05.11.1947
Sameinað þing: 18. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í D-deild Alþingistíðinda. (3762)

54. mál, viðlega báta um vertíðir

Fyrirspyrjandi (Björn Kristjánsson) :

Ég stend á fætur til þess að þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf, og þó sérstaklega fyrir þau vinsamlegu orð, sem hann lét falla um það, að hann mundi reyna að greiða fyrir því, að þessi athugun færi fram og úrbætur, eftir því sem ástæður leyfðu. Mér var ljóst, að í þessu efni ætti að vera mikil bót í máli, að núverandi hafnarl. gera ráð fyrir því, að verbúðir og annað þess konar, sem þarna er um að ræða, sé tekjuhæft á sama hátt og hafnargerðirnar sjálfar og jafnframt sé ríkissjóði gert að skyldu að ganga í ábyrgð fyrir þeim hluta, sem þarf að koma frá öðrum aðilum, en vegna þessara breyt. á hafnarl. ætti það að verða frekar til þess að ýta undir, að nauðsynlegar framkvæmdir og umbætur yrðu gerðar.

Hins vegar óttast ég það, að jafnvel þó að skilyrði fyrir þá, sem þessarar hjálpar þurfa að njóta, séu þannig stórkostlega bætt frá því, sem áður var, þá held ég samt, að það veitti ekki af því, að það opinbera, löggjafarvaldið og ríkisstj., gerðu meira að því, eftir að rannsókn hefur farið fram, að eiga forgöngu að því, að umbætur séu gerðar þar sem ekki eru líkur til, að aðrir mundu gera þær. Ég ætla svo ekki að segja meira um þetta, en þakka hæstv. fjmrh. fyrir hans undirtektir.