16.05.1949
Neðri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í þann reiðilestur, sem hv. 5. þm. Reykv. hafði hér í frammi. Ég hef ekki útbúið þetta frv. né verið kvaddur þar til ráða. Það er að vísu satt, að ekki er líklegt, að það fullnægi allra þörf, ef mikil óhöpp steðja að. Hins vegar er sjóðurinn alls ekki mjög litill á okkar mælikvarða, þar sem Alþ. kemur til með að leggja fram um 5 millj. til að stofna hann og tekjur verða um 3 millj., en það verða alls 8 millj. eftir eitt ár. Þótt ég hefði talið betra, ef Alþ. hefði séð sér fært að vera stórtækara, þá tel ég þetta þó ekki einskis virði.

Ég vil svo segja út af ummælum hv. 2. þm. N-M. um gjaldið af óskiptum afla, að það er rangt, að útflutningsgjaldið komi hvorki niður á útgerðarmönnum né sjómönnum; það gerir það, og ég tel rangt það, sem hv. 5. þm. Reykv. heldur fram, að málið sé komið út af tryggingagrundvelli og yfir á styrkjagrundvöll. Það er gert ráð fyrir, að þetta fé komi frá sjávarútveginum og ríkið leggi svo á móti, svipað og er í sambandi við almannatryggingarnar. Menn eru nokkurn veginn sammála um gjaldið, hins vegar greinir á um leiðir, þó að ég telji, að það sé nokkuð sama, hvor leiðin er valin. — Ég skal svo ekki fjölyrða um málið nú, en vil að lokum taka það fram, að ég tel, að 5. þm. Reykv. sé á rangri leið með sín stóryrði.