19.03.1948
Sameinað þing: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

129. mál, fjárlög 1948

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins segja fáein orð út af orðum hv. þm. V.-Húnv. og sérstaklega því, sem hann beindi til fjmrh. varðandi prentun og framlagningu ríkisreikninga fyrir árin 1944, 1945 og 1946, sem og undirbúning til þess að hraða endurskoðun ríkisreikninganna fyrir árið 1947. Síðan fyrirspurnin kom fram, sem sami þm. stóð að hér á Alþ., og að athuguðum ástæðum, hef ég reynt að fá reikningana svo tímanlega úr prentun, að þm. gætu fengið þá í hendur á þessu þingi. En annríkið er mikið í Gutenberg; samt er ekki vonlaust, að reikningarnir fáist áður en þingi slitur, en þó er rétt að taka það fram, að óræka vissu hef ég ekki fyrir því.

Varðandi ríkisreikninginn fyrir árið 1947 og undirbúning undir fljóta afgreiðslu hans er ég sammála hv. þm. um það, að rétt sé að gera ráðstafanir til þess að flýta þeirri afgreiðslu, og hef ég farið fram á það við hæstv. forseta Alþ., að kosnir verði á þessu þingi yfirskoðunarmenn fyrir landsreikningana 1947. Þetta vildi ég upplýsa að gefnu tilefni. Annars er það sannast að segja, að ég veit ekki, með hvaða ráðum eða meðulum væri hægt að reka betur á eftir því að fá svör frá ýmsum stofnunum við aths. endurskoðenda, en það er aðallega þetta, sem tafið hefur afgreiðslu þeirra reikninga, sem hér ræðir um. Það liggur við, að fjmrn. þyrfti að hafa heimild til dagsekta á þá, sem ekki sinna þeim fyrirspurnum, sem lögum samkvæmt ber að svara, en er trassað mánuðum saman. En það er einkum þetta, sem tefur fyrir því, að Alþ. berist reikningarnir í tæka tíð.