17.12.1947
Sameinað þing: 31. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í D-deild Alþingistíðinda. (3811)

110. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég lét áðan í ljós þá skoðun mína, að hv. þm. N-Ísf. hefði hreyft þessu máli af áhuga fyrir framkvæmdum. Ég leyfi mér hér með að taka þetta aftur. Fsp. hv. þm. stafaði ekki af áhuga. Þrátt fyrir ljós svör frá minni hálfu voru andsvör hans útúrsnúningur, og hann sagði, að málið stæði jafnömurlega og áður, þótt gerðar hefðu verið þrjár eða fjórar teikningar. Ég get upplýst það, að arkitektinn gerði ráð fyrir því að þurfa að gera fimm til sex teikningar til þess að prófa sig áfram. Ekki veit ég, hver vaninn er hér í þessum efnum, en þeir telja það ekki eftir sér, sem meiri eru. Hv. þm. sagði, að málið mundi hafa verið lélega undirbúið. Það var ekki undirbúið á annan hátt en þann, að sagt var við arkitektinn: „Hér er bær með svona og svona mörgum íbúum, sem vantar hótel, sem kosta má 15–16 millj. kr., viljið þér gera tilraun?“ Ég vil taka það fram, að erfitt var að hafna þeirri tillögu, er frá honum kom, vegna þess, hve glæsileg hún var, þótt neyðzt væri til þess af fjárhagsástæðum. Ég sé ekki, að málinu sé ömurlega komið. Ummæli hv. þm. eru fremur tilraun í þá átt að gera það tortryggilegt. Hann andvarpaði líka í lokin, að ríkisvaldið hefði hér hindrað framkvæmdir einstaklinganna. En það er líka rangt. Ríkisvaldið hefur ekki hindrað framkvæmdir einstaklinganna í þessu máli. Þeim einstaklingum, sem hv. þm. nefndi, var boðið að taka þátt í þessu, og enn fremur var það boðið, að ríkisvaldið drægi sig til baka, en þeir vildu hvorugt. Ég hirði svo ekki um það að elta frekar ólar við aths. hv. þm., sem meira eru gerðar af vilja en mætti og til þess að gera málið tortryggilegt.