10.05.1949
Efri deild: 102. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

94. mál, nauðungaruppboð

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Hv. allshn. hefur athugað frv., sem hefur verið lagt hér fram sem stjfrv. Þetta frv. virðist vera mjög vel undirbúið, og eru tekin upp í það dreifð ákvæði frá ýmsum tímum um framkvæmd nauðungaruppboða og dregin úr þeim hin beztu og nýmæli gerð, eftir því sem reynslan hefur kennt. Ég skal eigi eyða tíma d. í að fara út í grg., en þykir rétt að drepa nokkuð á helztu nýmælin.

Það, sem helzt má benda á, er, að ákvæði um uppboð hafa áður fyrr verið þannig, að hver einstaklingur hefur getað farið fram á uppboð, og hafi hann fallið frá uppboðskröfunni, þá hefur uppboðið þar með fallið niður. Nú er stungið upp á, að þessu verði breytt þannig, að leiðin um nauðungaruppboð orki sem gjaldþrotabeiðni, svo að uppboðið fer fram, þótt uppboðsbeiðandi hafi fallið frá kröfu sinni, þannig að aðrir, sem eiga fjárnám í eigninni, geti gengið inn í það. Mun vera sparnaður í þessu, því að áður hefur hver maður þurft að biðja um sérstakt uppboð, og þá hafa mörg uppboð verið auglýst á sömu eigninni.

Þá hefur það nýmæli verið tekið upp, sem ég álít mjög til bóta, að fáist ekki nægilega gott boð á uppboði á því, sem um er að ræða, þá sé hægt að halda aukauppboð til þess að reyna, hvort ekki fáist betra boð. Þetta er auðvitað til hagsbóta fyrir uppboðsþolanda og sýnist geta verið réttarbót.

Þá er enn eitt nýmæli. Iðulegt er, að uppboð, sem eftir l. á að vera einhver hin hentugasta söluaðferð, geti í staðinn orðið mjög óhentug söluaðferð. Nú er reglan sú, að veðhafi, er orðið hefur hæstbjóðandi á uppboði, en fær eigi fullnægt kröfu sinni, getur krafizt þess, að eign verði honum lögð út til eignar fyrir það verð, er hann hefur boðið. Nú kemur það oft fyrir, ef um háa skuld er að ræða, að hæstbjóðandi býður aðeins nokkuð upp í skuld sína og fær því eignina útlagða langt undir sannvirði, en heldur þó persónulegri kröfu á hendur uppboðsþola fyrir mismun uppboðsverðs og skuldirnar. Í frv. er aftur á móti sett það nýmæli, að skuldunautur geti krafizt þess, að eignin sé metin af óvilhöllum mönnum eða með öðrum hætti, og dregst þá matsverðið en ekki uppboðsverð frá skuldinni, sem uppboðsþolandi er í við uppboðsbeiðanda. Þetta hefur verið tekið upp í l. annarra Norðurlanda og sýnist geta verið réttarbót í því.

Þá eru tekin upp ákvæði um að auglýsa betur eignir til uppboðs, en viðgengizt hefur. Lögbirtingablaðið hefur ekki þótt gott auglýsingatæki fyrir almenning, og gert er ráð fyrir, að auglýst sé á annan hátt. Er það vitanlega gert til þess, að tryggt sé, að sem flestir viti um uppboðið og hærra verð fáist því. Vegna þess, að auglýsingar hafa verið ófullnægjandi, hefur komið fyrir, að veðhafar hafa misst rétt sinn, því að þeir hafa ekki athugað að mæta. Þeir eru hins vegar skráðir í veðmálabækurnar. Þarna er það nýmæli tekið upp, að upp boðshaldari skuli senda þeim tilkynningu um uppboð, og það er áreiðanlega til bóta; þótt það kosti uppboðshaldara nokkra fyrirhöfn. — Þá er nýmæli um að aflýsa uppboði, ef því verður komið við, til þess að ómaka menn ekki á uppboðsstað að óþörfu, en iðulegt er, að uppboð eru fyrst afturkölluð þar. — Þá eru settar ýmsar nýjar reglur varðandi innheimtuna til þess að tryggja það, að innheimtumaðurinn misbrúki ekki stöðu sína. — Þá hefur áfrýjunarfrestur til hæstaréttar verið styttur niður í 4 vikur, og er það gert til að hraða fullnustunni. Þetta ætti að vera nægilegur tími, eins og samgöngum er nú háttað, og koma sér vel.

Ég held, að þetta séu þá í höfuðatriðum nýmæli þau; er tekin hafa verið upp varðandi nauðungaruppboð á fasteignum. En varðandi nauðungaruppboð á lausafé eru einnig þau nýmæli, að flytja megi muni á milli hreppa eða lögsagnarumdæma til að koma þeim á uppboð þar, sem mestar eru sölulíkurnar. — Þá er tekin upp eða lögfest sú aðferð við sölu á skráðum skuldabréfum, að þau megi selja utan uppboðs. Þetta hefur verið gert í Rvík, en án laga-. heimildar. Er rétt að setja þetta í l., því að vandræði hafa stafað af því að hafa ekki lögheimild fyrir þessu.

Ég hef þá talið upp flest nýmælin. Hafa þau þann kost, að hér er um venjureglur að ræða, sem myndazt hafa smám saman. Engin l. eru eins góð og þau, er í því eru fólgin að festa ýmsar venjureglur, því að þær hafa sína reynslu að baki. — Ég minntist á útlagningu veðs, og inn í 32. gr. er skotið hinu eina nýmæli, sem n. álítur eigi fullnægjandi rök vera fyrir, að: „Veðhafi samkvæmt veðbréfi, sem er eða verið hefur handhafabréf, hefur eigi heimild til útlagningar samkvæmt 1. málsgr: Rökstuðningurinn er ákaflega veikur, þegar gert er ráð fyrir því í aths. við 32. gr., að gera verði ráð fyrir því, að aðili verði venjulega fyrir tapi, sá er útlagningar þarf með, en það þyki ekki „ástæða til þess að veita eigendum handhafa veðskuldabréfa þetta hagræði, með því að bæði hafa þeir sætt betri kjörum um stimpilskyldu sakir framsals slíkra bréfa en þeir, er nafnbréf fá sér framseld, og reynsla þykir vera um það, að eigendur handhafabréfa hafi oft eða jafnvel venjulega fengið þau með afföllum, stundum allverulegum.“ Ég held, að hvort sem um nafnbréf eða handhafabréf sé að ræða, þá gangi þau iðulega með afföllum. — Svo er bætt við: „Annars skal þess geta, að ákvæði þetta hefur verið tekið í frumvarpið eftir tillögum borgarfógeta í Reykjavík, sem manna kunnugastur er þessu efni.“ Það segir sig sjálft, að séu settar ýmsar reglur, sem þrengja kosti eigenda handhafabréfa, þá verða afföllin enn meiri af þeim en ella. Ég held, að það liggi allt aðrar ástæður til þess, að þetta ákvæði hefur verið sett þarna, sem ég ekki mun nefna núna, enda hefur n. einróma lagt til, með samþykki hæstv. dómsmrh., að þessi málsgr. verði felld niður, en hann sagði n., að ástæðan fyrir því; að gr. hefði komizt inn í frv., væri sú, að honum hefði sézt yfir hana við yfirlestur frv.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar í framsögu. Auðvitað hefði verið hægt að rekja þetta mál miklu nákvæmar, en til þess er hvorki tími né þörf. Ég vil leyfa mér að leggja til, að hæstv. d. samþ. frv. með þeirri breyt., sem kemur fram í nál.