16.05.1949
Neðri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. þm. Siglf. gat ekki mætt á þessum fundi og bað mig að segja nokkur orð um brtt. á þskj. 765. Þær brtt. eru í fyrsta lagi við 5. gr., um að niður falli málsliðurinn: „Vanræksla á tilkynningu varðar réttindamissi til bótagreiðslu úr sjóðnum.“ Það virðist vissulega helzt til strangt í farið, ef skip breytir um veiðiaðferð og tilkynnir það ekki, að það valdi réttindamissi, og ættu hv. þm. að geta fallizt á þessa breytingu. Aðalbrtt. er þó við 9. gr., og hefur hv. þm. Ísaf. þegar gert hana að umtalsefni, það er að segja, að í stað ríkissjóðsframlagsins komi 1/2% innflutningsgjald af verðmæti allra innfluttra vara. Það er vitanlegt, að sá gjaldeyrir, sem sjávarútvegurinn aflar, er með ráðstöfunum fjárhagsráðs tekinn og afhentur innflytjendum, þ.e. kaupmönnum og S.Í.S., og reynslan hefur sýnt, að verzlunin græðir, þegar útvegurinn tapar. Það er því óréttmætt að leggja gjöldin á þann aðilann, sem verst stendur að vígi, en láta heildsalana halda áfram að græða á hans kostnað. Þessi till. hefur því við full rök að styðjast, og vona ég, að hv. d. samþ. hana.