12.11.1947
Sameinað þing: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í D-deild Alþingistíðinda. (3788)

903. mál, innflutningur nýrra ávaxta

Fyrirspyrjandi (Katrín Thoroddsen) :

Herra forseti. Á síðasta Alþ. var í janúarmánuði samþ. eftirfarandi þál.:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að annast um, að innflutningur nýrra ávaxta verði aukinn svo og skipulagður, að landsmenn eigi alltaf kost á einhverri tegund þeirra. Jafnframt er ríkisstj. falið að gera með leyfisveitingum ráðstafanir til, að nýir ávextir séu keyptir í þeim löndum og á þeim árstímum, þegar varan er góð og tryggt, að innflytjendur flytji vöruna í kælirúmi á skipum og geymi birgðir, sem ekki á að nota strax, í öruggum geymslum hér á landi.“

Þegar þál. þessi hafði verið samþ., vakti hún almenna ánægju. Menn biðu með eftirvæntingu og óþreyju eftir nýjum ávöxtum, en ég hef enn þá ekki orðið vör við áþreifanlegan árangur af þessari till. Almenningur sækist eftir þessari vöru, en hún hefur verið af mjög skornum skammti í búðum eins og endranær, og eru því margir að vonum orðnir langeygir eftir lostætinu og vondaufir um árangur þeirrar till., sem samþ. var hér í fyrra, en gramir við ríkisstj. vegna tómlætis hennar og aðgerðaleysis. Því vildi ég nú fræðast um það, hvað hæstv. ríkisstj. hefur aðhafzt til að vinna það verk, sem Alþ. fól henni, og hvað hún hyggst fyrir í því efni. Hér er ekki um neitt hégómamál að ræða. Ávextir eru holl fæða og innihalda í ríkum mæli (t. d. sítrónur) vítamín, m. a. mikið af c-vítamíni, sem mikill hörgull er á. Rannsóknir á fæðu þjóðarinnar hafa sýnt, að mikill c-vítamínskortur er hér á landi alla tíð, og eftir rigningasumarið í sumar er vitanlega tiltakanlega mikill skortur á þessu fjörefni, enda hefur það sýnt sig, að kvefpestir, sem venjulega eru mest áberandi á útmánuðunum, eru þegar farnar að gera vart við sig. En minna mundi um þær og þær mundu batna fyrr, ef ávextir væru fyrir hendi. Auk c-vítamína hafa ávextir marga aðra góða eiginleika, og íslenzku þjóðinni finnst hún hafa ráð á að borða þessa fæðu, þar sem hún á vöruskipti við lönd, sem rækta og flytja út ávexti, og líkur eru til að komast mætti að hagkvæmum kaupum. Ég vænti þess, að hæstv. viðskmrh. gefi nú upplýsingar um, að úr þessu rætist fljótlega. Ég veit, að það yrði mjög vinsælt, ekki aðeins, að það kæmi smájólaglaðningur, því að ef ekki er um meira að ræða, fylgir því alltaf svolítil gremja, því að þá er eins og litið sé á þessa vöru sem einhvern jólalúxus, þó að hún ætti alltaf að vera á borðum. Ég vona svo, að hæstv. ráðh. gefi góð og greið svör.