22.01.1948
Neðri deild: 42. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

12. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Mál það, sem hér er til umr., hefur þegar nokkuð verið rætt í sambandi við það mál, sem var hér á dagskrá næst á undan (frv. um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit, 107. mál). Fjhn. hefur klofnað um málið. Ég legg einn til, að frv. verði látið halda áfram með nokkrum breyt., en meiri hl. leggur til, að nýtt frv. verði samþ., en þetta látið daga uppi.

Brtt. þær, sem ég legg til, að gerðar verði við frv., eru samdar af tollstjóra og eru í höfuðatriðum eftirfarandi:

Við 2. gr. er gerð sú brtt., að í staðinn fyrir 50 kr. komi 150 kr. Það þótti of lítið að mega aðeins hafa 50 kr. með sér, eins og leyft er í brbl., vegna þess að menn þyrftu meira fé, ef þeir færu með skipum, til að greiða fæði og annað slíkt.

Enn fremur eru brtt. við 3. gr., sem ganga út á að gera einfaldara fyrir menn en verið hefur, þegar þeir koma frá útlöndum, að fá seðlum skipt og taka upp aðferðir, sem tíðkast í útlöndum og virðist, að komi þar að sæmilegu haldi. Það hefur verið skylt að menn leggi gjaldeyrinn inn í Landsbankann og geymi hann þar, meðan þeir dvelja hér, en þetta hefur þótt óþægilegt, og þótti því rétt að breyta því. Þarf ég ekki að fara nánar út í það.

Þá er brtt. við 4. gr., að hver sá, er fer af landi burt, skuli geta tollyfirvöldunum skriflega sundurliðaða skýrslu um það, hve mikinn gjaldeyri hann hafi meðferðis. Í brbl. er svo ákveðið, aá5 einstaklingar, sem búsettir eru erlendis, skuli við komu sína til landsins undirrita drengskaparyfirlýsingu um, að þeir muni aðeins eiga gjaldeyrisviðskipti við þá banka, sem hafa einkarétt til að verzla með erlendan gjaldeyri, og jafnframt skuli þeir skuldbinda sig til að semja ekki við hér búsetta aðila um það að fá íslenzkan gjaldeyri eða uppihald hér gegn greiðslu í erlendum gjaldeyri eða gegn nokkurs konar öðru endurgjaldi.

Það er vitanlegt, að svona ákvæði er erfitt að framkvæma. Mundi það aðeins gera mönnum óþægilegra fyrir en til er ætlazt af stj. og veita mönnum leið til að brjóta l.

Ég held þess vegna, að með þeim breyt., sem tollstjóri hefur samið og ég hef borið fram, fáist jafngóð trygging fyrir því, að gjaldeyri sé ekki smyglað úr landinn og eftirlit með gjaldeyri útlendinga jafntryggt og gerist erlendis. Ég álít því heppilegast að samþykkja stjfrv. með þeim breyt., sem hér liggja fyrir og samdar eru af þeim embættismanni, sem mesta kunnleika hefur á þessum málum.