09.03.1948
Efri deild: 77. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

161. mál, bifreiðalög

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Eins og nál. ber með sér, voru nm. allir sammála um það, að bifreiðalögunum þyrfti að breyta og að þær breytingar, sem hér er farið fram á, væru yfirleitt æskilegar og sjálfsagðar. Ég vil benda á, að hér hefur slæðzt prentvilla inn í 2. gr. — „kann“ fyrir „þann“ — og eins getur komið til mála, að aftan við þá málsgr. verði bætt ákvæðum um það, til hve langs tíma próf bifreiðakennara eigi að gilda. Engin till. liggur að vísu fyrir um það nú, en það mun verða athugað fyrir 3. umr.

Það, sem nm. ræddu fyrst og fremst, var ökuhraðinn, sem ástæða er til, að breytt verði ákvæðum um. Leyfilegur ökuhraði var áður miðaður við 30 km í bæjum og 60 km úti á landi, en á stríðsárunum var hann færður niður í 25 km í bæjum og 45 km úti á landi, en hefur síðan verið færður upp aftur í sveitum. Þessi lági ökuhraði hefur nú orðið þess valdandi, að maður á það víst, ef maður ekur á 25 km hraða, að 40–50 bílar fara þá fram hjá manni á klst., hvar sem er í bænum. Og þetta er svo viðurkennt af hinu opinbera í áætlunum á langferðaleiðum til dæmis, að flestar langferðabifreiðar verða að fara með meiri hraða en löglegt er til þess að halda áætlunum. Og það er jafnaugljóst og tvisvar tveir eru fjórir, að þessi hraðaákvæði eru þannig sett til þess að brjóta þau, og þau eru brotin jafnvel af því opinbera. Nú mætti losna við það að þurfa að endurskoða öll lögin, ef hæstv. ráðh. vildi upplýsa það, hvort hann vill breyta reglugerðinni í samræmi við lögin um 30 km ökuhraða í bæjum og 60 km ökuhraða í sveitum. Þetta var annað atriðið, sem nm. töldu, að þyrfti að breyta í sambandi við bifreiðaakstur í landinu. Hitt atriðið var um sölu á víni í bifreiðum og á bifreiðastöðvum.

Vitað er, að vissar bifreiðastöðvar og bifreiðarstjórar halda uppi mikilli óleyfilegri vínsölu.

Flestir nm. eða allir voru sammála um nauðsyn þess að koma í veg fyrir þetta á einhvern máta, og töldu sumir eðlilegt, að sett væru ákvæði um þetta efni inn í sjálf bifreiðalögin, sem fyrirbyggðu slíka vínsölu. Aðrir töldu rétt, að ákvæði yrðu sett um þetta inn í áfengislöggjöfina.

Ef hæstv. ráðh. vildi gefa yfirlýsingu um það; að hann mundi taka þetta til athugunar fram á haustið, þá mundum við geta sleppt því að gera um það breytingar á þessu frv., — og langar mig að heyra orð ráðherra um það, hvort hann telur sig ekki geta breytt ákvæðum um ökuhraðann og eins hvort hann vilji taka til athugunar, á hvern hátt heppilegast verði að taka fyrir það með löggjöf, að bílarnir séu fljótandi vínbúðir á götum bæjarins.

Ég vonast til, að hæstv. ráðh. upplýsi þetta, og sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta að svo komnu.