25.02.1948
Sameinað þing: 47. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í D-deild Alþingistíðinda. (3896)

163. mál, Bessastaðakirkja

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. menntmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf varðandi þetta mál.

Ég veitti því athygli, að hæstv. ráðh. færðist undan að láta í ljós nokkra sjálfstæða skoðun á því, hvort sú stefna, sem tekin hefur verið í málinu, sé rétt eða röng, og mun það stafa af því, að hann telji, að ekki sé hægt að bæta úr, eins og komið sé. Af upplýsingum hæstv. ráðh. má sjá, að fyrir tveimur árum hefur ríkisstj. heimilað 210 þús. til viðgerðar á kirkjunni. Hæstv. ráðh. upplýsir nú, að búið sé að verja meira en tvöfaldri þeirri upphæð til kirkjunnar, eða 470 þús. kr., og enn mun vera eftir nokkuð á 6. hundrað þús. kr., sem viðgerðin öll kostar. Af ræðu hæstv. ráðh. varð ekki séð, að ríkisstj. hafi samþ. þessi viðbótarútgjöld. Manni verður á að spyrja: Geta einstakir. embættismenn ríkisins ávísað á ríkissjóð, án þess að með því sé haft eftirlit? Ef þessu er þannig varið, þá virðist enn meiri ástæða til að endurskoða ríkisreikningana með meiri hraða en gert hefur verið undanfarin ár.

Um ræðu hv. þm. S-Þ. þarf ég ekki að vera margorður. Ræða hans var öfgar, en þó kannske minni öfgar en við var að búast. Í rauninni var ræðan ekkert annað en stuttur útdráttur úr grein, sem birtist nýlega í Alþbl. eftir Guðjón Samúelsson, og hann einn vill verja þá stefnu, sem upp hefur verið tekin í þessu máli. En þessi skoðun hv. þm. er undarleg, þegar maður athugar afstöðu hans til annarra mála, eins og áhuga hans fyrir að varðveita menntaskólahúsið og halda áfram að hafa skóla á þeim stað. Hann vill með engu móti láta hreyfa við hinu aldargamla. menntaskólahúsi. En þá er það undarlegt, að hann skuli ekki eingöngu vilja láta það viðgangast, að gömlum munum úr Bessastaðakirkju sé tortímt, heldur jafnvel fagna því. Annars er öllum kunnugt, hvernig stendur á þessari skoðun hv. þm. S-Þ. Ástæðan er sú, að Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, er þessarar skoðunar og hefur skrifað um það grein. Mér er sem ég heyri þá ræðu, sem hv. þm. hefði flutt, ef þessi grein hefði verið eftir þann húsameistara, sem hefur staðið fyrir framkvæmdunum á Bessastöðum. Ég þarf ekki frekar að fjölyrða um það, en mér þykir þó vænt um að geta staðhæft, að hér liggi eitthvað á bak við annað, sem hann metur meira en sína sannfæringu.

Að síðustu vil ég segja, að af þessu máli tel ég, að megi draga tvenna lærdóma: Í fyrsta lagi, að full ástæða sé til að auka vald þjóðminjavarðar yfir gömlum byggingum, sem nú eru til í landinu. Ef það er ekki gert, þá má búast við, að ákveðið verði að rífa niður Hólakirkju og menntaskólahúsið og ekki einungis það, heldur verði það einnig framkvæmt. Ég álít nauðsynlegt að tryggja, að slíkt geti ekki komið fyrir aftur, eins og það, sem gerzt hefur í Bessastaðakirkju. Í öðru lagi ætti þetta mál að verða til þess, að betur verði gætt að þeim embættismönnum, sem hafa fjárreiður með höndum, og fjvn. gæti betur að stjórninni í slíkum efnum en gert hefur verið undanfarið.