11.05.1949
Neðri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

203. mál, skemmtanaskattur og Þjóðleikhús

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Tekjur af skemmtanaskattinum hafa um langt skeið runnið í þjóðleikhússjóð til þess að standa straum af byggingu þjóðleikhússins. Árið 1947 var talið, samkv. þeirri áætlun, sem þá lá fyrir um byggingarkostnað þjóðleikhússins, að nægilegt fé hefði þegar safnazt í sjóðinn til þess að kosta byggingu hússins að fullu. Á þeim grundvelli, sem þá lá fyrir, setti Alþ. lög um nýja ráðstöfun á skemmtanaskattinum, þar sem honum var skipt þannig, að 50% af honum skyldu renna til félagsheimilasjóðs, 40% í rekstrarsjóð þjóðleikhússins og 10% til lestrarfélaga og kennslukvikmynda. En nú hefur komið í ljós, eins og frá hefur verið skýrt við 1. umr. þessa máls í d., að þær áætlanir, sem fyrir lágu 1947, þegar lögin um skemmtanaskatt voru sett, fá ekki staðizt, svo að það vantar allmikið fé til þess, að auðið sé að ljúka við byggingu þjóðleikhússins. Áætlun liggur nú fyrir um það, að alls muni vanta fullar 4 millj. kr. til þess að ganga frá þjóðleikhúsinu svo sem þörf er á og fyrirhugað hefur verið. En þegar tillit er tekið til þess annars vegar, sem eftir er fyrirliggjandi í þjóðleikhússjóði, og hins vegar, að framlagið, sem átti að renna í rekstrarsjóð þjóðleikhússins 1948, er tekið til þess að standa straum af byggingarkostnaðinum, er gert ráð fyrir, að á skorti um það bil 3 millj. kr., til þess að unnt sé að ljúka smíði hússins.

Menntmn. hefur fengið til athugunar frv., sem ríkisstj. hefur flutt um bráðabirgðabreyt. á l. um skemmtanaskatt og þjóðleikhús. Vegna þeirra ástæðna, sem ég hef greint frá, eru nm. allir á einu máli um það, að ljúka verði byggingu þjóðleikhússins og gera það sómasamlega úr garði, eins og fyrirhugað hefur verið. N. vill og fallast á það, að breyt. verði gerð á l. frá 1947 í þá átt, sem frv. ríkisstj. gerir ráð fyrir, þannig að þjóðleikhússjóður fái til ráðstöfunar að nýju nokkurn hluta af skemmtanaskattinum. N. vill þó, að það sé tryggt, að framlagið, sem renna átti í rekstrarsjóð þjóðleikhússins fyrir 1948, gangi fyrst og fremst til þess að standa straum af byggingarkostnaði hússins við þær aðstæður, sem nú liggja fyrir. — Í annan stað vill n. leggja til, að lánsheimild verði gefin til handa byggingarnefndinni, með samþykki ráðh., til þess að ljúka byggingu hússins og það lán síðar endurgreitt af þeim tekjum, sem renna munu í þjóðleikhússjóð, verði þetta frv. samþ. En nm. eru ekki allir ásáttir um, hvernig skipta skuli skemmtanaskattinum. Þó að hún flytji brtt. á þskj. 680 óklofin, hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til að bera fram frekari brtt. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma, og gildir það fyrst og fremst þá skiptingu á skattinum, sem ákveðin er í 1. lið brtt.

Það hefur komið í ljós af viðræðum á fundum n., að þeir, sem standa að byggingu þjóðleikhússins, bæði byggingarnefnd og hæstv. ráðh., sem málið heyrir undir, telja, að erfitt muni verða að sjá fjárreiðum þjóðleikhússins borgið nema 30% skattsins renni í rekstrarsjóð hússins, eins og ráð er fyrir gert í a-lið 1. gr. frv., og raunar erfiðleikar á að fá nægilegt fé til þess að ljúka verkinu, þó að tekið sé tillit til þeirra lánsmöguleika, sem fyrir hendi eru. Menntmn. hefur þó lagt til í brtt. sínum, sérstaklega með tilliti til þess, hve þörfin fyrir byggingu félagsheimila úti um landið er brýn og hve mikið sótzt er eftir að fá þann fjárstuðning, sem l. um félagsheimili gera ráð fyrir, að félagsheimilin haldi þrátt fyrir samþykkt þessa frv. 40% af tekjum skemmtanaskattsins. Enn fremur leggur n. til, að í stað þeirra 35%, sem frv. gerir ráð fyrir, að renni í þjóðleikhússjóð, renni þangað aðeins 25%. Og loks felst í a-lið brtt. n., að í staðinn fyrir 30% komi 25%. Allt miðar þetta, eins og hv. þm. sjá, í þá átt að draga sem minnst úr tekjum félagsheimilasjóðs, ganga eins skammt í því efni og auðið er, eins og málum er nú komið.

Ég sé, að hæstv. menntmrh. hefur flutt brtt: við brtt. n., og er hún alveg í samræmi við það; sem fram hefur komið af hans hálfu á fundi n. Fer hún í þá átt að halda framlagi til rekstrarsjóðs þjóðleikhússins alveg óbreyttu frá því, sem frv. gerir ráð fyrir. Hér er í raun og veru um það að ræða, hvort taka á hærra framlag til þjóðleikhússins árlega og það gildi þá um þeim mun styttri tíma eða, hvort hafa á framlagið til þjóðleikhússins af skemmtanaskattinum lægra árlega, en gera ráð fyrir, að þessi. brbl. gildi um lengri tíma, sem því svarar.

Um leið og ég hef gert grein fyrir brtt. n., vil ég taka fram, að samkvæmt því, sem segir í nál. um rétt nm. til þess að fylgja brtt., sem fram kunni að koma, mun ég fyrir mitt leyti greiða brtt. hæstv. menntmrh. atkvæði.