10.11.1947
Efri deild: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

52. mál, gjaldaviðauki 1948

Frsm. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. —Þetta frv. á þskj. 62 er borið fram af hæstv. ríkisstj., og er aðalefni þess, að ríkisstj. sé heimilt að innheimta á næsta ári með 100% viðauka vitagjald, aukatekjur ríkissjóðs samkv. l. nr. 27 27. júní 1921, stimpilgjald samkv. l. nr. 75 27. Júní 1921 og síðari l., sem hafa ákvæði um stimpilgjald, leyfisbréfagjöld og lestagjald, enn fremur að innheimta á sama tíma með 50% viðauka gjöld samkv. I. nr. 60 30. des. 1939, 2. gr., um gjald af innlendum tollvörutegundum og eignarskatt samkv. 14. gr. l. nr. 6 9. jan. 1935, álagðan á árinu 1948.

Fjhn. þessarar d. hefur haft málið til athugunar, og samkv. nál. á þskj. 92 hefur hún einróma lagt til, að málið nái fram að ganga. Þess skal þó getið, að tveir nm. voru ekki viðstaddir, þegar málið var rætt í fjhn., og hafa því óbundnar hendur um afgreiðslu frv.

Það er að vísu ljóst, að allt er enn í óvissu um, hvernig fullnægt verði tekjuþörf ríkissjóðs á næsta ári. Fjárlagafrv. liggur fyrir Alþ., og vafalaust verða gerðar á þessu þingi einhverjar ráðstafanir, sem geta haft meiri eða minni áhrif á tekjuþörf ríkissjóðs, en hins vegar er fjhn. samt sem áður á einu máli um það, að engar líkur séu til, að ríkissjóður muni á næsta ári vera undir það búinn að sleppa þeim tekjuauka, sem frv. ráðgerir, sem er ekki annað en framlenging á gildandi ákvæðum óbreyttum, eins og er á þessu ári, og þykir því ástæðulaust að draga afgreiðslu þessa máls.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Ég býst við, að ekki verði ágreiningur um tekjuþörfina, og legg til f.h. n., að frv. verði samþ.