19.03.1948
Sameinað þing: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

129. mál, fjárlög 1948

Frsm. samvn. samgm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. — Samvn. samgm. á brtt. á þskj.. 582, um að styrkur til flóabátaferða hækki úr 500 þús. kr. í 912200 kr. Vil ég leyfa mér fyrir hönd n. að gera grein fyrir þessari till.

Það er fyrst og fremst að segja um flóabátaferðir almennt, að á s.l. ári var rætt um það, er undirbúin og hafin hafði verið smiði nýrra. strandferðabáta, að líklegt væri, að hægt yrði að draga nokkuð úr fjárframlögum til flóabátanna í einstökum héruðum, eftir að þessir strandferðabátar væru tilbúnir og hefðu hafið siglingar hér við land. Nú er það svo, að annar þessara báta. hefur þegar hafið siglingar, og er hinn væntanlegur á næstunni og mun innan skamms hefja siglingar. Þrátt fyrir þetta hefur hvorki Skipaútgerð ríkisins né samvn. samgm. þótt líklegt, að þessi skip gætu leyst þarfir einstakra landshluta. innbyrðis á sama hátt og flóabátarnir gera. Það mun að vísu verða mikil samgöngubót að þess-um nýju skipum, en margt bendir þó til þess, að þarfir fyrir staðbundnar flóabátaferðir verði, fyrir hendi engu að síður eftir sem áður. Reynslan mun skera úr um þetta atriði, og þess mál vænta, að á næsta ári verði komin nokkur reynsla á það, hvort hægt muni verða að nota þessi skip í staðinn fyrir flóabátana, a.m.k. að einhverju leyti, og mun þá Alþ. taka afstöðu til þess á sínum tíma.

Í sambandi við einstaka flóabáta vil ég taka þetta fram:

Ég mun fyrst minnast á Breiðafjarðarsamgöngur. Það er gert ráð fyrir því í till. n., að Flateyjarbáturinn, sem haldið hefur uppi samgöngum um norðanverðan Breiðafjörð, fái 30 þús. kr. styrk til vélakaupa. Á s.l. ári voru veittar 50 þús. kr. til viðgerðar á bátnum, sem nú er lokið, og er hann nú hið sæmilegasta skip. En vegna þess að nú er aðeins um að ræða 30 þús. kr. styrk til vélakaupa, verður heildarstyrkurinn til bátsins 20 þús. kr. lægri en hann var s.l. ár. — Þá hefur sú breyting orðið á varðandi Breiðafjarðarsamgöngur, að til Stykkishólmsferða hefur verið fenginn nýr bátur, 38 smál., í stað 15 smál. báts, sem hefur annazt þessar ferðir. Hefur jafnframt verið farið fram á, að styrkur til þessara ferða verði hækkaður verulega, eða úr 38 þús. kr. á s.l. ári í 80 þús. kr. N. taldi þó ekki fært að fara svo hátt í styrkveitingu til þessara ferða, en hefur lagt til, að hann verði hækkaður upp í 70 þús. kr., og taldi Skipaútgerðin það nægilegt. Enn fremur hefur verið sett það skilyrði fyrir styrkveitingunni samkv. ósk hv. þm. Barð., að báturinn fari ekki færri en 18 ferðir til Gilsfjarðar, og er þessa getið í nál. samvn. samgm. — Varðandi samgöngur um Breiðafjörð er enn fremur ráðgerð sú breyting. að í staðinn fyrir að 2 bátar hafa annazt ferðir milli Stykkishólms og Langeyjarness og milli Stykkishólms og Skógarstrandar, skuli einn bátur annast þessar ferðir, og leggur n. til, að styrkur til þessara ferða lækki um 1 þús. kr., þar sem gert er ráð fyrir, að ferðirnar verði ódýrari, ef þær eru reknar af einum bát.

Gert er ráð fyrir, að Ísafjarðarsamgöngur verði reknar með svipuðum hætti og undanfarið. Ný vél hefur verið sett í Djúpbátinn, sem annast ferðirnar, og fellur því niður sú fjárveiting, sem honum hefur verið veitt 2 s.l. ár. Heildarstyrkur til bátsins lækkar því samkv. till. n. um 60 þús. kr. Hins vegar hækkar rekstrarstyrkurinn um 5 þús. kr., vegna þess að gert er ráð fyrir, að teknar verði upp sérstakar ferðir um Skötufjörð, en Djúpbátnum h/f falið að sjá um þær.

Um Norðurlandssamgöngur vil ég taka það fram, að gert er ráð fyrir, að styrkur til Húnaflóa- og Strandabátsins hækki um 2 þús. kr. Töluverður halli varð á rekstri bátsins s.l. ár. og stafar hann að nokkru leyti af því, að ný vél ver sett í skipið, og lánaði Skipaútgerð ríkisins eiganda bátsins 60 þús. kr. til vélakaupanna. Hefur hann sótt um að fá þetta greitt úr ríkissjóði, en n. taldi ekki fært að taka þá ósk til greina. Hins vegar stendur þetta lán hjá Skipaútgerðinni, og má segja, að það sé ríkissjóður, sem hjálpað hefur þessum einstaklingi að komast yfir þessa vél, þar sem Skipaútgerðin hefur veitt honum aðstoð í þessu máli. Þá er lagt til, að nokkur breyting verði á ferðum hins sameiginlega Norðurlandsbáts, sem gengur milli Siglufjarðar, Akureyrar og Sauðárkróks, og er lagt til, að honum verði veittar 38 þús. kr. í hækkuðum rekstrarstyrk frá því, sem veitt var til þessara ferða á s.l. ári. Útgerðarmaður bátsins hefur óskað eftir að fá styrkinn hækkaðan um 72 þús. kr., samkv. till. forstjóra Skipaútgerðarinnar taldi n., að þessi styrkshækkun. sem hún leggur til. ætti að nægja. En það hefur skapazt nýtt viðhorf í þessu máli, þar eð akvegasambandi hefur verið komið á yfir Siglufjarðarskarð, og er því talið, að sérstakur bátur milli Sauðárkróks og Siglufjarðar muni vera óþarfur yfir sumarmánuðina eða þann tíma, sem Siglufjarðarskarð er fært bifreiðum. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að Norðurlandsbáturinn muni taka að sér að koma á Skagafjarðarhafnir. Ekki þótti þó fært, að Haganesvík byggði allar ferðir sínar á þessum bát, því að viðkomutími hans væri mjög óhentugur, og þess vegna taldi n. nauðsynlegt að taka upp sérstakan styrk til Haganesvikurbáts, að upphæð 10 þús. kr., til þess að halda uppi ferðum þangað þann tíma ársins, sem ekki er bílfært þangað. Enda þótt talsverður halli hafi orðið á rekstri Sauðárkróks- og Siglufjarðarbáts á s.l. ári, taldi n. ekki fært að gera till. um fjárveitingu til hans upp í hallareksturinn, þar eð endanlegur rekstrarreikningur bátsins liggur enn ekki fyrir. Hins vegar kæmi það til athugunar síðar, þegar reikningurinn liggur fyrir, hvort ríkið teldi sér kleift að hlaupa undir bagga með útgerðarmanni bátsins. — Þá leggur n. til, að styrkur til Hríseyjarbátsins verði hækkaður um 1 þús. kr.

Það er ekki gert ráð fyrir, að teljandi breytingar verði gerðar á Austfjarðasamgöngum. Það hafði verið gert ráð fyrir því af n. á s.l. ári, þegar fjárl. voru síðast samin, að á s.l. sumri mundi skapast akvegasamband við Norðfjörð, þannig að ekki yrði þörf fyrir bát þangað nú, en nú er talsvert í land, að svo verði, svo að gera verður ráð fyrir, að hans verði þörf á sumri komanda. Hins vegar á bæjarstj. erfitt með að fá bát til þess að halda uppi þessum ferðum og taldi, að það mundi reynast ókleift að fá bát í þessu skyni fyrir sama styrk og veittur hefur verið undanfarið. Hefur hún því farið fram á að fá styrkinn hækkaðan, og hefur n. fallizt á að hækka hann um 5 þús. kr. — Þá er lagt til, að styrkur til Mjóafjarðarbáts hækki um 2600 kr.

Um styrk til Suðurlandsskips er það að segja, að n. hefur orðið sammála um að leggja til, að hann verði hækkaður um 10 þús. kr. Það skal tekið fram til skýringar, að hér er ekki um raunverulegt skip að ræða, heldur styrk til flutninga, sem veittur er vegna hækkana á ákveðnum gjöldum fyrir hvert tonn af vörum, sem fluttar eru austur. Það hefur tíðkazt um alllangt skeið að veita slíkan styrk. og undanfarið hefur flutningskostnaður hækkað, m.a. vegna hækkaðs benzínverðs. Og þótt þau héruð, sem hér er um að ræða, séu í akvegasambandi, þá þarf oft að flytja vörurnar langar leiðir til hinna afskekktu staða, og verða vöruflutningar því mjög dýrir. N. þótti því sanngjarnt að hækka þennan styrk upp í 80 þús. kr. Meðalflutningsgjald á tonn austur í Vík mun vera 270 kr., en að frádregnum þeim styrk, sem 9lþ. hefur veitt undir liðnum Suðurlandsskip, mun flutningskostnaður verða 242 kr.

Þá vil ég minnast nokkrum orðum á Faxaflóasamgöngur. H/f Skallagrímur í Borgarnesi hefur annazt þessar ferðir á s.l. ári með m/s Laxfossi og m/s Víði. Félagið hefur ekki sótt um styrk til ferða m/s Laxfoss, en hins vegar um 200 þús. kr. styrk vegna rekstrarhalla, sem hefur orðið á ferðum m/s Víðis, sem félagið gerði út á tímabilinu jan.–maí 1947. Þetta skip hefur félagið haft á leigu frá 1. jan. 1945, og lauk leigutíma þess 15. maí s.l. N. hefur borizt lauslegt rekstraryfirlit yfir rekstur m/s Víðis á tímabilinu jan.–maí 1947, og sýnir það 200 þús. kr. rekstrarhalla, en endanlegir rekstrarreikningar félagsins og m/s Laxfoss fyrir árið 1947 lágu ekki fyrir n., og vissi n. því ekki um heildarafkomu félagsins. Með tilliti til þessa treysti n. sér ekki til að leggja til, að hluti þessa rekstrarhalla í heild yrði greiddur, og vill benda á, að n. hefur orðið að hafa þann hátt á í sambandi við rekstrarhalla á flóabátasamgöngum, þar sem endanlegir rekstrarreikningar hafa ekki verið lagðir fram. Nú bárust mér hins vegar í gær endanlegir rekstrarreikningar h/f Skallagríms fyrir árið 1947. Samkv. þeim er yfirfært tap til næsta árs kr. 150945.30, og orsakast þetta allt vegna rekstrarhalla m/s Víðis á fyrrgreindu tímabili. Tekjur nema rúmum 149 þús. kr., þannig að hallinn af m/s Viði hefur reynzt talsvert minni en félagið gerði upphaflega ráð fyrir. Það má því segja, að það liggi nokkurn veginn ljóst fyrir, hvernig þessum málum félagsins er varið, og að n. gæti þess vegna tekið afstöðu til beiðni félagsins um styrkveitingu vegna rekstrarhalla m/s Víðis. En nú er það svo, að það hefur verið lagt mjög hart að n. að hækka ekki fjárframlög til flóabátanna og halda a.m.k. þeim upphæðum, sem veittar voru í þessu skyni í fyrra. N. hefur því átt mjög erfitt með að taka til greina óskir um aukið framlag til einstakra flóabáta, enda þótt hægt hafi verið að sýna, að halli hefur orðið á ferðum þeirra. Ég hygg þó, að fyrr eða síðar verði að greiða einhvern hluta þessa rekstrarhalla. Á síðasta þ. var ætlazt til þess, að ferðir héðan upp í Borgarnes og Akranes yrðu reknar styrklaust, en gert ráð fyrir að veita einhvern styrk til Vestmannaeyjaferða, sem h/f Skallagrímur hefur stundum annazt. Vil ég leyfa mér í þessu sambandi að vitna til nál. n. frá því í fyrra, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„En nú er ætlazt til, að þessar ferðir (á Faxaflóa, þ.e. samgöngurnar við Akranes og Borgarnes) verði reknar styrklaust, því að gert er ráð fyrir, að Vestmannaeyjum verði séð fyrir ferðum með öðrum hætti. En það skal þó tekið fram, að ef ríkisstj. eða forstjóra skipaútgerðarinnar þykir nauðsyn til bera að fá Laxfoss til sérstakra ferða þangað og af því leiði halla, telur nefndin óhjákvæmilegt að bæta það úr ríkissjóði á sínum tíma.“

Það má þannig segja. að h/f Skallagrímur, sem hefur fyrir áeggjan samgmn. tekið m/s Víði á leigu og notað Laxfoss þennan tíma til Vestmannaeyjaferða, geti með nokkrum sanni bent á, að fyrir liggi vilyrði um, að greiddur yrði a.m.k. einhver hluti þess halla, er kynni að verða af þessum ferðum. Ég tel þó hæpið, að þótt þessir reikningar séu fram komnir frá h/f Skallagrími, verði fært á þessu stigi málsins að flytja brtt. um að taka upp í till. n. fjárveitingu upp í þennan hallarekstur, en hefði þó gjarnan viljað ræða það mál við hæstv. fjmrh. og fjvn. En afstaða n. hefur verið sú, að hún vildi fá að sjá endanlega endurskoðun á rekstri þessara ferða í heild, og ég held, að það hafi verið uppi raddir um það í n., og vil greina frá því, að í raun og veru ætti að vera hægt að reka þessa „rútu“, sem er langsamlega arðvænlegasta flóabátaleið hér við land, styrklaust eða með hagnaði, og vil benda á, að þetta mun vera eina flóabátafélagið, sem borgað hefur hluthöfum sínum arð og þ. á m. ríkissjóði af þeim hluta, sem hann á í félaginu. Hins vegar get ég upplýst, að hluthafar Djúpbátsins h/f á Ísafirði, sem er byggður upp af almennu hlutafé í því byggðarlagi, hafa aldrei séð einn einasta eyri í arð. En viðvíkjandi greiðslu á hluta af þessum hallarekstri h/f Skallagríms, þá er það mál opið, og hef ég bent á, að samvn. samgm. í fyrra gaf vilyrði fyrir því að greiða hluta þess halla, sem kynni að verða á rekstri m/s Víðis í Vestmannaeyjaferðum.

Þá vil ég geta þess að lokum, að samkv. till. n. eru heildarframlög áætluð til styrktar flóabátaferðum 3500 kr. lægri en þau voru árið 1947. Styrkur til Djúpbátsins h/f er ráðgerður að lækki um 60 þús. kr. og til Flateyjarbátsins um 20 þús. kr. Hins vegar eru hækkanir, sem n. leggur til, smávægilegar.

Skal ég svo ekki fara fleiri orðum um þessa.r till. n. og hygg, að n. hafi stillt þeim eins mikið í hóf og henni var frekast unnt. Ég hef nú gert grein fyrir, hvers vegna n. hefur orðið að taka þessa afstöðu, en með henni er þó að sjálfsögðu engum dyrum lokað í framtíðinni, hvað þetta efni snertir.