15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

178. mál, fiskmat o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Mér virðist, að líkur hendi til, að yfirstjórn fiskmatsins hér á Suðvesturlandinu gæti verið í allgóðu lagi með tveimur yfirmatsmönnum og fiskmatsstjóra búsettum hér í Reykjavík, og þeir mundu ekki hafa ónæðissamara starf en yfirmatsmenn annars staðar á landinu.

Út af orðum hæstv. ráðh. og hv. frsm. sjútvn. varðandi framkvæmd freðfisksmatsins, sem mjög hefur verið í höndum verkstjóra, þá lít ég svo á ummæli ráðh., að hann treysti sér til að skipa þessum málum á annan veg og tryggari, og það er vitanlegt, að þess er þörf, því að hætt er við, að maður, sem er verkstjóri, kynni að telja meira af fyrsta flokks vöru en raunverulega er, og gæti það orðið til þess að spilla mörkuðum.