13.10.1947
Neðri deild: 5. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

23. mál, bændaskólar

Jónas Jónsson:

Mér sýnist ástæða til við þessa 1. umr. að fá eitthvað að heyra hjá stj. um það mál í heild, sem hér liggur fyrir. Sú breyt., sem þetta frv. leggur til, er sennilega frekar æskileg. Það er um nýja deild, sem ekki er til. En um leið finnst mér rétt að athuga, hvort búnaðarfræðslan í landinu sé á réttri leið, og hygg ég, að á henni þurfi að gera aðrar og miklu meiri breyt. en hér er farið fram á.

Fyrst er að geta þess, að við höfum haft búnaðarskóla síðan 1880 og nú á síðari árum tvo búnaðarskóla, á Hólum og Hvanneyri, sem hefur verið vandað til eftir ástæðum, en samt er það þannig, að bændurnir hafa ekki sótt þá mikið. Það er áberandi, að húsmæðraskólarnir, sem eru hliðstæðir við bændaskólana, eru svo miklu meira sóttir, þannig að ef húsmæðraskólarnir væru nægilega margir, mundu 10 stúlkur sækja þá skóla í staðinn fyrir einn pilt, sem sækir bændaskóla. Húsmæðraskólarnir eru alltaf fullir, en bændaskólarnir eru ekki alveg fullir, og jafnvel á síðustu árum hefur verið misbrestur á því þrátt fyrir sæmilega kennslu. Því er ekki til að dreifa, að ekki sé sæmileg kennsla, heldur hafa ungu bændurnir fundið það, að við erum ekki á réttri leið. Húsmæðraskólunum hafa húsmæðurnar ráðið. Þeir eru svo að segja eingöngu verklegar stofnanir, en bændaskólarnir svo að segja eingöngu bóklegar stofnanir. Bændurnir hafa fundið, að það er ekki það, sem þá vantar, og það, sem ég hygg, að hæstv. ráðh. ætti að gera, er ekki það að beita sér fyrir þeim lítilfjörlegu breyt., sem hér liggja fyrir nú, heldur að gera breyt., sem eru við hæfi fólksins. Ég vil nota tækifærið, af því að svo vill til, að hæstv. ráðh., sem með þessi mál fer, er þm. rétt hjá öðrum bændaskólanum, að benda honum á, að þessi skóli á ekkert verkstæði. Þar er engin smíðakennsla að heita má, og hinn skólinn er lítið betur settur. Ég hygg, að það þurfi á búnaðarskólum að kenna margháttaða vinnu og meðferð búpenings — ekki af bókum, heldur með vinnu. Ég vitna aftur til þess, að á húsmæðraskólunum, sem kenna daglega vinnu, þar vill kvenfólkið vera. Ég ætla að segja hæstv. ráðh. frá því, að fyrir löngu síðan, það var löngu áður en hann var nemandi á Hvanneyri — og sjálfsagt er það orðið breytt nú —, þá var kennd þar, að því er mér var sagt af manni, sem var þar, bók um húsdýrafræði, sem var um 300 síður, en þar af voru 4 blaðsíður um íslenzk húsdýr. Eftir að skólanum var breytt, var tekið upp nýtt form. Það var lánað frá Dönum, en þar er formið það, að ungir menn læra alla nauðsynlega vinnu heima hjá sér eða á stórum búgörðum, þannig að þeir kunna öll nauðsynleg vinnubrögð við búskapinn, þegar þeir koma í skólann. Hjá okkur er þetta öfugt. Okkar ungu menn hafa tiltölulega mikla bóklega fræðslu, en lítið af vinnu. Nú er það svo, að farið er að lítilsvirða vinnu bændanna. Það þarf ekki annað en að benda á það, að hér á Suðurlandsundirlendinu er höfuðatvinna fólksins mjólkurframleiðsla, en bæði hér og annars staðar er litið niður á þau störf, sem henni fylgja. Fjósamannsstarfið hefur verið fyrirlitið og það stendur áreiðanlega mjög fyrir þrifum nauðsynlegum vinnubrögðum. Ég bendi á þetta, af því að við hér í bænum þurfum að fá mjólk og fólkið í sveitinni þarf að selja mjólk og fólkið, sem vinnur í fjósum og sér um kýrnar, þarf að hafa álíka menntun og hjúkrunarkonur á spítala.

Ég er viss um það, að ef bændaskólarnir sneru sér að því að kenna bændaefnunum vinnubrögð í stað þess, að bændaefnin læra nú bækur, þar á meðal að vinna í fjósi, gerði það þá betur færa til starfs síns. Ég beini þessu fyrst og fremst til hæstv. ráðh., en það getur verið, að ég beri fram brtt. um þetta efni til þess að undirstrika það, sem mér finnst, að þurfi að gera síðar. Ég álít, að á Hólum og Hvanneyri ætti að vera 9–91/2 mán. kennsla. Aðalheyskapartíminn mætti dragast frá, og ég geri ráð fyrir, að nemendur hefðu sæmilega bóklega þekkingu. Ég veit þetta af því unga fólki, sem kemur til mín, bæði frá alþýðuskólum og gagnfræðaskólum. Ég held, að við mættum í þessu efni þræða för kvenfólksins með húsmæðraskólana. Það væri ofur lítil bókleg kennsla, en fyrst og fremst ekkert erlent tungumál. Það yrði kennsla um húsdýr, um kynbætur og allt sem praktískast. Ég á við, að það yrði að smíða, setja saman vélar og stunda vinnu við búskap undir þeim fullkomnustu skilyrðum, sem hægt er að hafa. Hæstv. ráðh. tók fram, að það hefði verið erfitt að fá ungu mennina til að sætta sig við að vinna sumarið milli skólavetranna, en ég held líka, að ekki sé nauðsynlegt, að þeir ungu menn, sem á skólanum eru, séu þar yfir heyskapartímann, en aftur er hægt í tímum að kenna þeim alla meðferð búvéla. Ég spái því, að ef þessi hæstv. ráðh. eða aðrir sæju sér fært að láta bændaskólana fara í för húsmæðraskólanna, þá mundu koma aftur heim betri bændur, sem nú er dregið í efa, með þá bóklegu kennslu, sem þar er veitt.

Þá vil ég leyfa mér að snúa mér að þriðja skólanum, Skálholti. Ég vil þá fyrst spyrja að því, hvort mönnum finnist ástæða til að byrja nú þegar á þessum skóla, fyrst hinir skólarnir eru ekki fullir. Mér virðist líka, að ef byrjað yrði á honum, að hann ætti að vera með nýju sniði, þar sem ekki virðist vera svo mikil ánægja með hina skólana.

Ég hef nýlega komið þarna austur, og ég vil láta hæstv. ráðh. vita, að það eru talsverðir annmarkar á því að framkvæma þetta mál. Það er nú búið að gera teikningu af skólanum, og mundi hann kosta uppkominn einar 5 millj. kr. Ég get ekki hugsað mér, að ræktun, útihús og leiðslur mundu kosta innan við 2 millj. kr., þannig að 7 millj. er það minnsta, sem það mundi kosta að koma þessari stofnun upp. Og þetta er samtímis því, að ekki er hægt að fá peninga til þess að koma upp sæmilegu verkstæði á Hvanneyri, og það er margt, sem skólana vantar vegna þess, að ekki er hægt að fá peninga til þess.

Þetta er nú það peningalega, en ég vil líka segja hæstv. ráðh. annan annmarka á þessu Skálholtsmáli, og það er það, að okkur er nokkur vandi á höndum með okkar sögustaði. Það er ekki vansalaust, hvernig farið er með Odda, Haukadal, Skálholt, Þingvelli, Reykholt og Hóla. Nú hefur þingið um skeið lagt nokkurt fé til Þingvalla og Reykholts. Ef Reykholt hefði ekki verið undirbúið þannig, áður en hinir góðu gestir komu í sumar, ef Reykholt hefði verið eins og það var, þegar búið var að byggja fjós og olíutank fyrir framan staðinn, - þá hefði verið þjóðarskömm að taka á móti hinni góðu gjöf, sem okkur var færð í sumar.

Nú vil ég segja, hvernig það er með Skálholt.

Þar er duglegur bóndi, sem rekur mikið bú, eftir því sem hægt er á þessum fólksleysistímum, en það er ekki hægt að reisa Skálholt við af einum bónda. Til þess þarf mörg hundruð þúsund kr., ef það á ekki að vera til skammar. Nú vil ég segja, hvað kom fyrir með Skálholt í sumar. Það langaði marga þessara manna til að koma í Skálholt, sérstaklega fræðimenn, og ég verð að segja það mér til minnkunar, að ég hafði ekki hugsað út í, að þetta var ekki hægt, en einn prófessorinn við háskólann og annar maður í n. fullyrtu, að þetta væri ómögulegt, og við grípum til þess ráðs að senda lítinn bíl með þá, sem sérstaklega höfðu óskað eftir því að sjá Skálholt, en létum hitt fólkið halda áfram.

Að undirbúningi Skálholtsskóla vann n., sem fór inn á þær villigötur að ákveða húsinu stað langt úti í bithaga, og þar hefði það verið nú, ef peningar hefðu verið til. En haldið þið, að hægt hefði verið að sýna gestum staðinn fyrir það. Það verður að byrja þar eins og í Reykholti og eyða í það mörg hundruð þúsundum, en það getur enginn bóndi gert. Mér er kunnugt um, að kirkjunnar menn vilja láta byggja myndarlega kirkju í Skálholti, — en hvernig haldið þið, að þá yrði, þegar skólinn yrði kominn langt út í bithaga? Það verður að hætta við þetta, því að það verður ægilegt skandalmál, ef það verður gert. Og ég vil vara hæstv. ráðh. við því að gera þetta og benda honum á að reyna heldur að draga málið á langinn, því að það verður til hneisu hverjum þeim, sem nærri því kemur. Gamli tíminn lét allt grotna niður, en nýi tíminn er langt úti í bithaga. Ég held þess vegna, að það, sem ætti að gera, væri að reisa fyrirmyndarbú í Skálholti, og svo ætti að reisa þar veglega kirkju. Það má ganga út frá því, að kirkjunnar menn mundu vilja byggja þar og laga kirkjugarðinn. Það, sem gera þarf á þessum stað eins og í Reykholti, er að reisa staðinn við. Þar er myndarlegur búskapur, sem rekinn er af 1–2 kennurum skólans. Sama á að gera með Skálholt, sem var miðstöð þessa lands í 700 ár. Ég vildi gjarna heyra, hvort hæstv. ráðh. álítur, að það eigi að reisa þennan skóla, hvort hann álitur, að það eigi að leggja í þennan 7 milljón króna „business“ samtímis því, að hinir skólarnir eru ekki fullir af nemendum, og hvort ráðh. er ekki með því að gerbreyta þessum skóla, að gera hann að verklegum skóla.

Það er sjálfsagt mjög hyggilegt, að þetta frv. gangi til landbn., því að þetta kemur ekki við hinu almenna formi.