23.03.1948
Sameinað þing: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

129. mál, fjárlög 1948

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið, þær er gerðar voru við 3. umr., hafa nú verið afgr. með atkvgr. á Alþingi. Samkv. því verða niðurstöðutölurnar sem hér segir: Rekstrarútgjöld nema 221084000. Tekjuáætlun 221.4 millj., og tekjuafgangur á rekstrarreikningi er því rúmar 300 þús. kr. Auk rekstraryfirlitsins koma viðbótarútgjöld samkv. 20. gr. 26.8 millj., og nemur þá greiðsluhallinn alls 24.6 millj. kr.

Eins og kunnugt er, hefur farið langur tími til afgreiðslu fjárlaga í þetta sinn, og liggja til þess ýmsar ástæður, en þó einkum þær, hversu dýrtíðin og afleiðingar hennar hafa torveldað hóflega afgreiðslu á ýmsum atriðum.

Í fjárlagafrv. því, er lagt var fyrir Alþingi í byrjun þings, var ekki gert ráð fyrir útgjöldum til niðurgreiðslu afurða á innlendum markaði né heldur til að standa straum af fiskábyrgðinni. Var þetta af þeim ástæðum, að þá var enn ekki afráðið, hvaða stefna yrði upp tekin af Alþingi í því efni, þ.e. hvort haldið yrði áfram að vinna gegn dýrtíðinni með beinum niðurgreiðslum úr ríkissjóði, eins og gert hefur verið nokkur undanfarin ár, og líka hvort haldið yrði áfram á þeirri braut að létta undir með sjávarútveginum á þann hátt, að ríkissjóður ábyrgðist fast verð afurðanna, en það var, eins og kunnugt er, fyrst gert á s.l. ári. Það er alkunna, að um þessi mál öll fóru fram miklar ráðagerðir á s.l. hausti, og kom það að vísu í ljós, að menn væru sammála um, að lækka þyrfti dýrtíðina, en hitt virtist örðugra, að finna leiðir til lækkunar, sem allir gætu við unað. Útvegsmenn gerðu ýtarlegar kröfur af sinni hálfu um stórkostlega niðurfærslu vísitölunnar og lækkun gengisins, en að þessu ráði var þó ekki horfið.

Ekki þarf að orðlengja mjög um þessi mál, því að öllum landsmönnum, þeim er fylgjast með því, er gerist í opinberu lífi, mun kunnugt, hver niðurstaðan varð. Ríkisstj. og þeir flokkar, er að henni standa, urðu ásátt um að setja þá löggjöf varðandi dýrtíðina, sem staðfest var nokkru fyrir áramót. Samkvæmt henni var meðal annars gert ráð fyrir að halda niðurgreiðslum á innlendum afurðum áfram í svipuðu formi og verið hafði, og enn fremur að ábyrgjast verð á fiski líkt og gert var á s.l. ári. Samtímis var lögfest, að vísitalan skyldi verða bundin framvegis, meðan þau lög væru í gildi, við 300 stig.

Ég skal ekki gera önnur ákvæði laganna að umtalsefni. En þetta gerði það að verkum, að nauðsynlegt þótti að semja fjárlagafrv. að nýju. Í hinn upphaflega frv. hafði verið reiknað með vísitölu 310, en hún var nú sett í 300, og verkar það á fjölmarga liði fjárlaganna, svo að ekki þótti vel á því fara að gera þær breyt., er lögin höfðu í för með sér, á annan veg en þann að semja frv. að nýju, og var það ósk fjvn. Þetta var svo gert í þinghléinu um og eftir áramótin, en nýtt fjárlagafrumvarp, þar sem m.a. var tekið tillit til þeirra breytinga, sem dýrtíðarlöggjöfin leiddi af sér, var lagt fyrir Alþingi þann 22. jan.

Á þessu nýja fjárlagafrumvarpi var rekstrarhalli. er nam um 600 þús. kr., en greiðsluhallinn á frv. var hins vegar 26.9 millj. kr. Höfuðbreytingarnar til íþyngingar á rekstrinum voru afleiðingar þær, sem dýrtíðarlöggjöfin hafði í för með sér, þar sem nú þurfti að taka inn í frv. til útgjalda niðurgreiðslur á innlendum afurðum og einnig upphæðir vegna fiskábyrgðarlaganna. Þetta var sett inn í frv. undir einum lið: Til dýrtíðarráðstafana, 55 millj. kr., og er þá gert ráð fyrir, að um 35 millj. kr. þurfi til niðurgreiðslu afurðanna, en 20 millj. kr. til að standa straum af fiskábyrgðinni. Ráðuneytið hafði að öðru leyti, bæði við frv., sem samið var í haust, og eins þetta hið síðara, leitazt við að halda niðri gjöldunum, eftir því sem unnt var, en það er ekkert áhlaupaverk að halda niðri gjaldaliðum ríkissjóðs, sem flestir eru bundnir í lögum. Eina úrræðið, sem þó þykir ekki vinsælt, er að skera niður ólögbundna liði, en hinir stærstu þeirra eru eins og kunnugt er útgjöld til verklegra framkvæmda. Nú mun það sannast mála, að til verklegra framkvæmda hefur á undanförnum árum verið varið of háum upphæðum, ekki einasta of háum vegna þess, að ríkissjóður hafi ekki megnað að standa sómasamlega undir þeim, heldur hefur hið opinbera sogað til sín of mikið af vinnuafli til þessara framkvæmda, sem betur hefði verið varið til framleiðslustarfsemi að margra dómi. Nú var mér það og vitanlegt, og ég hef þar fyrir mér langa þingreynslu, að svo að segja hvaða upphæðir sem í stjórnarfrumvarpið voru settar til verklegra framkvæmda, mundi þingið vissulega telja sig þurfa að gera á þeim breytingar. Þetta á ekki hvað sízt við um fjárveitingar til vega og til hafna. Af hálfu stjórnarandstöðunnar hefur mér verið legið mjög á hálsi fyrir það að vilja draga úr verklegum framkvæmdum í tillögum mínum í stjórnarfrv. Nú hefur það sýnt sig, eins og frv. ber með sér, að í því verða verklegar framkvæmdir með allra mesta móti, samkv. þeim breyt., sem á því hafa verið gerðar með fullu samkomulagi milli ríkisstj. og meiri hl. fjvn.

Þegar nýja fjárlagafrv. var þannig lagt fram, með svo háum útgjaldatölum, þótti mér nauðsyn til bera að reyna að fara sem næst sanni með áætlun teknanna, en þó er ég engan veginn öruggur um, að sú áætlun reynist rétt, og er ég þar sérstaklega hræddur um, að aðflutningsgjöldin kunni að bregðast, sökum þess hvað innflutningur af útlendum vörum, einkum þeim, sem gefa verulega tolla í ríkissjóð, fer minnkandi. Sumir hv. alþm. hafa að vísu reiknað það út, að samkv. innflutningsáætlun fjárhagsráðs, þar sem gert er ráð fyrir yfir 300 millj. kr. innflutningi, eigi verðtollurinn að geta gefið hærri upphæð en þá, sem nefnd er í fjárlagafrv., sem ég hef áætlað 60 millj. kr., en við þann útreikning mun ekki tekið tillit til þess, að krónutala innflutningsins út af fyrir sig er ekki ein leggjandi til grundvallar, því að það skiptir miklu fyrir þennan tekjulið, hvaða vörutegundir eru fluttar inn, og mér er kunnugt um, að einmitt þær vörutegundir, sem gefa mest aðflutningsgjöld, munu sitja á hakanum í innflutningsáætlun fjárhagsráðs.

Með hliðsjón af því, sem að framan er sagt, og eins og ég tók fram, þá hef ég fulla ástæðu til að vera nokkuð uggandi um það, að sumir tekjuliðirnir standist áætlun og þá, að áætlunin í heild reynist rétt. Eftir að fjvn. hafði unnið talsvert að athugun frv. og þeirra gagna, er fyrir lágu, var mér tilkynnt, að meiri hl. n. teldi nauðsynlegt að hækka útgjöldin, og þá einkum og sér í lagi til verklegra framkvæmda, um 15.4 millj. kr., og einnig að fyrir lægju ýmsar till. um hækkanir og óskir um fjárframlög, þar á meðal frá ráðuneytunum sjálfum, sem næmu um 15 millj. kr. að auki, svo að um 30 millj. kr. hækkun mundi verða að ræða.

Það er nú orðið alkunna og hefur verið mjög tíðkað á síðari árum, að stjórnarflokkarnir eða sá meiri hl. þings, sem að stj. stendur hverju sinni, verður að mynda nokkurs konar samtök varðandi afgreiðslu fjárlaga, til þess að ekki fari allt á ringulreið og menn bindist ótal smásamtökum til þess, hver fyrir sig, að koma sínum áhugamálum fram við afgreiðslu á brtt. við fjárlögin, sem alltaf hlýtur að verða til stórhækkunar útgjaldanna. Þegar á það er litið, hversu fjárlagafrv. var orðið yfirhlaðið af útgjöldum þegar frá hendi stj. og tekjuáætlunin teygð svo sem verða mátti, hlaut fjvn. og ríkisstj. að leita eftir leiðum til þess að forðast mjög mikla viðbót á útgjöldunum, en gera fjárlögin þó sæmilega úr garði að því er framlög til hinna nauðsynlegustu framkvæmda snertir. Til þess að ná þessu marki tókst samvinna milli meiri hl. fjvn. og ríkisstj. með þeim árangri, sem fyrir liggur nú í niðurstöðutölum fjárlagafrv. Ýmsa liði, sérstaklega til vega og hafna, þurfti að hækka, en til að mæta þeim hækkunum að nokkru leyti voru svo skornir niður aðrir útgjaldaliðir, er þegar voru fyrir í frv. og sýnt þótti, að unnt væri að lækka að einhverju leyti. Ekki er fyrir það að synja, að sumar af þessum lækkunum geti reynzt of miklar og að þörfin kalli eftir, þannig að þær reynist ekki raunverulegar, þegar til kemur. Verður það varla séð fyrir nú. — Þessi vinna við frv. og athuganir á því, hvar yrði að hækka og hvar mætti lækka, hefur tekið mjög langan tíma, og eins og gefur að skilja, er oft erfitt að sameina vilja þeirra, er að þessu vinna, til ákveðinna aðgerða. Einn telur þessa hækkun mesta nauðsyn, sem annar telur óþarfa, og niðurskurð á einum eða öðrum lið vel framkvæmanlegan, sem aðrir telja ógerlegan. Það er sízt ástæða til að ætla, að útgjöldin fari ekki upp í það, sem áætlað er. Miklu fremur má búast við, að þau verði meiri, eins og oft vill verða. Hitt er miklu kviðvænlegra, að útlitið hvað tekjurnar snertir er engan veginn bjart. Fyrir útgjöldum á 20. gr., sem eru opinberar byggingar af ýmsu tagi, er ekki séð fyrir neinum tekjum nú, frekar en oft áður, og er það ærið efni til íhugunar, hvort halda á því fyrirkomulagi til frambúðar að hafa þá færslu á slíkum útgjöldum, sem tíðkazt hefur nú um nokkur ár. Þetta frv. er byggt hvað tekjuáætlunina snertir á sömu tekjuliðum og í gildi voru mestan hluta s.l. árs, að því viðbættu, að nú hefur verið lögleiddur svo kallaður söluskattur, samkv. dýrtíðarlögunum, og er honum sérstaklega ætlað að mæta þeim útgjöldum ríkissjóðs, er leiðir af fiskábyrgðinni og ábyrgð á útfluttu kjöti. Auk þess er nú lagt til að hækka gjald af innlendum tollvörum. Þegar fiskábyrgðin var fyrst lögleidd á Alþingi 1946, var ekki séð fyrir neinum sérstökum tekjustofni til að mæta þeim halla, er ríkissjóður kynni að hafa af henni, en hins vegar gert ráð fyrir, að síldarkúfurinn svo nefndi, sem menn bjuggust við af sumarsíldveiðunum, gæti mætt þeim halla. M.ö.o., hugsunin var sú, að sumarsíldveiðarnar ættu að geta borið uppi hallann af vetrarþorskveiðunum. Þetta fór nú ekki þannig, að um neinn síldarkúf yrði að ræða, því að sumarsíldveiðin varð svo rýr, að enginn afgangur varð t.d. hjá Síldarverksmiðjum ríkisins til þess að mæta hallanum af fiskveiðunum. Hins vegar er rétt að geta þess, að hallinn af hraðfrysta fiskinum hefði orðið mun meiri, et ekki hefðu sölusamningar verið gerðir þannig bæði við Breta og Rússa, að tengd var saman sala á vissu magni af síldarlýsi og vissu magni af hraðfrystum fiski og samið um verð þannig, að hraðfrysti fiskurinn naut góðs af sölu síldarlýsisins í báðum þessum löndum. Vegna fiskábyrgðarlaganna frá 1946 eða fyrir framleiðslu ársins 1947 hafa nú verið greiddar 18.8 millj. kr., sem aflað hefur verið með lántöku bæði í Landsbankanum og Útvegsbankanum. Samtals er þessi halli álitinn vera um 23 millj. kr. Þegar nú ekki þótti enn hjá því verða komizt að halda áfram á þeirri braut að ábyrgjast fiskinn og að því ráði var horfið með setningu dýrtíðarlaganna í vetur, þótti vissara að sjá fyrir einhverjum tekjum til ríkissjóðs í þessu skyni, í stað þess að reiða sig á svo kallaðan síldarkúf, þar sem reynslan frá liðna árinu hafði sýnt, að sú tekjulind brást.

Þrátt fyrir það, þó að öllum ætti að vera ljós sú hætta, er stafar af þeim miklu útgjöldum ríkisins, sem um ræðir í fjárlagafrv., hefur stjórnarandstaðan, Sameiningarflokkur alþýðu, Sósfl., haldið uppteknum hætti með því að auka, eftir því sem þeir hafa getað, gjaldabyrði ríkisins. Þeir hafa flutt brtt. til hækkunar á gjöldunum um nær 20 millj. kr., sem að vísu voru ekki teknar til greina. Þar að auki greiddu þessir menn. kommúnistarnir, atkvæði með svo að segja hverri einustu brtt. við fjárlögin, sem hafði hækkun útgjalda ríkissjóðs í för með sér. Þeir hafa líka haldið því fram, að tekjuhlið fjárlaganna væri mikils til of lágt áætluð, eða eins og þeir hafa orðað það á sínu máli, að hún væri fölsuð. Með þessu hafa þeir sýnt hið sama skeytingarleysi um afkomu ríkissjóðs og ábyrgðarleysi í athöfnum sínum sem alltaf hefur einkennt þennan flokk.

Þau hafa verið mörg erfið verkefnin, sem fjármálastjórn ríkisins hefur haft við að glíma, síðan þessi stjórn tók við völdum. Vegna fiskábyrgðarinnar þurfti að útvega lán til þess að unnt væri að standa í skilum við útgerðarmenn og sjómenn, og stóð ekki á því hjá kommúnistum að gera hróp að ríkisstj., þegar er þeir vissu, að erfitt var að uppfylla ákvæði fiskábyrgðarlaganna, þegar síldin brást. Þá þurfti að útvega lán til þess að uppfylla þær skyldur, er lögin um ræktunarsjóð og lögin um landnám og nýbyggðir í sveitum leggja ríkisstj. á herðar. Nemur það hvort tveggja 15 millj. kr. auk hins beina framlags úr ríkissjóði, sem eru 5 millj. kr. á ári í sambandi við hvora tveggja þessa löggjöf. Enn fremur þurfti að útvega fé í hinn nýja síldarkreppulánasjóð 1 sambandi við töp síldarútvegsmanna á s.l. sumri, 5 millj. kr. Loks var tekið 5 millj. kr. lán hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna framkvæmda III. kafla laga um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. — Ég drep hér aðeins á nokkur hin stærri atriði. En yfir höfuð má segja, að löggjöf síðari ára m.a. leggi svo þungar byrðar á herðar ríkissjóðs bæði hvað bein framlög snertir, útvegun lána samkvæmt lagaboði og ábyrgðir, að sýnt sé, að ríkissjóður fái ekki lengi undir slíku staðið. Þessi skoðun mun nú vera farin að ryðja sér til rúms hjá öllum þeim, sem vilja horfast í augu við staðreyndir og ganga að verkum sínum með fullri ábyrgðartilfinningu.

Þessi ríkisstj. tók við margs konar löggjöf frá fyrri þingum, sem hafði í sér fólgnar heimildir til lántöku á fjölmörgum sviðum, heimildir, sem ekki höfðu verið notaðar meðan betur áraði fyrir ríkissjóði, en nú ber nauðsyn til að nota. Ríkisstj. hefur leitazt við að fá þau lán, sem heimildir voru fyrir, til þess að hægt væri að halda áfram þeim framkvæmdum, sem lögin gerðu ráð fyrir, en þau lán hafa ekki reynzt fáanleg, og fyrir því hefur þung útgjaldabyrði hlaðizt á ríkissjóð, er sjálfur hefur orðið að greiða fé til ýmissa framkvæmda, upphæðir, sem ætlazt hefði verið til, að teknar yrðu að láni. Þótt lánsstofnanir landsins, og þá einkum Landsbankinn, hafi ekki getað orðið við öllum beiðnum um lán af ríkisstj. hálfu, þá er rétt að kannast við það, að bæði hann og hinir bankarnir báðir hafa aðstoðað ríkisstj. í mörgum efnum mjög vel, og má þar til nefna til að greiða fram úr fiskábyrgðinni, til að leggja fram lánsfé handa landbúnaðinum og til að greiða ullarábyrgðina, sem fyrir lá að leysa úr og ég hef áður gert að umtalsefni í sambandi við fjárlög. Við þetta bætist svo það, að yfirdráttur ríkissjóðs hjá Landsbankanum nemur nú alltaf um og yfir 40 millj. kr. Ég tel rétt að taka þetta fram, ekki sízt vegna þess, að Landsbankinn verður nú fyrir ómildum dómum af hálfu þeirra manna, sem eru á móti ríkisstj., á móti Landsbankanum og á móti viðreisn atvinnuveganna í landinu.

Það hefur verið allmikið talað um það í sambandi við nauðsyn þess að hækka framleiðslukostnaðinn, að rekstrarkostnaður ríkisins væri óhæfilega mikill, og allir munu sammála um, að hann sé hár. Hins vegar hef ég oft á það bent, að sá rekstrarkostnaður er í ýmsum greinum háður lagaákvæðum, sem þarf að endurskoða og breyta til þess að hægt sé að fá lækkun á þessu sviði. Það eru aðrir kostnaðarliðir fjárlaganna, sem ganga enn lengra í því að krefjast útgjalda úr ríkissjóði og skatta af borgurum þjóðfélagsins, útgjaldaliðir, sem Alþ. hefur enn meira vald á árlega en þeim, sem hér hafa verið nefndir. Alþingi hefur á svo mörgum sviðum stofnað til aukinna útgjalda öðrum en þeim, sem beinlínis snerta rekstur ríkisins í þeim skilningi, sem hér hefur verið á drepið, að þar hafa enn þyngri lóð verið lögð á vogarskál útgjaldanna.

Við þetta get ég svo bætt því, að samkv. fjárlögum 1946 voru útgjöld samkv. 10. og 11. gr. 16.3 millj. kr., samkv. fjárlögum 1947 18.5 millj. kr., og í því fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, eru þau 21.4 millj. kr. Hækkunin er að vísu mikil, en þó ekki tiltölulega eins mikil og á öðrum liðum fjárlaganna. Þetta er þó engan veginn sagt til þess að draga neitt úr þeirri þörf, sem orðin er á því að lækka rekstrarútgjöld ríkisins eins og önnur útgjöld. Ég hef mjög haft í huga ráðstafanir í þessa átt, enda er það skyldast, að af hálfu ríkisstj. sé hafizt handa til að lækka rekstrarútgjöld ríkisins.

Á öndverðu hausti fékk ég skrifstofustjóra þriggja ráðuneyta og ríkisbókarann, ásamt aðalendurskoðanda ríkisins, til þess að ganga saman í nefnd til að undirbúa sparnað einmitt á rekstri ríkisins. Hefur nefndin starfað síðan í byrjun nóvember. Hún hefur haldið um 40 fundi og safnað miklu af gögnum um rekstur ríkisstofnana, starfsemi nefnda og ýmsa mikilvæga kostnaðarliði. Ég skal hér drepa á einstök atriði, er n. hefur haft til meðferðar. Sparnaðarnefndin hefur starfað síðan í byrjun nóvembermánaðar s.l. Hún hefur haldið um 40 fundi og safnað miklu af gögnum um rekstur ríkisstofnana, starfsemi nefnda o.fl. Nefndin hefur þegar skilað ríkisstj. álitsgerð um starfsemi nefnda og afhent henni frumvarp til laga um eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana. Af þeim 112 nefndum, sem sparnaðarnefndin hefur tekið til athugunar, leggur hún til:

1. að 31 nefnd starfi áfram óbreytt.

2. að 21 nefnd og ráð verði tekin til sérstakrar athugunar af ríkisstj., með það fyrir augum, að breytt verði að verulegu leyti um starfsaðferðir þeirra og stofnana, sem heyra hér undir.

3. að 18 nefndum verði breytt og ýmist lagðar niður fljótlega eða verkefni þeirra fengin sveitarstjórnum í hendur og eru húsaleigunefndir í þeim flokki.

4. að 23 nefndir, sem nú starfa, verði með öllu lagðar niður.

5. að 19 nefndir, sem ekki starfa eins og stendur, en hafa ekki verið formlega lagðar niður, verði nú leystar upp.

Árlegur sparnaður ríkisins samkv. till. n. yrði þessi:

1. af breytingum hinna 18 nefnda undir lið 3 ca. kr. 300000.

2. af niðurlagningu hinna 23 nefnda undir lið 4 ca. kr. 450000.

Samtals ca. kr. 750000.

Frá dregst: áætlaður kostnaður, sem áhjákvæmilega yrði að hafa, þó að nefndirnar yrðu lagðar niður, ca. kr. 150000.

Sparnaður ca. kr. 600000.

Nefndirnar, sem ekki starfa og nefndin vill nú láta leysa upp formlega, hafa kostað samtals ca. 500 þús. kr. meðan þær störfuðu.

Jafnframt því, sem vísað er til grg. þeirrar, sem fylgdi frv., skal það tekið fram, að aðalástæðan fyrir þeirri skipan, sem sparnaðarnefndin hefur lagt til, að tekin verði upp samkv. þessu frv., er það álit n., að eina leiðin til verulegra umbóta á þessu sviði sé sú, að til sé föst ríkisstofnun, sem hafi það hlutverk eitt að hafa eftirlit með því, að rekstur ríkisins og fyrirtækja þess þenjist ekki út um of, en verði á hverjum tíma haldið innan skynsamlegra og viðráðanlegra takmarka. Útþensluna, sem verið hefur að undanförnu, þarf að stöðva nú þegar, og hverfa síðan smátt og smátt til meiri sparnaðar og betri vinnubragða á hinum ýmsu sviðum ríkisbúskaparins.

Auk þessa hefur nefndin safnað ýtarlegum skýrslum um bifreiðakostnað ríkis og ríkisstofnana, og hefur niðurstaðan af þeirri athugun orðið þessi:

Af 85 fólksbifreiðum, sem eru eign ríkisins, verði 28 bifreiðum skilað og þær seldar. 57 bifreiðar verði notaðar áfram á sama hátt og verið hefur. Við sölu á ofangreindum 28 bifreiðum mundi ríkissjóður alltaf losa ca. kr. 400000, auk þess sem árlegur sparnaður í minnkuðum rekstrarkostnaði bifreiða mundi nema um kr. 1000000.

Það er nauðsynin sú, að einhvern tíma þarf að byrja á því að færa niður kostnaðinn við ríkisreksturinn, sem hefur knúið mig til að hefja þær aðgerðir, er að framan greinir. Það er eðlilegt, að þjóðin geri þær kröfur í sambandi við tilraunir til lækkunar á dýrtíðinni, að ríkið veifi sjálft nokkurt viðnám gegn eyðslunni innan sinna eigin stofnana. Frv. um eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana, sem sparnaðarnefndin hefur samið, var ekki lagt fyrir þetta þing. Fullt samkomulag var ekki innan ríkisstj. um fyrirkomulag það, sem frv. gerir ráð fyrir. Hins vegar var samkomulag um aðalinnihaldið, nákvæmara eftirlit, bætta starfstilhögun og sparnað. Samkomulag var um að lögfesta til bráðabirgða heimild fyrir ríkisstj. til að láta fjmrh. fá fullt vald til að ráða því, hvort aukið sé við starfskröftum, þ.e. fjölgað starfsmönnum í stofnunum ríkisins. Þessi ákvörðun markar stefnu. Hún markar viðnám gegn hinum sívaxandi tilkostnaði.

Þessi byrjun, sem á að veita viðnám á þessu sviði, lætur lítið yfir sér, en ég ætla, að hér sé rétt stefnt, og verði svo fram haldið sem hafið er, hverjir sem með þessi mál kunna að fara framvegis, þá verði afleiðingin sú, að stórum verði lækkuð rekstrarútgjöld ríkisins og ríkissjóði þá um leið gert færara en nú að styðja framfarir landsmanna til sjávar og sveita.

Eins og vænta má, þegar í ríkisstj. sitja menn ýmissa flokka, er eðlilegt, að ýmislegt það sé ákveðið og lögfest, bæði í fjárlögum og öðrum lögum, sem á einn og annan hátt kemur í bága við það, sem manni væri mest að skapi, ef stefna manns eigin flokks réði eða mætti ráða. Svo er það í núv. ríkisstj. Við sjálfstæðismennirnir þar verðum oft að gjalda jáyrði við ýmsu eða þola a.m.k. það, sem við frá flokkssjónarmiði teldum betur mega fara annan veg. Hitt er meira um vert, að með þátttöku sinni í ríkisstj. hefur flokkur okkar tækifæri til þess fremur en ella að hafa heillavænleg áhrif á lausn vandamála þjóðfélagsins, sem nú eru ærin. Viðfangsefni þau, sem fyrir liggja nú og í náinni framtíð, viðreisu á fjölmörgum sviðum og baráttan gegn afleiðingum verðbólgunnar, þurfa athygli og atbeina allra þeirra, hvar í flokki sem þeir standa, sem vilja vöxt og viðgang atvinnuveganna og heill alls almennings í landinu. Þar sem framar þarf að meta þjóðarheill en flokkshagsmuni, viljum við sjálfstæðismenn fúslega leggja okkar lið til. Og þá vitum við okkur vera í samræmi við meginstefnu Sjálfstfl. og vilja hinna beztu manna meðal þjóðarinnar.

Sjálfstfl. gekk í fararbroddi til að afla landinu nýrra atvinnutækja og verja fjármagni landsins til þessara hluta í tæka tíð. Markmiðið var að undirbúa öryggi í atvinnu landsmanna. Sjálfstfl. vill líka leggja sitt lið til þess að bægja frá þjóðinni þeirri hættu, sem verðbólgan bakar henni. Það er ekki nóg að hafa gnægð nýrra atvinnutækja, ef við kunnum ekki með að fara eða högum svo búskaparháttum okkar, að allt kafnar í dýrtíð.

Þjóðin getur vel komizt fram úr örðugleikum þeim, sem nú standa yfir, ef vit og eining ráða athöfnum hennar. Að því viljum við sjálfstæðismenn stuðla eftir beztu getu.