30.11.1948
Efri deild: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð út af þeim orðum, sem hæstv. fjmrh. lét falla hér í ræðu sinni. Eins og ráðh. tók réttilega fram, þá er í frv. gert ráð fyrir því, að stofnaður verði sérstakur sjóður til framdráttar þessu máli, og er gert ráð fyrir, að í hann renni hluti af árlegum ágóða áfengisverzlunarinnar. Er þetta frv. var samið, var ákveðið að miða við þetta, og er engin ástæða til þess, að nokkur skekkja komi fram á ríkisreikningnum. Þetta gæti ekki komið fram nema á einum lið reikningsins, en ef þetta yrði tekið inn á fjárlögin, þá mætti alltaf búast við því, að þessari greiðslu yrði þrýst út af fjárlögum vegna annarra greiðslna, sem fjvn. kynni að telja meira aðkallandi. Að koma þessu þannig fyrir í frv. þótti betur tryggja það, að greiddur yrði árlega ákveðinn póstur til framdráttar þessu máli, heldur en að hafa sjálfstæða upphæð á fjárlögum til þessa, en að sjálfsögðu kemur þetta fram á ríkisreikningnum og á fjárlögum. Er þetta því aðeins bókfærsluatriði, og verður tekið af ágóða ríkisins, hvaða ráðh. sem fer með fjármál ríkisins. Hvað upphæðina snertir, þá mætti ef til vill lækka hana eitthvað, og fyndist mér engin goðgá, þó að hún yrði kannske eitthvað lægri, ef aðeins er tryggt, að pósturinn haldist. Ég óska þess aðeins, að ákveðinn hluti af áfengisgróðanum verði tekinn til þessa, en það er svo auðvitað á valdi ráðh. hvernig hann lætur bókfæra þetta.