22.01.1948
Sameinað þing: 36. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í D-deild Alþingistíðinda. (3848)

907. mál, lánsfjáröflun til Ræktunarsjóðs Íslands

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Það er nú komið að síðasta liðnum á fyrirspurnalista hv. 1. þm. N-M. og hv. 2. þm. Rang. Ég vil taka það fram, að frá minni hálfu hefur ekkert komið fram, er gæfi tilefni til þeirra stórpólitísku umræðna, sem menn hafa komizt út í. Ég vil enn fremur taka það fram, að mér er hið sama í huga og áður, sem ég lýsti yfir í fyrra skiptið, að leysa verður þessi mál með alúð og góðvild allra hlutaðeigenda. Það er happadrýgst og síður ástæða til að hoppa í loft upp til þess að níðhöggvast út af ástandi, sem allir vita, að stafar af þeim erfiðleikum, sem eru á útvegun lánsfjár. Þeir erfiðleikar eru ekki, eins og hv. 2. þm. Reykv. sagði, bara í huga stj., heldur raunverulegir. Þeir stafa ekki einvörðungu af því, að einstakir aðilar standi ívegi, heldur eru afleiðing ofþenslunnar í landinu. Við erum komnir upp í svo háar tölur í öllum greinum og lánsféð orðið fast í svo mörgum fyrirtækjum. Fjárfestingin er svo mikil, en þjóðarauðurinn er takmörkunum háður. Það er þetta, sem í fyrsta lagi veldur lánsfjárerfiðleikunum.

Ég ætla, að stjórnin sé ekki ein til frásagnar um þetta. Svo margir hafa komið að dyrum fjmrn. út af þessum málum, m. a. frá byggingarfélögunum, hverra tala er orðin legið, og Alþ. hefur heitið öllum ábyrgð og fyrirgreiðslu. Allir hafa sagt, að peningamarkaðurinn væri þröngur og litlir lánsfjármöguleikar.

Þeir, sem stjórna Landsbankanum, hafa hér verið bornir þungum sökum. Ég skal ekkert um það segja, hvort sjónarmið þeirra eru rétt eða röng. Hitt veit ég, að Alþ. hefur sett bankanum l. að fara eftir, og þá er það ekki að lasta, þótt stjórn bankans vilji sjá sinni stofnun farborða og halda l. Ég hygg þó, að bera mætti bankastj. sömu sökum og ríkisstj. er borin í einu af dagblöðunum í dag, og haft eftir einum hv. þm. hér í salnum, og segja, að hún hafi brotið l. Ég hygg, að það megi segja það um bankastj., að hún hafi í þessum efnum farið lengra en l. leyfa. Ég segi þetta ekki til þess að draga úr, að reynt sé að fá hana til þess að lána það, sem fært þykir.

Alþ. á sína sök á lánsfjárerfiðleikunum. Leiðin til þess að sigrast á þeim er ekki sú að kastast á hnjóðsyrðum, ef framkvæmdir þykja dragast, heldur að leggja saman kraftana og reyna að leysa erfiðleikana af viti og góðvild eftir beztu getu. Stjórnin hefur haft þetta vandamál til úrlausnar, og undirbúningsvinnu í þessu efni er nú langt komið. Þess er að vænta, að hún beri tilætlaðan árangur og að það fé, sem um getur í 8. gr. l. nr. 66 frá 1947, eða viðunandi hluti þess fáist til þeirra hluta, sem það er ætlað, án þess að stjórnin þurfi að grípa til þess vopns, sem Alþ. hefur lagt henni í hendur. Það er leiðinlegt að skylda Landsbankann til þess að leggja þetta fram, og þá leið á ekki að fara fyrr en í síðustu lög.

Ég vænti þess, að hv. virðulegir fyrirspyrjendur geti látið sér lynda það, sem ég hef upplýst, þótt það sé ekki eins ýtarlegt og hv. 1. þm. N-M. fór fram á.

Ég mun svo, laust við þetta mál, sæta hentugs, tækifæris til að gefa hv. þm. upplýsingar um fjármál og fjárhag ríkisins. Það er rétt, að þær séu látnar í té, áður en gengið er endanlega frá afgreiðslu fjárl.