15.03.1949
Neðri deild: 81. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

161. mál, Laxárvirkjun

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Með lögum frá 1937 var leyfð og ákveðin fyrsta virkjun Laxár. En árið 1946 kom beiðni frá Akureyrarbæ um nýja heimild til aukningar virkjuninni, og sú viðbótarvirkjun hefur nú verið undirbúin um skeið. Málið þótti þá hins vegar ekki svo undirbúið, og samningar höfðu heldur ekki verið gerðir milli ríkisins og Akureyrarkaupstaðar, að fært þætti að ganga frá lögum um það á þinginu 1946–47. Hins vegar var ráðuneytinu þá gefin heimild til að undirbúa þessa framkvæmd, svo að ónógur undirbúningur yrði ekki til að tefja verkið, þegar samningar hefðu verið gerðir og ný lög sett um þessa virkjun.

Laxá í Þingeyjarsýslu er ein af beztu virkjunarstöðvum hér á landi, og er helzt að líkja aðstöðunni þar við aðstöðu til virkjunar Sogsins. Það er áætlað, að virkjunarmöguleikar í Laxárgljúfrum og þar í kring séu um 27–28 þús. hestöfl, sem ætlazt er til, að virkjað verði í áföngum. Hið efra í ánni, við Sandavatn, hefur lauslega verið áætlað, að virkja mætti 3040 þús. hestöfl.

Árið 1939 voru virkjuð og tekin í notkun 2.400 hestöfl í Laxárgljúfrum, og 1944 var bætt við vélum, svo að orkan óx við það um 4.000 hestöfl, svo að þar hafa nú alls verið virkjuð rösk 6.000 hestöfl. Þessi orka er nú fullnotuð, bæði á Akureyri og af rafveitunum utan Akureyrar, þannig að 20% þess fólks, sem nýtur góðs af virkjuninni, er utan Akureyrar. En þessi aukning á leiðslu rafmagnsins út um byggðirnar nyrðra er að stöðvast og er raunverulega stöðvuð, af því að orkan, sem fyrir hendi er, er uppétin. En þó eru staðir, eins og t.d. Dalvík, sem bíða þess eins, svo að segja, að taka á móti orkunni, þannig að segja má að strandað hafi á því að öllu leyti, að orkan er þegar fullnýtt. Það er því kominn tími til að hefjast handa um framkvæmd þeirrar virkjunar, sem fyrirhuguð er. Það er áætlað að virkja 11.500 hestöfl í þessum áfanga, og þegar þeirri virkjun er lokið, hafa alls verið virkjuð 17–18 þúsund hestöfl í Laxá. Það er áætlað, að þessi 11.500 hestafla virkjun kosti 25 millj. kr. Í næsta áfanga er áætlað að virkja 9–10 þús. hestöfl, og að lokinni þeirri virkjun er að kalla búið að nýta til fulls neðri hluta árinnar. Þegar þeirri virkjun er lokið, væru miklir möguleikar á að leiða orkuna út um byggðirnar nyrðra og til sjávarsíðunnar, og yrði sú virkjun að duga í alllangan tíma. Er þá hugsað, að Laxá verði hluti í stærra kerfi, rafmagnskerfi landsins.

Um frv. sjálft er ekkert sérstakt né mikið að segja. Það er í aðalatriðum eins og önnur lög, sem samþykkt hafa verið af Alþ. um virkjanir almennt. Þó skal ég skýra 3. gr., með því að efni hennar er árangur af allmiklum átökum og umræðum milli ríkisins og Akureyrarbæjar, eða fulltrúa þeirra aðila. Það þótti sjálfsagt, að í þessari löggjöf yrði meira en áður tekið tillit til þess, að sívaxandi hluti orkunnar yrði leiddur með rafmagnsveitum ríkisins út um byggðir landsins og ríkið yrði þar af leiðandi æ meiri þátttakandi í virkjuninni og orkuveitunni. Hvenær sem er, eftir að lokið er þeirri virkjun, sem nú er í undirbúningi, getur ríkið, samkv. 3. gr., gerzt meðeigandi að Laxárvirkjuninni, og eiga ríkið og Akureyrarbær hana þá í sameiningu. Grundvöllurinn að þessu ákvæði er að nokkru leyti lagður með 7. gr. Sogsvirkjunarlaganna, en þau lög gera ríkinu að skyldu, ef Reykjavík óskar þess, að gerast meðeigandi að Sogsvirkjuninni, þegar virkjunin hefur verið aukin fram yfir það, að Sogið sé virkjað til hálfs, en heimilar hins vegar ríkinu að gerast meðeigandi fyrr. Hins vegar var ekki hægt að ná samningum við Akureyrarbæ um þátttöku ríkisins í þeirri virkjun, sem næst stendur fyrir dyrum. En frá og með annarri virkjunaraukningu hér frá verður ríkissjóður meðeigandi í Laxárvirkjuninni, og skipta Akureyrarbær og ríkið þá með sér virkjuninni eftir ákveðnum reglum. Eins verður ríkinu þá gert kleift að gerast meðeigandi að þeirri aukningu, sem nú stendur fyrir dyrum, fyrir kostnaðarverð. Elzta hluta virkjunarinnar, eða þá virkjun, sem þegar hefur verið gerð, verður ríkið að kaupa að sínum hluta, ef það gerist meðeigandi, og náist ekki samningar við Akureyrarbæ um verð, skal ákveða það með mati. Og þegar þetta er allt komið í kring, gilda sömu ákvæði um sameignina og upphaflega giltu um stjórn sameignar Reykjavíkurbæjar og ríkisins á Sogsvirkjuninni.

Ég fer ekki langt út í fjármál þessa fyrirtækis að sinni. Það er áætlað, að næsta viðbótarvirkjun kosti 25 millj. kr., og skiptist sá kostnaður niður á þrjú væntanleg virkjunarár. Enn þá hefur ekki verið hægt að fullnægja fjármagnsþörfinni með lánum eða á annan hátt. Hins vegar þykir rétt að hafa ríkisábyrgðina þegar fyrir hendi, ef takast kynni að útvega lán. Sannast að segja sér ekki út yfir það á þessari stundu, hvernig takast megi að útvega lán, innanlands eða erlendis; til aukningar Sogsvirkjunarinnar, aukningar Laxárvirkjunarinnar og fleiri virkjana. En það er mál út af fyrir sig, sem ég skal ekki draga inn í þessar umræður.

Ég óska svo að lokum, að þessu máli verði vísað til fjhn., og hygg ég, að það sé viðtekin regla að vísa virkjunarmálum til fjhn.