18.02.1948
Efri deild: 64. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

161. mál, bifreiðalög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er um breyt. á bifreiðalögunum. Sú breyt., sem 1. gr. fjallar um, hnígur að því, sem ákveðið er í l., að lögreglustjóri, hvar sem er, geti veitt heimild fyrir ökuskírteini, en þar er um ófullkomið ákvæði a.ð ræða, því að ef nokkurt gagn á að vera að því, að umsækjanda um ökuréttindi sé gert að skyldu að fá slíka heimild, þyrfti hún að vera gefin út af lögreglustjóra í heimasveit mannsins, sem kunnugt er um ástæður með og móti. En nú getur maður tekið próf utan sinnar sveitar, þar sem lögreglustjóra er ókunnugt um ástæður, og er þá ætlazt til þess með þessari brtt., að veiting heimildar sé bundin því skilyrði, að hann geti lagt fram meðmæli frá lögreglustjóra í heimasveit sinni.

Breyt., sem lögð er til í 2. gr., er fyrst og fremst sú, að ætlazt er til, að þeir, sem eru ökukennarar, skuli þurfa að fullnægja sérstökum skilyrðum og standast ákveðin próf, enn fremur nánari ákvæði um útbúnað bifreiða, sem notaðar eru við kennslu. Það hefur því miður komið fyrir, að slys hafa orðið í sambandi við ökukennslu, sem ekki hefðu orðið, ef bifreiðarnar hefðu verið í fullu lagi eða kennararnir starfi sínu vaxnir.

Ljóst er, að þegar þúsundir manna taka bifreiðarpróf á ári hverju, þá er nauðsyn, að tryggt sé, að hæfir menn annist kennsluna, svo að ekki verði slys, á meðan hún fer fram, enda er það kennslan, sem allt veltur á, því að við prófin sjálf verður seint svo um hnútana búið, að þau veiti fulla tryggingu um hæfni, ef kennslan sjálf er ekki góð áður.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja þetta nánar, vona, að málið fái greiðan framgang. Ákvæðin í 2. gr. eru flutt í samráði við lögreglustjóra og bifreiðaeftirlitsmenn hér í bæ, sem óskuðu eftir reglugerð, sem ekki var heimild fyrir, og því nauðsynlegt að fá lagabreytingar. Skora ég á dm. að veita málinu góðan framgang og legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn.