21.01.1948
Sameinað þing: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í D-deild Alþingistíðinda. (3818)

119. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að beina þeirri fsp. til hæstv. landbrh., hvað n. hefur reiknað með mikilli rafmagnsþörf í sambandi við áburðarverksmiðjuna, því að það er vitanlegt, eins og hæstv. ráðh. gat um í sinni ræðu, að það er fyrst og fremst undir rafmagninu komið, hvernig þetta gengur, og þess vegna verður það eðalspursmálið, auk vaktanna, að geta rekið verksmiðjuna í nægilega stórum stíl. Ég er hræddur um, að einmitt rafmagnsþörfin hér heima og rafmagnsskorturinn komi til með að standa einna mest í vegi fyrir slíkri stóriðju eins og þessari. Það dugir ekki eins og undanfarið að láta þennan rafmagnsskort standa í vegi fyrir þróun stóriðnaðar á Íslandi. Það er talað hér um, að verksmiðjan verði ekki tilbúin fyrr en 1950–1951. Ég get satt að segja ekki séð, að þetta þurfi að taka svo langan tíma, og fæ lítt skilið, hvernig á því stendur, að ekki er unnið skarpar að því að undirbúa að koma þessu upp, og ég vil beina þeirri fsp. til hæstv. atvmrh., hvort, ríkið hefur ekki að sínu leyti samið við Reykjavíkurbæ um nýju Sogsvirkjunina, þannig að ekkert sé því til trafala að flýta fyrir þessu eins og hægt er.

Ég er enn fremur hræddur um, að það hafi verið vanrækt að hugsa um að fá nauðsynlegar vélar til raforkuframleiðslunnar. Það er vitanlegt, að það þarf forsjálni um það að gera samninga um þær stóru vélar, sem til þess þarf, en ég álit, að það sé hægt að tryggja slíkar vélar 1949–1950, ef undinn hefði verið að því bráður bugur. Mér skilst, að innlendri vinnu við Sogsvirkjunina ætti að geta verið lokið á sama tíma og hægt væri að fá vélarnar, ef þær væru útvegaðar með svona fyrirvara. Fyrir alla íslenzka framleiðendur, ekki sízt hér í Reykjavík, þýðir það verulega mikið, hvort þetta fyrirtæki, Sogsvirkjunin, kemst upp 1949–1950, og hvað áburðarverksmiðjuna snertir, þá er engin ástæða til annars en að ganga út frá því, að hún geti verið tilbúin á sama tíma og Sogsvirkjunin, og það mundi verða talsvert tap að láta líða tíma þarna á milli og láta Sogsvirkjunina bíða eftir þeim markaði, sem áburðarverksmiðjan yrði fyrir hana. Vélar til áburðarverksmiðjunnar mun því ekki veita af að panta sem fyrst vegna þess langa tíma, sem það tekur að fá vélar afhentar. Hins vegar, ef áburðarframleiðslan ætti að verða mjög stórfelld, þá er ég hræddur um, að rafmagnið frá nýju Sogsstöðinni verði tiltölulega fljótara að étast upp en menn reikna með, og veitti því ekki af að fara þegar að hugsa um stærri rafmagnsframleiðslu í landinu en nú hefur verið gert.