16.05.1949
Neðri deild: 111. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Pétur Ottesen:

Ég rökstuddi áðan í mínum fáu orðum afstöðu mína til þessa máls. Hér er um mikið nauðsynjamál að ræða, þar sem með þessu er verið að draga úr þeim mikla háska og vandræðum, sem að þjóðinni steðja á þessu sviði. Árið 1948 var selt áfengi fyrir 63 millj. kr., og nemur það sem næst 500 kr. á hvert mannsbarn á landinu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Reykjavík, en hún á nú í miklum erfiðleikum í sambandi við þetta mál, þá hefur ástandið verið þannig undanfarið, að árlega hafa verið um 100 manns, sem hafa svo algerlega verið ofurseldir áfengisnautninni, að þeir hafa ekki hreyft hönd né fót til þarflegra starfa. Öll þeirra orka og vinna hefur farið í það að útvega sér áfengi. Af þessum 100 manneskjum mun vera um 10–15 konur, en hér með eru ekki taldir allir þeir unglingar, sem eru í þann veginn að sogast niður í foræðið, en eru ekki alveg eins djúpt sokknir og hinir, en það er raunar mesta áhyggjuefnið, hversu margir unglingar virðast vera á þessari leið.

Ég hef hér upplýsingar um, hversu margir menn hafa gist kjallarann, sem svo er nefndur, yfir 8 ára tímabil, og ætla ég að lofa hv. þdm. að heyra smáglefsur úr þeim skýrslum. Árin 1945–48 gistu í kjallaranum 22.087 manns, og er það nokkuð mismunandi eftir árum, og eins skiptíst það ójafnt niður á hvert ár um sig. Ég vil benda á það, að í júnímánuði 1948 komst talan upp í 437. Þegar þess er gætt, að júnímánuður er aðalannatími okkar Íslendinga og hversu mikils virði það er fyrir okkur, að starfskraftar allra nýtist sem bezt, þá hljóta allir að sjá, hversu ægilegt ástandið er. Árið 1948 gistu kjallarann alls 3.867 manns og voru þó nokkru fleiri árið þar á undan. Þetta virðist mér vera svo alvarlegt ástand, að ríkisstjórn, sem selur árlega áfengi fyrir 63 millj. kr. með þessum afleiðingum, og er þó ekki allt talið hér, geti ekki látið hjá líða að gera róttækar ráðstafanir til að firra þjóðina þeim vandræðum, sem hér blasa við, og mér er það ekki sársaukalaust, að nú skuli vera þannig ástatt, að draga verður úr aðgerðunum gegn þessum voða.