt atriði þeirrar till., sem hér liggur fyrir. Nú vill hann láta samþykkja sína till. fyrst, síðan kannske hina á eftir. Hér er nú margt skrítið. En með því skrítnasta þætti mér vera að fara að samþ. tvær till. um nákvæmlega sama, málið. Mér finnst þess vegna, eins og ég hélt fram í gær, einn háttur sjálfsagður á þessu máli, því að þótt málið sé á tveim þingskjölum, er það sama málið. Og hátturinn er vitanlega sá að bera fyrst upp til atkvæða þá till., sem lengra gengur. Að henni fallinni mætti svo náttúrlega bera upp þá till., sem skemmra gengur. Ég býst nú við, að ég hafi tæplega atkvæðisrétt um þessi mál — ég skal nú ekki segja um það —, en held nú, að hvernig sem ég lít á málið að öðru leyti, gæti ég ekki annað en greitt atkvæði móti till. hv. þm. V-Húnv. Ef ætlunin er endilega að bera hana upp á undan, mundi ég heldur bera fram rökst. dagskrártill., þar sem till. lægi fyrir þinginu til afgreiðslu, sem fjallaði um þetta mál, og teldi þá ekki ástæðu til að hafa atkvæðagreiðslu um slíkt.

Hv. þm. S-Þ. er viðkvæmur fyrir því, hvað sagt er um forseta sameinaðs þings, og ádeilum Halldórs Kristjánssonar. En þessi maður hefur nú líka vikið að okkur hinum forsetunum, og það er náttúrlega ekki eins viðkvæmt, en ég skal ekki skipta mér af því, því að það er náttúrlega eðlilegt, að mönnum sé betur til eins en annars. En einu vil ég þó alltaf mótmæla. Hv. þm. sagði, að Halldór hefði sagt þetta af flokkslegri illgirni. Ég er alveg sannfærður um, að þetta er ekki rétt. Enginn maður er góðgjarnari en hann. Ég álít, að hann hafi sagt þetta af bindindisofstæki. Og það er ekkert meira hjá Halldóri Kristjánssyni að segja þetta en það, sem ýmsir þm. létu sér um munn fara í þingsölunum í fyrra haust, og það fór ekkert eftir flokkum, því að ég held, að það hafi verið menn úr öllum flokkum, sem fóru hér inn í þingsalinn til að bera sakir á þingbræður sína í þessum efnum — ekki allir í sama skiptið. Það er nefnilega svo, að þó að það sé ágætt að vera í bindindi, býst ég við, þá er eins og það verki á suma menn svipað og að ganga í einhvern ofstækistrúflokk, og þeim finnst þeir menn, sem ekki eru eins og þeir í bindindi, vera hálfgerðir glæpamenn. Það þykir nú leiðinlegt, þó að ríkið sjálft selji áfengi fyrir margar milljónir króna og hafi það fyrir hvern sem vill — það þykir leiðinlegt að ráðast á hvern mann sem ærulausan, sem leyfir sér að bragða þetta, sem ríkið hefur á boðstólum handa öllum. Það er þetta, sem um er að ræða, en engin flokksleg illgirni, sem sést á því, að þessi maður hefur ráðizt á mig og okkur alla forsetana með orðbragði, sem frá mínu sjónarmiði er miklu verri áburður en þótt manni sé brugðið um drykkjuskap. En þetta stafar af bindindisæsingi, en ekki flokkslegum æsingi. Ég lít svo á, að það séu til margfalt verri hlutir en þó að maður drekki sig fullan af brennivíni.