22.01.1948
Sameinað þing: 36. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í D-deild Alþingistíðinda. (3835)

905. mál, endurbygging sveitabýla

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að taka til máls um þessa fsp., en inn í þessa umr. hefur nú blandazt sitt af hverju, sem ætla mætti, að ætti ekki beint við í umr. þessa máls. En sumir eru þannig gerðir eins og barnið, sem alltaf styður fingrinum á sólargeislann á veggnum, að þeir þurfa að koma eftirlætismálum sínum að í hvert skipti, sem tilefni gefst til, eða jafnvel oftar. Það, sem gaf mér tilefni til þess að taka hér til máls, var það, að hér var mál leitt inn í umr. á mjög skrítinn hátt, og á ég þar við till. hv. þm. S-Þ. um að taka byggingarsjóð Skálholtsskóla í byggingarsjóð landbúnaðarins, en þar gerir hv. þm. sér von um að fá 10 millj. kr. handa byggingarsjóði. Ég vildi óska, að stofnunin yrði sem vönduðust og fénu hagkvæmlega varið, en ég hef heyrt það utan að mér, að hin fagurfræðilega forstaða málsins hafi talið nauðsynlegt að hafa turn á skólahúsinu. Bændur ætla, að turninn muni hleypa fram byggingarkostnaði, og eru margir ekkert sólgnir í turninn. Skólinn getur orðið dýr, ef hann verður fullkominn, og ég skýt því til hæstv. ríkisstj. að hafa hann ekki dýrari en hin praktiska nauðsyn krefur. En hví er hv. þm. S-Þ. þessi stóra bygging svo hugleikin? Hann hefur hvað eftir annað komið fram með till. þar að lútandi. Í fyrra lagði hann til, að biskup, þjóðminjavörður og búnaðarmálastjóri ráðstöfuðu Skálholti og nú kemur hann með till. um að hætta við skólabygginguna.