19.03.1948
Sameinað þing: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

129. mál, fjárlög 1948

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég á hér eina brtt., sem er merkt með rómverskum XVI á þskj. 582. Árið 1944 voru samþ. hér lög á Alþ. og hér í þessum sal um heimild til þess að endurgreiða toll af sænskum timburhúsum, að svo miklu leyti sem hann væri hærri á húsunum en á hráefninu sjálfu. Þá voru nærri allir þm. sammála um þetta. Að vísu var nokkur ágreiningur um það, hvort endurgreiða ætti allan tollinn eða aðeins að svo miklu leyti sem hann væri hærri á húsunum en hráefninu. En þá voru húsnæðisvandræði og menn vildu ýta undir byggingu húsa, en allir þeir, sem þá kunnáttu höfðu, að þeir gátu unnið að byggingu sem smiðir, gátu fengið nóg að gera við húsasmíðar. Verndartollur vegna iðnaðarmanna í þeirri iðngrein átti því engan rétt á sér þá, þó að hann ætti það áður fyrri. Alþ. kvað skýrt á um, að það vildi láta tollana falla niður með heimild í lögum. Menn á Selfossi, Akureyri og víðar höfðu flutt inn timburhús. En húsin urðu dýrari en þeir höfðu búizt við, svo að full þörf er fyrir þá að fá endurgreiðslu. Fyrrv. fjmrh. (PM) sá sér ekki fært að endurgreiða þetta, hefur enda alltaf verið á móti þessu máli. En hæstv. núv. fjmrh. tók þessu vel í vetur, er ég spurði um þetta, og sagðist hafa þetta til athugunar og einnig með báta, sem keyptir hefðu verið til landsins, og taldi ráðh., að tekin yrði af ríkisstj. upp í 22. gr. heimild fyrir ríkisstj. að endurgreiða þennan toll. Ég hef ekki fylgzt með bátunum, en þekki vel til aðstöðu þeirra, sem lögðu í húsakaupin, og veit, að þeir eiga siðferðislega kröfu á endurgreiðslu tollsins. Ég hef flutt hér brtt. um að endurnýja heimildina, en bætt við: „ef fært þykir og ríkisstj. hefur tekjuafgang á árinu.“ En ég tel, að svo muni geta orðið. Það er víst, að tekju- og eignarskattur verður miklu hærri en áætlað er, og einhverjar tekjur koma af eignakönnuninni, þó að vitanlega verði illa haldið á því máli, og þeim hefur ekki verið ráðstafað. Og ef til vill verður því hægt að greiða þetta, þótt fjárlög séu nú með halla.

Ég er nú ekki með fleiri brtt., en ég tel, að Alþ. hafi mistekizt með þessi fjárlög í heild. Mér fannst, að þyrfti að hækka rekstrarkostnaðinn. Það verður að láta opinbera starfsmenn vinna eins og menn. Ef það væri gert, væri hægt að spara mikið í mannahaldi. Þetta átti fyrst og fremst að gera. Og Alþ. verður fyrr eða seinna. að hafa mannskap í sér til að koma þessu fram. en það hefur hummað það fram af sér nú. Ég taldi þetta það fyrsta og allra fyrsta, sem spara þyrfti á fjárl. En þetta hefur mistekizt. Þessi brtt. er hæversklega orðuð, og ég vona, að menn sjái sér fært að samþ. hana. Ég veit af viðtali við hæstv. fjmrh., að hann hefur fulla löngun til að standa við gamlan vilja Alþ. í þessu máli og gera Alþ. ekki ómerkt orða sinna, sem það verður, ef tollurinn verður ekki endurgreiddur.