23.03.1949
Sameinað þing: 52. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

42. mál, fjárlög 1949

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Frv. því til fjárlaga fyrir árið 1949, sem hér liggur fyrir til umr., var útbýtt í Sþ. 1. nóv. s.l. og vísað til fjvn. þann 5. s. m. Þann 14. þ. m., eða eftir rúma fjóra mánuði, skilar meiri hl. till. og nál. á þskj. 460 og 461. Þykir mér rétt að gera hér nokkra grein fyrir þeim óvenjulega langa tíma, sem það hefur tekið að afgreiða málið frá nefnd, samfara því sem gerð verður hér grein fyrir hinum ýmsu brtt., sem fram eru bornar.

Þótt fjárlfrv. væri að mörgu leyti vel undirbúið frá hendi hæstv. fjmrh., þar sem því fylgdi m.a. óvenjulega glögg grg. og margvíslegar upplýsingar, sem annars hefði orðið að afla, þá var þó ljóst þegar í upphafi, að margar breytingar þurfti að gera á því, og m.a. þess vegna engin tök á að afgreiða frv. til 2. umr. fyrir jólaleyfi, hvað þá heldur að ljúka afgreiðslu fjárl. þann tíma.

Þegar frv. var fyrst lagt fram, var gert ráð fyrir 27 millj. 419 þús. kr. rekstrarhagnaði og tæplega 400 þús. kr. óhagstæðum greiðslujöfnuði. En þá er aðeins ætlað 33 millj. kr. til dýrtíðarráðstafana og önnur útgjöld á 19. gr. áætluð 6.5 millj. kr. Ef þessar upphæðir báðar eru dregnar frá rekstrarútgjöldum á frv. og niðurstaðan því næst borin saman við áætluð rekstrargjöld 1948, að frádregnum framlögum til dýrtíðarráðstafana á 19. gr., alls 55.5 millj. kr., sést, að rekstrargjöldin á frv. auk dýrtíðargreiðslu eru 8 millj. kr. hærri en á fjárl., og þá höfðu framlög til verklegra framkvæmda verið skorin niður um 12 millj. kr. Af þessu er ljóst, að rekstrarútgjöld hinna ýmsu stofnana og önnur gjöld, að undanskildum verklegum framkvæmdum, eru áætluð um 20 millj. kr. hærri, en á fjárl. 1948. Þessir liðir fjárl. 1948 munu hafa verið áætlaðir samkv. raunverulegum kostnaði, eins og hann varð á ríkisreikningnum 1946, og samsvarandi liðir á fjárlagafrv. hækkaðir upp í það, sem þeir reyndust á ríkisreikningnum 1947, allt eins og vísað er til í aths. við frv. Nefndin gat því ekki fallizt á, að rétt væri að samþykkja rannsóknarlaust slíka gífurlega útþenslu og hækkun á kostnaði í ríkisrekstrinum, og því varð óhjákvæmilegt að leggja í það mikla vinnu að gera samanburð á hverju atriði út af fyrir sig og ræða þau síðan ýtarlega við forstjóra hinna mörgu stofnana og leita fyrir sér um samstarf til niðurfærslu að verulegu leyti. Hlaut þetta allt að taka mjög mikinn tíma. Hitt var enn lakara, að flestar stofnanirnar töldu sig ekki geta dregið neitt úr kostnaðinum, heldur þyrftu þær þvert á móti meira fé, fleira fólk og meira húsnæði, ef störfin ættu að leysast vel af hendi. Samanburður sá, sem að framan greinir, var sendur ríkisstj. 14. des. s.l. og þess jafnframt óskað, að hún hefði fulla samvinnu við nefndina um niðurskurð á allverulegum hluta af þeim 20 millj., sem rekstrarkostnaðurinn hafði aukizt, eins og fyrr segir. Þessu erindi n. var svarað með því að láta sparnaðarnefnd, er ríkisstj. hafði skipað, athuga samanburðinn og senda síðan tillögur sínar hér að lútandi til ríkisstj., sem síðan mundi ræða málið á ný við n. Það var þó ekki fyrr en 11. febr., að fjvn. fékk till. sparnaðarnefndar, og þá án þess að fá um það nokkra vitneskju, hvort ríkisstj. hefði fallizt á þær tillögur eða hvort hún væri þeim andstæð, annaðhvort í heild eða í einstökum atriðum. Er hér var komið málum, hafði fjvn. raunverulega ekki nema mánuð til að afgreiða frv. Í mörgum einstökum atriðum, sem til umr. voru, kom í ljós, að ríkisstj. sjálf gat ekki komið sér saman. Hæstv. fjmrh. taldi sig ekki geta fallizt á nýja útgjaldaliði, nema samsvarandi lækkun eða nýjar tekjur kæmu á móti, þar sem greiðsluhallinn mætti engan veginn hækka á frv. Önnur ráðuneyti töldu sig hins vegar ekki geta komizt af með það fé, sem þeim væri ætlað í frv. til hinna ýmsu framkvæmda. Og fram á síðustu stundu hafa n. borizt erindi frá hinum ýmsu rn. um fjárframlög til alls konar framkvæmda, sem hæstv. fjmrh. hefur ekki getað fallizt á, að tekin væru upp í frv.

Eins og að framan getur, eru aðeins áætlaðar 33 millj. kr. til dýrtíðarráðstafana á 19. gr., í stað 55 millj. kr. á fjárl. s.l. árs. Varð ekki annað skilið af fjárlagaræðu hæstv. ráðh. við 1. umr. þessa máls en að hann hugsaði sér, að þessi liður yrði ekki hækkaður, og að til umræðu í ríkisstj. væru aðrar leiðir á lausn dýrtíðarmálanna, sem ekki ættu að kosta ríkissjóð neitt fé fram yfir þá upphæð, sem hér var tekin upp í frv. Mun hæstv. ráðh. þá hafa haft í hyggju einkum tvennt: Annað að leyfa útflytjendum að selja einhvern hluta gjaldeyrisins á hærra verði, en hinu skráða gengi, líkt og enn er með gjaldeyri fyrir útflutt hrogn o.fl., en hitt að fella niður kjötstyrkinn til neytenda. En eins og kunnugt er, voru dýrtíðarmálin um síðustu áramót ekki leyst á þennan hátt, heldur á þann veg, að bæta þurfti 41 millj. 640 þús. við þær áætluðu 33 millj., sem fyrir voru til dýrtíðarráðstafana. Að vísu var samtímis gert ráð fyrir nýjum tekjum, að upphæð 18 millj. 640 þús., á móti þessum útgjöldum, en mismuninum, 23 millj. kr., er enn ómætt, og hafa engar till. komið frá hæstv. ríkisstj., hvort hugsað sé að afla nýrra tekna á móti eða á hvern hátt það verði gert.

Blað stjórnarforustunnar, Alþýðublaðið, gat þess um áramótin, að innan ríkisstj. hefði orðið um það ágreiningur, hvernig leysa skyldi að þessu sinni dýrtíðarvandann, er vitað var, að bátaútvegurinn var að stöðvast um nýár og þar með flest eða öll hraðfrystihús landsmanna. Segir blaðið frá því, að Framsfl. hafi þá viljað fara verðjöfnunarleiðina, þ.e. að lækka launin í landinu og skerða þannig kjör launastéttanna, en Sjálfstfl. hafi viljað gengisfall til þess á þann hátt að skerða kjör almennings. Stjórnarforustan, Alþýðuflokkurinn, hafi hins vegar viljað halda áfram á sömu braut og áður, þ.e. að greiða uppbætur úr ríkissjóði á framleiðslu til lands og sjávar og halda áfram niðurgreiðslum á ýmsum vörutegundum, til þess á þann hátt að tryggja almenningi eigi lakari kjör en verið hefur, og að þessi stefna hafi sigrað og orðið ríkjandi, þegar dýrtíðarlögin voru afgr. í desember s.l. Ég skal ekki fara frekar út í það, hve hörð þau átök kunna að hafa verið innan ríkisstj. um það, hvaða stefnu skyldi haldið í þessum málum. Hitt er ljóst, að sú stefna, sem hefur orðið ofan á og Alþýðublaðið tileinkar og þakkar alveg sérstaklega stjórnarforustunni og Alþfl., er fjárfrekasta stefnan fyrir ríkissjóð, eins og sjá má á því, að hækka verður áætlað framlag til dýrtíðarmálanna úr 33 millj. kr. upp í rúmlega 74 millj., eða um rúml. 41 millj. kr., og mun þó hvergi nægjanlegt til þess að fullnægja kvöðum, sem ríkissjóður batt sér með því að halda eitt árið enn þessu fyrirkomulagi. Það er líka hreinn misskilningur að halda, að með þessu séu kjör almennings í landinu óskert eða að fullu tryggð, því að það eru engir aðrir aðilar til en almenningur, sem greiða verður af þessum enn óskertu launatekjum þær rúmlega 41 millj. kr., sem ríkissjóður verður að afla sér á einn eða annan hátt, við það að fara þessa stjórnarforustuleið, fram yfir þær 33 millj., sem þurfti, ef leið sú, sem hæstv. fjmrh. benti á, hefði verið farin eða einhver önnur hliðstæð. Lakast af öllu er þó, að þessi leið, sem valin hefur verið og stjórnarforustan og Alþfl. tileinka sér alveg sérstaklega, gefur engar minnstu vonir til þess að leysa vandann, nema síður sé, heldur leiðir hún lengra og lengra út í óvissuna og skapar meiri og meiri erfiðleika til viðreisnar, sem verður að koma og þjóðin gerir kröfu til, að komi fyrst og fremst frá þingi og stjórn. Núverandi hæstv. ríkisstj. var mynduð til þess að ráðast gegn vaxandi dýrtíð, halda nýsköpun atvinnuveganna áfram og tryggja þau kjör, sem almenningur hafði fengið í landinu, bæði til lands og sjávar. Fyrsta raunhæfa sporið gegn dýrtíðinni var festing vísitölunnar, — ráðstöfun, sem þjóðin sagði almennt ekkert við og þoldi möglunarlítið, þar til útséð var um, að aðrar ráðstafanir, sem að gagni mættu koma, fylgdu á eftir. Sú stjórn, sem ætlaði að gera gildandi festingu vísitölunnar, mátti sízt af öllu hækka á einu ári rekstrarútgjöld ríkisins um 20 millj. kr., eða um 22%, og þenja þannig út takmarkalítið ýmsar stofnanir á kostnað þegnanna.

Afskipti ríkisvaldsins af viðskipta- og atvinnulífi þegnanna eru nú orðin slík, að vart getur nokkur maður hreyft sig til athafna eða öflunar verðmæta, nema hafa áður gengið í gegnum hinn voðalegasta hreinsunareld skriffinnsku og leyfa, sem samfara því að glata þúsundum dagsverka og enn fleiri þúsundum tækifæra kostar þegnana og ríkissjóðinn milljónir króna. Þar við bætist, að ríkissjóður vasast meira og meira í almennum verkefnum þegnanna, ekki með þeim árangri, að þetta spari þjóðinni útgjöld, sé betur af hendi leyst eða gefi ríkissjóði arð, heldur með þeim sorglega árangri, að verkefnin eru verr af hendi leyst, kostnaðurinn meiri og tjón ríkissjóðs tilfinnanlegt á flestum sviðum. Þetta ónauðsynlega tjón verður síðan að leggja á þegnana með nýjum sköttum. Fólkið, sem möglunarlaust fórnaði hluta af launum sínum, þegar vísitalan var fest, í trausti þess að dýrtíðin og álögurnar færu minnkandi, hrópar nú á hærri laun og stillir þá kröfunum minna í hóf, er ljóst er, að hér á Alþingi ríkir ekki mikill áhugi fyrir sparnaði.

Þetta var hið raunverulega viðhorf, sem blasti við fjvn., er hún fyrir alvöru þann 11. febr. gat snúið sér að afgreiðslu fjárlagafrv. Hæstv. fjmrh. vildi m.a. mæta þessu viðhorfi með því að draga úr framlögum til verklegra framkvæmda allt að 12 millj. kr., án þess að jafnframt yrði gerð tilraun til þess að draga úr kostnaði við rekstur ríkisins eða að minnka afskipti ríkissjóðs af ýmsum verkefnum, sem áður fóru betur í höndum einstaklinga. Eru m.a. færð þau rök fyrir þessu, að á meðan þjóðin þarfnast meiri útflutnings til öflunar meiri gjaldeyris, beri ríkinu að draga saman verklegar framkvæmdir, en keppa ekki að sama skapi um vinnuaflið við þá atvinnuvegi, sem starfa að framleiðslunni. Á þetta gat meiri hl. n. ekki fallizt. Í fyrsta lagi var ekki hægt að fallast á allan þann niðurskurð til verklegra framkvæmda sem gert er ráð fyrir í frv., nema að undangenginni breytingu á gildandi lögum, þar sem skylt er að inna af hendi nokkurn hluta framlagsins lögum samkvæmt. Og ætti að fara inn á þá braut að fresta framkvæmdum gildandi laga eða breyta þeim, gæti ýmislegt annað komið til greina en einmitt það, sem hér er gert ráð fyrir. Í öðru lagi eru margar af þeim framkvæmdum, sem hér um ræðir, svo sem vega-, síma-, brúa- og hafnarframkvæmdir, beinn þáttur í aukinni framleiðslu til lands og sjávar, sem styður því meir að öflun gjaldeyris, sem hann er betur ræktur. Og í þriðja lagi er allur sá hópur manna, sem festur er við ýmiss konar miður nauðsynleg störf í ríkisstofnunum, engu síður tekinn frá framleiðslunni en þeir, sem starfa að verklegum framkvæmdum fyrir ríkissjóð. Meiri hl. er vel ljóst, að hér er mikill vandi að ákveða, hvar draga skuli úr og hvar ekki og hve mikið skuli skera niður á hverjum stað. En hitt er þá einnig jafnljóst, að því meiri sem vandinn er, því nauðsynlegra er það, að hæstv. ríkisstj. standi einhuga um það, sem gera verður, og helzt, að um það sé fullt samkomulag á milli hennar og þess hluta fjvn., sem styður hana. Einkum er þó nauðsynlegt, að forusta ríkisstj. beiti sér fyrir slíkri afgreiðslu fjárlaganna. En n. hefur ekki heldur átt því láni að fagna, eins og nál. meiri hl. ber með sér, því að það er einmitt fulltrúi stjórnarforustunnar í n., sem lætur bóka þann fyrirvara, að hann sé ekki sammála meiri hl. um ýmsar brtt., sem hann flytur. Ef þetta hefði átt við þær brtt., sem liggja til hækkunar, mætti segja, að það hefði verið eðlilegt. En fyrirvarinn á einmitt við meginið af þeim brtt., sem bornar eru fram til lækkunar, eins og koma mun fram við þessar umræður.

Þegar athugaðar eru hækkunartillögur meiri hl., sést, að rúmlega 42 millj. stafa frá ákvæðum dýrtíðarlaganna, um 2 millj. eru sumpart lögbundin gjöld, leiðréttingar eða liðir, sem verið hafa áður á fjárl., 8.5 millj. til verklegra framkvæmda, eða um 2/3 af þeirri upphæð, sem lækkuð var frá síðustu fjárl., og ýmsir aðrir liðir 500 þús. Þegar svo þess er minnzt, að hæstv. fjmrh. óskar jafnan eftir sérstakri heimild á 22. gr. til þess að mega draga úr framlagi til verklegra framkvæmda, ef fé er ekki fyrir hendi, og að þessari heimild var beitt allverulega á s.l. ári, verða varla færð sterk rök fyrir því, að mikið ábyrgðarleysi hafi ríkt í n. að leggja til, að framlag til verklegra framkvæmda hækki svo sem lagt er til í brtt.

Það hefur verið mjög um það rætt í seinni tíð, að fjárhag ríkissjóðs sé veruleg hætta búin af því, að fjvn. og Alþingi raski mjög útgjaldaupphæð fjárlagafrv. frá því, sem fjmrh. leggur til, og að nauðsynlegt sé að skapa meiri festu í afgreiðslu fjárlaganna, t.d. með því, að nefndinni og þinginu sé ekki heimilt að fara fram úr hinni ákveðnu útgjaldaupphæð, heldur aðeins að flytja upphæðina til á hinum ýmsu liðum og greinum frv. Má fullyrða, að slíkt fyrirkomulag skapaði meiri festu í fjármálin, ef hæstv. ríkisstj. temdi sér það jafnframt að eyða ekki öðru eða meiru en fjárlög heimila á hverjum tíma. En sá háttur hefur ekki verið hafður á. Bera aukafjárlög allra ára þess glöggt vitni, og er hætt við, að þm. uni illa, að ráðh. einir, hverjir svo sem þeir eru, fái hér um óskorað vald. Hitt væri eðlilegt og sjálfsagt, að tekin væri upp sú venja við afgreiðslu fjárlaga, að hver hæstv. ráðh, gerði það upp við sig, hvort hann vildi bera ábyrgð á sínu rn. með þeim framlögum, sem meiri hluti þingsins ákveður, og stæði síðan ábyrgur fyrir umframgreiðslum, sem kynnu að verða, heldur en að hefja allt árið þrotlausa sókn á fjmrn. um stórkostlegar greiðslur umfram ákvæði fjárlaga. Mundi slík skipan málanna skapa meiri festu í fjármálum ríkisins og vera á margan hátt til bóta.

Ég skal þá gera hér nokkra grein fyrir hinum einstöku tillögum, en get þó að mjög verulegu leyti vísað til nál. meiri hl. um þetta efni.

Við áætlun teknanna hafði n. til hliðsjónar tekjur frá fyrra ári, sem námu þá alls 259.6 millj. og sundurliðast á þann hátt, sem gert er í nál. Með lögum frá 19. des., um dýrtíðarráðstafanir, er ákveðið, að 22 millj. kr. af tolltekjum ríkisins og allur söluskattur, sem er áætlaður 36 millj., skuli renna í sérstakan dýrtíðarsjóð og auk þess sölugjald af bifreiðum, sem ganga kaupum og sölum innan lands, og nýir innflutningstollar og leyfisgjöld, sem áætlað er 15.24 millj. kr. Þá skal einnig samkv. þessum lögum 1% af vöruleyfisgjöldum, að frádregnum kostnaði við verðlagseftirlit og viðskiptamál, renna í dýrtíðarsjóð, og áætlar nefndin þann mismun 1.4 millj. kr. Er því gert ráð fyrir, að samanlagðar tekjur til dýrtíðarsjóðs verði 74 millj. 640 þús. Raunveruleg hækkun tekna á þessari grein er því 18 millj., 400 þús. kr. Áætlaðar tekjur samkv. þessari grein, áður en breyt. eru gerðar, eru 177.8 millj., en tilsvarandi tekjur á s.l. ári reyndust 175.4 millj. Þykir því ekki gerlegt að áætla þessar tekjur hærri en þetta.

Samkvæmt upplýsingum frá póststjórninni hafa gjöld póstsjóðs orðið 6.6 millj. á ári og tekjurnar aðeins 5.8 millj. Hefur því orðið 800 þús. kr. halli á póstsjóði. Fjárlagafrv. gerir hins vegar ráð fyrir 6.800.000.00 útgjöldum á þessu ári, og er það 200 þús. kr. hærra, en var s.l. ár, en tekjurnar eru hækkaðar um sömu upphæð, svo að þetta hefur engin áhrif á heildarniðurstöðurnar. Til þess að jafna tekjuhallann mun ekki nægja að draga úr kostnaðinum, heldur verður að grípa til þeirra ráðstafana að afla tekna. Þykir ekki ósanngjarnt að hækka burðargjald undir prentað mál um 100%, en það gæfi um 200 þús. kr. Þá gæti komið til mála að gefa út sérstök frímerki, sem notuð væru um hátíðar, en þá er mestur kostnaður við póstburð, t.d. hér í borginni. Mætti áætla, að þau gæfu um 150–200 þús. kr. (SigfS: Í tilefni hvaða hátíðar?) T.d. um jólin, eða ef kommúnistar skyldu vilja halda sérstaka upprisuhátíð, gætu þeir notað slík frímerki á bréf sín og tilkynningar og styrkt á þann hátt ríkissjóðinn. Í trausti þess, að gripið verði til einhverra þeirra ráðstafana, sem duga til þess að jafna tekjur og gjöld, ber n. ekki fram brtt. á þessum lið 3. gr.

Samkvæmt upplýsingum frá Landssímanum eru rekstrartekjurnar á s.l. ári um 1.665.000 kr. Ríkisbókhaldið telur, að þær nemi rúml. 2 millj. kr., en þessi mismunur mun stafa af því, að það telur stofnframlag símanotenda til tekna.

Í frv. er gert ráð fyrir, að framlag til notendasíma í sveitum verði 300 þús. í stað 800 þús. á fjárl. Þennan niðurskurð getur n. ekki fallizt á. Hún telur, að ekki beri að draga úr þessum framkvæmdum, því að allir vita, hversu mikils virði það er fyrir þá, sem búa úti um sveitirnar, að hafa síma, og leggur hún því til, að þessi liður verði hækkaður um 500 þús. kr., eða upp í það, sem hann áður var. Aðrar breyt. leggur n. ekki til að gerðar verði á þessum tölulið greinarinnar.

Símamálastjórnin ræddi við n. um, að nauðsynlegt væri að hækka framlög til verklegra framkvæmda Landssímans á 20. gr. úr 1.150.000 kr. í 2.150.000 kr., og ennfremur, að veitt yrði auk þess 1.4 millj. kr. til sjálfvirku símstöðvarinnar á Akureyri og 1.5 millj. kr. til póst- og símahúss í Hrútafirði. Benti Póst- og símamálastj. á, hversu aðkallandi það væri að koma upp sem fyrst símstöðinni við Hrútafjörð, svo að hægt yrði að tryggja sem fyrst viðunandi símasamband við Norðurland og alla Vestfirði, en það samband er nú, eins og kunnugt er, illa viðunandi. Við þetta mundi fást mikið efni frá loftlínum, sem lagðar verða niður, um leið og jarðsíminn er kominn í samband, og mundi verða að þessu allmikill sparnaður.

En með því að gefin var heimild til lántöku á síðustu fjárlögum til þessara framkvæmda, en hún hefur ekki enn verið notuð, þykir ekki nauðsynlegt að taka þetta upp í frv. nú, heldur benda á, að æskilegt væri, að heimildin yrði notuð og verkið framkvæmt svo fljótt sem unnt er.

Í rekstrarútgjöldum Áfengisverzlunar ríkisins eru áætlaðar 30 þús. kr. til auglýsinga. N. sér enga ástæðu til, að þessar vörur séu auglýstar, og leggur því til, að þessi liður falli niður. Þá hefur n. fengið upplýst, að á s.l. ári hafi einn viðskiptavinur verzlunarinnar fengið afslátt á víni, sem nemur rúml. 500 þús. kr. Þykir ekki ástæða til, að slíku verði haldið áfram, og hefur þessu því nú verið breytt. Er það gert í samráði við fjmrh. N. gerir þó ekki till. um hækkun á rekstrartekjum á móti, þar sem vitað er, að þessi tekjustofn mun bregðast fljótt, ef eitthvað þrengist um fjárhag hjá þjóðinni. Hreinar tekjur stofnunarinnar á s.l. ári urðu nærri 53 millj. kr.

Heildarútgjöld Tóbakseinkasölunnar leggur n. til að verði lækkuð um 47 þús. kr. frá því, sem er í frv. Þó þykir ekki rétt að hækka rekstrarágóðann að sama skapi, af sömu ástæðum sem að framan greinir um áfengisverzlunina.

Sparnaðarnefnd hefur lagt til, að þessar tvær stofnanir verði sameinaðar og settar undir eina stjórn, og er þess vænzt, að það verði tekið til athugunar af ríkisstjórninni.

Viðvíkjandi ríkisútvarpinu hefur n. gert nokkrar breyt. N. telur, að í þessari stofnun ríki töluverð ofrausn á ýmsum sviðum, og mun það aðallega vera sökum þess, hve stofnunin hefur yfir miklu fé að ráða og því aldrei þurft nauðsynlega að skera við nögl sér. Hafa áætluð rekstrarútgjöld hækkað hér um nærri 1.1 millj. kr. frá því á s.l. fjárlögum.

N. átti viðræður bæði við útvarpsstjóra og útvarpsráð og óskaði eftir samstarfi við þessa aðila um allverulegan sparnað, en mætti ekki miklum skilningi. Frá upphafi hefur útvarpið haft allar tekjur af Viðtækjaverzluninni, og er sú tekjulind drjúgur styrkur. Auk þess styður ríkissjóður það óbeinIínis með hinum gífurlegu auglýsingum, sem ekki var reiknað með, þegar því var ætlaður ágóðinn af Viðtækjaverzluninni, auk þess sem tekjur af öðrum auglýsingum eru allmiklar. Munu allar tekjur þess af auglýsingum 1948 hafa numið 1.446 þús. kr.

Eftir að hafa athugað þetta mjög nákvæmlega, leggur n. til, að á áætluninni verði laun lækkuð um 77.760 kr., útvarpsefni um 160 þús. kr. og framlög til útvarpsstöðva um 420 þús. kr., enda verði sú upphæð greidd úr framkvæmdasjóði, ef byggt verður á árinu. Í framkvæmdasjóði eru nú tæpar 5 millj. kr., eða rúmlega allur ágóði áranna 1940–47. Árið 1948 voru hreinar tekjur útvarpsins rúml. 12 millj. kr., þegar rúml. 100 þús. kr. hafa verið reiknaðar til fyrningar. Framlag til framkvæmdasjóðsins er 40% af iðgjöldum ársins og nemur 1 millj. og 360 þús. Þá vantar 160 þús. kr., til þess að útvarpið standi undir öllum útgjöldum og fullri greiðslu til sjóðsins, og er óhætt að fullyrða, að með dálítið meiri hagsýni í rekstri stofnunarinnar mætti spara þetta og meira til. Ætti því engin ástæða nú að vera til þess, að tekjur af Viðtækjaverzluninni renni til útvarpsins, heldur greiðast í ríkissjóð. En til þess að svo megi verða, þarf að breyta lögum, og er það til athugunar fyrir ríkisstjórnina.

Þá ræddi n. við forstjóra Grænmetisverzlunar ríkisins og Áburðarverzlunar ríkisins og gerði smávegis brtt., en þar sem ekki er ætlazt til, að ríkissjóður hafi beinar tekjur af þessum stofnunum, þótti rétt að lækka áætlaðar tekjur á móti. Þá þykir rétt að benda á, hvort eðlilegt sé, að þessar stofnanir safni frekar sjóðum af vörusöluágóða, svo lengi sem ríkissjóður greiði niður verðlag á þeim vörum, sem þær selja, og það því frekar sem vörur þessar hafa veruleg áhrif á vísitöluna í landinu. Það atriði verður ráðuneytið að meta.

Nú er það svo, að tekjuafgangur áburðarsölunnar er lagður í rekstrarsjóð, sem nemur orðið um 1.100 þús. kr., og rekstrarafgangur grænmetissölunnar, sem nú nam 133 þús. kr., er ýmist lagður í varasjóð, en hann er nú 300 þús. kr., eða í rekstrarsjóð, sem nú er rúmar 650 þús. kr. Ræddi n. þetta við ráðh., en með tilliti til þess, að báðar þessar stofnanir hafa allþunga vaxtabyrði, hefur fjvn. ekki viljað gera sérstaka till. um þetta atriði. N. ræddi einnig við forstjórann um geymslumöguleika á vörum verzlunarinnar í jarðhúsunum við Elliðaár, en þar sem áður hefur verið upplýst hér allt um þau viðskipti, þykir ekki ástæða til að ræða það hér frekar.

N. leitaði sér margvíslegra upplýsinga um Trésmiðju ríkisins, en það fyrirtæki er nýkeypt og hefur engum arði skilað, nema síður sé. En með því að fyrir Alþingi liggur sérstök þáltill. í sambandi við þetta fyrirtæki, þykir ekki ástæða til að ræða það frekar hér.

Mjög ófullkomnar upplýsingar lágu fyrir um Tunnuverksmiðju ríkisins. Kallaði hún því til sín form. síldarútvegsnefndar, sem nú fer með þessi mál, og fékk hjá honum nákvæmar upplýsingar um rekstur tunnuverksmiðjunnar. Gerir n. þær till., að útgjöldin verði lækkuð niður í 2 millj., 750 þús. kr. En þar sem tekjurnar eru lækkaðar á móti, hefur þetta engin áhrif á niðurstöður fjárlaganna.

Þá hefur n. einnig rætt um olíuskipið Þyril, en rekstur þess er tekinn upp sem nýr liður á 3. gr. Hefur útgerðin verið rekin með hagnaði s.l. ár, og gerir n. engar breyt. í sambandi við það, en væntir þess hins vegar, að ef þarna verði um ágóða að ræða í framtíðinni, þá verði honum varið til lækkunar á olíu til þeirra sjómanna og útgerðarmanna, sem skipið flytur olíu til. Samgmrh. vildi, að þessum ágóða yrði varið til að greiða niður halla á strandferðum, en um það náðist ekki samkomulag í n., þar sem ekki þótti eðlilegt, að útgerðarmenn einir yrðu þannig að greiða hann.

Þá leggur n. til, að landssmiðjan verði tekin undir 3. gr., eins og áður var. Það fyrirtæki skilaði 190 þús. kr. í tekjuafgangi s.l. ár, og hafði þá verið reiknað til afskrifta um 357 þús. kr. Rekstrarhagnaður þessa árs er aftur á móti áætlaður 24 þús. kr., þar sem gert er ráð fyrir, að afskrifa þurfi mikið af útistandandi skuldum, og telur n. rétt að samþykkja þessa áætlun óbreytta.

Þá leggur n. einnig til, að tekinn sé upp nýr liður, Bessastaðabú, til hækkunar á gjöldum um 21 þús. Er þetta tilfærsla frá 8. gr. og gerð samkv. beiðni forsrn.

Með tilvísun til þess, sem að framan segir, leggur því n. til, að breyt. á þessari grein verði gerðar, sem hér segir:

Lækkun gjalda:

Áfengisverzlun ríkisins .......................................... 30000

Tóbakseinkasalan .............................................. 47000

Ríkisútvarpið .................................................... 657760

Viðtækjaverzlunin ..................................................60000

Viðtækjasmiðjan .................... 20000

814760

+ Hækkun tekna landssmiðjunnar ……………………24000

838760

= Hækkun á framlagi til notendasíma í sveitum . .... 500000

Tap á Bessastaðabúi ..............................................21000

521000

317760

Vaxtagreiðslur eru nú nærri 2 millj. kr. hærri, en á fjárlögum s.l. árs. Stafar þetta mest af lausaskuldum ríkissjóðs, sem greiða verður af 6% vexti. Er nauðsynlegt að hafa það í huga, þegar fjárlög verða endanlega afgr., að svo bezt lækkar þessi útgjaldaliður, að ekki verði bætt við nýjum skuldum, heldur verði gert ráð fyrir því að draga úr þeim, sem fyrir eru.

Samkvæmt ósk forsrn. gerir n. till. um að lækka kostnað við æðstu stjórn landsins um 75.320 kr. Er þetta fært sumpart á 3. gr. og sumt á 10. gr. og hefur engin áhrif á heildarniðurstöðurnar.

Áætlaður kostnaður við 9. gr. (Alþingi) er 800 þús. kr. hærri, en á fjárlögum s.l. árs. Stafar þetta mest af hinu langa þinghaldi, sem orðið er á ári hverju. Er sjáanlegt, að á þessu ári verði hér engu um þokað. N. ræddi þó við skrifstofustjóra um möguleika á því að spara allverulega upphæð með því að nota meiri tækni við þingskriftir, og kvað hann það mál vera í athugun. Einnig var rætt um það, hvort gerlegt væri að fella að öllu niður útgáfu ræðupartsins í Alþt., og mundi við það sparast allmikið fé. Er það fyrir forseta þingsins og ríkisstj. að athuga öll þessi atriði fyrir framtíðina.

Áætlaður kostnaður við stjórnarráðið hefur hækkað um 340 þús. kr. frá fjárl. 1948. Leggur n. til, að þessi kostnaður verði lækkaður um nærri 200 þús. Ríkisbókhald og féhirzla kostar um 400 þús. kr. Ritaði n. ríkisstj. bréf og óskaði eftir því, að það yrði athugað, hvort Landsbankinn fengist ekki til að stofna sérstaka deild í bankanum til þess að annast þessi störf fyrir mjög miklu minni upphæð, en n. hefur enn ekki borizt svar við því erindi.

N. ræddi við utanrrh. um kostnað við utanríkisþjónustuna og einkum um möguleika fyrir að draga hana saman á Norðurlöndum. En með því að nú er fram komin um þetta þáltill. á Alþingi, þykir ekki ástæða til að ræða það atriði nánar hér.

Þá er lagt til, að veitt verði 62.600 kr. hækkun til sendiráðsins í París og 100 þús. kr. til aðalræðismannsskrifstofu í Þýzkalandi. Er hér um nýjan útgjaldalið að ræða. Þykir nauðsynlegt að hafa þar sendifulltrúa sökum hinna miklu viðskipta, sem nú eru hafin við Þýzkaland. Hins vegar ræddi n. möguleika á því að draga úr kostnaði við utanríkisþjónustuna. Einkum var rætt um framtíðarskipulag þessara mála á Norðurlöndum, með því að sterkur vilji kom fram um það í n. að fækka þar sendiherrum. Komu fram raddir um það, að nóg mundi vera að hafa einn sendiherra fyrir öll Norðurlönd í stað þriggja, en n, sá ekki ástæðu til að gera till. um breyt. á þessu stigi málsins, og ekki sízt vegna þess, að fram er komin till. til þál. í þinginu um breyt. á þessu fyrirkomulagi. Það er því ekki ástæða til að ræða þennan lið frekar að þessu sinni og eðlilegast að láta það bíða þar til þátill. verður rædd í Sþ.

Fjvn. gerir nokkrar till. til niðurfærslu á 11 gr. Áætlaður rekstrarkostnaður á þessari gr. er tæpum 4 millj. kr. hærri en á fjárl. 1948 og skiptist þannig:

A-liður. Dómgæzla og lögreglustjórn . . 1.015.000

B-liður. Opinbert eftirlit ....................... 1.614.000

C-liður. Kostn. við innheimtu tolla og

skatta ..... ........................................... 768.000

D-liður. Sameiginlegur kostnaður ……… 450.000

Alls kr. 3.847.000

Allir þessir liðir voru á fjárlögum síðastliðið ár tæpar 17 milljónir króna, svo að hækkunin nemur yfir 22%. Finnst n. að vonum, að hér sé um svo alvarlega hækkun að ræða, að nauðsyn beri til að spyrna við fótum. Hún ræddi því þessi mál við flesta þá aðila, sem mál þessi varða, og auk þess athugaði sparnaðarnefndin málið mjög ýtarlega og gerði ýmsar till. til lækkunar, er n. tók til athugunar. Orsökina til þessarar útþenslu er að sjálfsögðu að rekja til þess, að með hverju ári sem líður er ríkisvaldið látið hafa meiri og meiri afskipti af öllum málum í þjóðfélaginu. Margvíslegar reglur og lög eru gefin út um bein og óbein afskipti ríkisvaldsins af svo að segja sérhverju því sem menn taka sér fyrir hendur, en öll slík afskipti kosta bæði tíma og fé og koma fram í síauknum rekstrarkostnaði ríkisins. Auk þess er hér um mikil ný útgjöld að ræða í sambandi við sjálfstæði landsins, en þrátt fyrir þetta telur fjvn. slíka eyðslu óeðlilega. Þessi kostnaður er orðinn að hennar dómi allt of hár. Hefur því meiri hl. fjvn. orðið sammála um; lækkunartill. á þessari grein.

Sparnaðarn. hefur lagt til, að fellt sé niður risna til forseta hæstaréttar, kr. 5.500. Fjvn. féllst á þetta og leggur einnig til, að svo verði gert. Sú ofrausn hefur verið í þessum málum undanfarið, að fjöldi manna fær nú risnufé m.a. allir skrifstofustjórar í stjórnarráðinu. N. getur ekki fallizt á, að þetta sé nauðsynlegt eða rétt, og leggur því til, að þetta verði afnumið.

N. leggur einnig til, að á þessu ári verði ekki . veitt fé til útgáfu hæstaréttardóma, ekki af því, að n. liti svo á, að hætta eigi útgáfu dómanna, heldur af hinu, að hún ætlast til, að söluverð þeirra verði hækkað frá því, sem nú er og gerð tilraun til að láta útgáfuna bera sig fjárhagslega, en þegar reynsla er fengin af þessu, má taka aftur upp fjárveitingu til útgáfunnar,ef nauðsynlegt er. Þykir rétt að taka þetta fram varðandi hæstaréttardómana vegna þess, að ég hafði heyrt, að með þessari till. fjvn. væri verið að leggja til, að hætt yrði prentun og útgáfu hæstaréttardóma að fullu og öllu á Íslandi. — Við báða þessa liði, sem ég hef nú nefnt, sparast kr. 55.500, ef þær till. ná samþykki.

Kostnaður við borgardómaraembættið hefur hækkað um kr. 20 þús. frá fjárlögum. N. leggur til, að framlag til þessa embættis verði lækkað um kr. 18.49. Hefur sparnaðarnefndin áður gert sínar till. um að lækka kostnað við bif- reiðaakstur embættisins.

Áætlaður kostnaður við sakadómaraembættið hækkar um 73 þús. kr. frá fjárlögum. Meðal annars mun sú hækkun stafa af fjölgun 2 manna vegna verðlagsbrota. Þetta mun hækka launin um 49 þús. kr. N. hefur lagt til, að fram- lag til þessa embættis sé lækkað um kr. 24.451. Sparnaðarnefndin hefur einnig gert till. um lækkun á bifreiðakostnaði embættisins. — Fjvn. gat ekki fallizt á aukna fjárveitingu til embættisins vegna verðlagsbrota, þó að ríkissjóði: áskotnist nokkrar tekjur á móti þeim kostnaðarlið.

Þá hækkar áætlaður kostnaður við lögreglustjóraembættið um 110 þús. kr. frá fjárlögum. — N. leggur til, að kostnaður við aukavinnu verði lækkaður um 50 þús. kr. Fjvn. lítur svo á, að mikil ofrausn ríki hér í mannahaldi, og leggur til, að framlag til þessara embætta verði lækkað um 244.399 kr. Af þessu er kr. 100 þús. lækkun á liðnum „annar kostnaður“. Áætlaður kostnaður við ríkislögreglu hefur hækkað um kr. 200 þús. frá fjárlögum. Lagt er til, að kostnaður við biðreiðar embættisins verði lækkaður um 80 þús. kr. Einnig er lagt til, að verðlagsuppbót á laun sé hækkuð um 10 þús. kr. til leiðréttingar á skökkum útreikningi í frv. Fjvn. taldi það vera nauðsynlegt að samræma löggæzlustörfin og taldi eðlilegt að færa niður kostnað, t.d. við æfingarskólann og áhaldakaup embættisins.

Áætlaður kostnaður við landhelgisgæzlu. hækkar um 250 þús. kr. N. ræddi þetta mál mjög ýtarlega við menntmrh., sem nú fer með þessi mál, og forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, sem báðir töldu, að hækka þyrfti framlagið enn um 1 millj. kr., ef ekki ætti að draga mjög úr landhelgisgæzlunni. Einnig var rætt um þetta við fjmrh., sem lagði fram yfirlit um áætlun. og framkvæmd gæzlunnar, byggt á þeim fjárhæðum, sem teknar eru upp í frv. Að fengnum þessum upplýsingum öllum féllst n. á að gera engar breyt. á þessum lið.

Þá leggur n. til, að kostnaður við sakamál verði lækkaður um 20 þús. — Þá leggur n. einnig til, að kostnaður við setu- og varadómara verði lækkaður um 50 þús. kr. Sparnaðarnefndin telur, að mikil lækkun á þessum kostnaði muni fást með því að skipa fastan setudómara með ákveðnum árslaunum og í því sambandi að ráða fastan hæstaréttarlögmann í þjónustu ríkisins, í stað þess að greiða málafærslulaun eftir reikningi.

Áætlaður kostnaður við skipaskoðun hefur hækkað frá fjárl. um 11 þús. kr., við verksmiðjueftirlitið um 108 þús. kr. Fjvn. hefur engar till. til lækkunar á kostnaði við þessar stofnanir. Hins vegar hefur hún ritað rn. bréf og farið þess á leit, að allur rekstur bifreiðaeftirlitsins yrði athugaður nú þegar og nýjar till. sendar n. fyrir 3. umr. Í þessari stofnun virðist vera svo gegndarlaus fjáreyðsla, að undrun sætir, og verður ekki unað við annað, en að hér séu gerðar umbætur á tafarlaust. Samkvæmt ríkisreikningnum 1947 urðu útgjöldin hjá stofnuninni það ár 647 þús. kr. og fóru þá 253 þús. kr. fram úr áætlun. Rekstrarhalli það ár var 85 þúsund kr. Á síðastliðnu ári urðu útgjöldin 646 þúsund krónur og fara 205 þúsund krónur fram úr áætlun. Þessar tölur tala sínu máli og sýna glöggt, að hér þarf að verða gagnger breyting á stofnuninni og starfrækslu hennar. Í stofnuninni vinna 15 fastir menn og auk þess töluverð eftirvinna. Stafar það aðallega af því, að mikið af bifreiðaskoðuninni fer fram á nokkrum vikum. Væri t.d. ekki óeðlilegt að athuga þann möguleika að færa skoðun bifreiða yfir lengra tímabil eða jafnvel allt árið. — Í þessu sambandi vil ég benda á, að hæstv. samgmrh. skipaði n. til þess að athuga framtíðarfyrirkomulag á eftirliti með vélum og verksmiðjum. Starf þessarar n. kostaði um 60 þús. kr., en í áliti n. kemur ekkert fram um það að sameina bæði vélaeftirlitið, skipaeftirlitið og bifreiðaeftirlitið, en með því mætti mikið spara, ef því yrði haganlega fyrir komið. Þetta nál. mun vera dýrasta handrit, sem gefið hefur verið út á Íslandi, þótt það gefi enga ábendingu um að sameina þessar stofnanir eða að draga úr kostnaði með betra fyrirkomulagi. En þess er vænzt, að þetta verði athugað.

Áætlaður kostnaður við löggildingarstofuna hækkar um 17 þús. kr. frá fjárlögum. Er hækkunin öll á liðnum „annar kostnaður“. N. leggur til, að þessi liður verði lækkaður um kr. 13.680, og auk þess, að tekjur á móti gjöldum verði hækkaðar um 19 þús. kr. Eftir því sem sparnaðarnefnd upplýsir, hefur rn. gert ráðstafanir til þess,. að stofnunin hækki skoðunar og viðgerðargjöldin til samræmis við þessar breytingar.

Einnig hækkar áætlaður kostnaður við skipulag bæja um 300 þús. kr. frá fjárlögum. Fjvn. leggur til, að tekjur á móti gjöldum séu hækkaðar um 64.100 kr. til jafnaðar, en bendir jafnframt á, að nauðsynlegt er að gæta meira hófs í þessari stofnun en verið hefur, og leggur áherzlu á, að svo verði gert. Hins vegar er n. það ljóst, að nauðsynlegt sé að veita sveitarfélögunum aðstoð við skipulagningu bæja og þorpa, en telur, að þetta megi verða, þótt gætt sé meira hófs í fjáreyðslu.

Áætlaður kostnaður við eftirlit með verðlagsmálum er hækkaður um kr. 1.286.000 frá fjárlögum s.l. árs. Hér eru eins og fyrr áætlaðar jafnmiklar tekjur á móti. Sparnaðarnefnd hefur allýtarlega athugað þessa stofnun. Leggur hún til, að viðskiptanefndin verði lögð niður og fjárhagsráði falin störf hennar. Telur hún, að með því megi spara um 200 þús. kr. í launum nefndarmanna. Þá leggur hún og til, að skömmtunarskrifstofan verði lögð niður og störfin lögð undir fjárhagsráð og jafnframt verði skömmtun á ýmsum nauðsynjavörum af numin. Telur nefndin, að við þetta mætti spara 600–700 þús. kr. Fjvn. kallaði til sín alla þessa forstjóra fyrir stofnununum og ræddi ýtarlega við þá um málið. Var það sameiginleg skoðun þeirra, að stofnanirnar þyrftu meira fólk, meira húsnæði og enn meira fé en áætlað er í frv. Þá ræddi n. einnig við viðskmrh. um málið. Kvaðst hann ekki geta búizt við, að unnt væri að lækka þennan kostnað, nema með verulega breyttu fyrirkomulagi og minnkandi verkefnum fyrir stofnanirnar að annast. Væru í undirbúningi breyt. á þessum málum, sem þó ekki væri víst, að draga mundu neitt verulega úr kostnaði, þótt samþ. yrðu. N. er þeirrar skoðunar, að draga beri mjög verulega úr þessu bákni og þeim kostnaði, sem það hefur í för með sér, og að framkvæmd þessa máls eigi og verði að vera margfalt einfaldari og ódýrari og helzt beri að vinna að því að leggja niður sumar deildir hennar, svo sem skömmtunarskrifstofuna. Í trausti þess, að ríkisstjórnin og Alþingi skipi þessum málum á annan og ódýrari veg, leggur hún til, að framlagið til þessara mála verði lækkað um 1.186.500 kr. En með því að tekjur eru áætlaðar jafnháar á móti útgjöldunum, hefur lækkun sú, sem hér er gert ráð fyrir, ekki áhrif á niðurstöðutölur á þessari gr., þó samþ. verði. Þetta hefur þó áhrif á dýrtíðarsjóð, verði till. fjvn. ekki samþ., og vil ég benda hæstv. fjmrh. á, að ef svo fer, þá verður að afla dýrtíðarsjóði aukinna tekna til að standast þessi útgjöld.

Áætlaður kostnaður við húsaleigunefndir hækkar um 79 þús. kr. vildi n. lækka þetta framlag allverulega á s.l. ári, en með samkomulagi við hæstv. forsrh. var þetta þó ekki gert, í trausti þess, að dregið yrði verulega úr kostnaði við nefndirnar, en þau loforð hafa engan árangur borið. Meiri hl. leggur því nú til, að þessi liður verði lækkaður um 129.800 kr., og telur jafnframt, að þessi útgjöld eigi sem allra fyrst að hverfa af fjárlögum. Kostnaður við húsaleigun. er nú orðinn um 230 þús. kr. Mikið af þessu fé gengur til að greiða laun til embættismanna ríkisins, sem einnig hafa full laun fyrir önnur störf. Má áreiðanlega koma þessum málum fyrir á ódýrari hátt. Nú eru t.d. húsaleigunefndir í Höfðakaupstað, Seltjarnarneshreppi og Kópavogshreppi, og má geta nærri, hvort nauðsynlegt er, að ríkissjóður beri þann kostnað. En eigi að halda þessari skipulagningu áfram, hlýtur hver hreppur á landinu að krefjast framlags úr ríkissjóði.

Áætlaður kostnaður við toll- og skattheimtu hækkar um 768 þús. kr. frá fjárl. og sameiginlegur kostnaður um 450 þús. kr. Leggur n. til, að framlag til tollstjóraembættisins í Reykjavík verði lækkað um 85.996 kr., framlag til tollgæzlu í Reykjavík um 90 þús. kr. og utan Reykjavíkur um 23.400 kr., framlag til skattstofunnar um 162.800 kr., og utan Reykjavíkur um 155 þús. Eru þessar upphæðir minna en helmingur af þeirri hækkun, sem gerð er frá fjárlögum.

Áætlaður kostnaður við 12 gr. hækkar um 3 millj., 475 þús. frá fjárlögum. Stafar þessi hækkun mest af kostnaði við ríkisspítalana, 1 millj. og 680 þús., til berklavarna 474 þús. og sjúkrastyrkur 1.3 millj. kr.

N. ræddi mál þessi öll við landlækni, heilbrmrh. og forstjóra ríkisspítalanna. Sparnaðarnefnd hafði einnig athugað þessi mál mjög ýtarlega og gert till. til lækkunar, sem nema alls 300 þús. kr., auk þess sem hún leggur til, að daggjöld séu hækkuð allverulega, einkum á fæðingardeildinni nýju. Þá hafa og verið leidd sterk rök að því, að mat á hlunnindum, sem fært er sem tekjur, sé óhóflega lágt og að ráðstafanir beri að gera til þess, að það sé fært í sanngjarnt horf. Hefur n. ritað rn. um þetta atriði og fengið það svar, að matinu sé jafnan áfrýjað til ríkisskattanefndar, sem samkv. l. hefur endanlegan úrskurð í málinu. Er því auðsætt, að fáist ekki ríkisskattanefnd til þess að meta hlunnindin á eðlilegu verði, verður að gera aðrar ráðstafanir til þess, að rétt mat komi hér fram. Það er upplýst, að greiddar hafa verið rúmar 80 þús. kr. í launauppbætur til lækna við Landsspítalann og að enn sé með þessu reiknað í frv. En með því að fyrir þessu er ekki heimild í lögum, leggur n. til að launaupphæðin við Landsspítalann verði lækkuð um 84 þús. kr. Þá leggur hún einnig til, að tekjurnar af daggjöldum verði hækkaðar á sama spítala um 160 þús. N. leggur einnig til, að tekjur fæðingardeildarinnar verði með hækkun daggjalda hækkaðar um 315 þús. kr. Af þeirri hækkun kemur þó aðeins til góða fyrir ríkissjóð.

Þá leggur n. til, að kostnaður við berklavarnir verði lækkaður um 19.100 kr. Er gert ráð fyrir því, að sjúkradeildin verði lögð niður og störfin falin félmrn. Þetta er gert í samráði við það rn. Þá er einnig lagt til, að styrkurinn til berklasjúklinga sé lækkaður um 300 þús. kr. Þetta er einnig gert í samráði við rn., sem telur, að sú upphæð, sem þá er eftir, verði nægileg.

N. leggur til, að teknir verði upp í frv. 3 nýir gjaldaliðir. Í fyrsta lagi 500 þús. kr. til sjúkrahúss í Reykjavík. Er það í fyrsta skipti, sem tekið er upp í fjárlög framlag til sjúkrahúsbygginga í Rvík. Fyrir fjvn. lá erindi, sem lagt hefur verið fram af borgarstjóranum í Rvík, um þetta mál, og er þar farið fram á 1.300 þús. kr. framlag til þessara mála. Þessi mál hafa verið höfð út undan fram að þessu, en hins vegar er það engan veginn verjandi, að Reykjavík, jafnstór og hún er orðin, skuli ekki hafa nægilega stórt sjúkrahús til þess að taka á móti sjúklingum, ef t.d. sótt kæmi upp í bænum; en eins og kunnugt er, þá er sjúkrahúskostur bæjarins nú þannig, að til stórvandræða mundi horfa, ef slíkt kæmi fyrir í stórum stíl. N.. hefur því, lagt til, að 500 þús. kr. verði varið til þessara mála á fjárl. Hér er ekki um bæjarmál eingöngu að ræða, heldur mál, sem varðar alþjóð, því að sjálfsögðu mundu aðrir en bæjarmenn einir njóta þarna vistar, þar sem alltaf er mikill fjöldi ferðamanna utan af landi staddur í bænum og getur þurft á því að halda að fá vist á sjúkrahúsi, ekki síður en bæjarmenn.

Í öðru lagi eru 30 þús. kr. til læknisvitjanasjóða, sem er skv. l. nr. 59 frá 1942. Í þriðja lagi eru 15 þús. krónur til 2 ára gamals drengs, sem sendur var til lækninga í Ameríku. En foreldrum þessa drengs er með öllu ókleift að: bera kostnað af þessari för hans af efnahagsástæðum. — Hér er um alveg sérstakt atvik að ræða, og er ekki hægt að greiða þessa upphæð af því fé, sem veitt er til sjúklinga venjulega sem styrkur til utanfarar. Er þess því vænzt, að till. verði samþ. N. hefur átt tal um þetta við landlækni, sem hefur óskað þess, að þetta verði tekið upp sem nýr liður á frv.

Skal þá ræða hér nokkuð um 13. gr., en það er sú greinin, sem fjvn. hefur verið mest ásökuð fyrir vegna till. til hækkunar á útgjöldunum.

Áætluð rekstrarútgjöld á þessari grein hækka um tæpar 2.4 millj. kr., frá því, sem er á fjárl. s.l. árs. Af því er 65 þús. kr. hækkun á stjórn vegamála, 1 millj., 250 þús. á sérleyfisferðum, en þar koma áætlaðar tekjur á móti, 458 þús. kr. nýr liður til ferðaskrifstofu, og þar eru einnig áætlaðar tekjur á móti, og 600 þús. kr. hækkun vegna flugmála.

N. leggur til að „annar skrifstofukostnaður“ (I. 2) verði lækkaður um 26 þús. kr. og ferðakostnaður verkfræðinga (I. 3) um 50 þús. kr., og eru þá ætlaðar sömu upphæðir til þessara liða og voru á fjárl. í fyrra.

Framlag til nýrra akvega hefur verið lækkað í frv. um tæpar 4 millj. kr. frá því, sem var á fjárl. fyrir árið 1948. Getur nefndin ekki fallizt á, að þetta verði gert. Hún leggur því til, að þessi liður verði hækkaður upp í 7 millj. kr. og verði upphæðinni skipt eftir því, sem. tekið er fram í till. nr. 53 á þskj. 460. Hinir breyttu atvinnuhættir í landinu orsaka það, að þörfin fyrir nýja vegi er enn meiri en nokkru sinni fyrr, enda er það beinlínis skilyrði fyrir því, að byggð haldist í hinum ýmsu héruðum landsins og að framleiðslan dragist ekki saman, að unnt sé að þoka jafnt og þétt áfram vegalagningu um þau. — Eru kröfur um þetta langt fram úr því, sem hægt er að mæta á skömmum tíma, eins og segir í nál.

Til viðhalds akvega er áætlað í frv. 9 millj. kr., en það er sama upphæð og var á fjárl. 1948. Bæði vegamálastjóri og samgmrh. hafa lagt fast að n. að hækka þetta framlag um allt að 4 millj. kr., þannig að alls yrði þessi liður um 13 millj., og telja þeir, að það sé lágmark til þess að geta haldið vegunum sæmilega við á þessu ári. Aftur á móti hefur fjmrh. ekki viljað fallast á, að n. tæki upp þessa hækkun, nema tekjur væru tryggðar á móti. Með því að það mun hafa verið rætt í stj. að hækka tolla af benzíni til þess að mæta þessum útgjöldum, þá þótti n. rétt að gera engar till. um hækkun á þessum lið, fyrr en séð væri, hvort aflað mundi tekna á móti.

Til brúargerða er áætlað á frv. 2 millj. kr., og er það 795 þús. kr. lægra en á fjárl. 1948.

Nefndin leggur til, að framlag til brúa verði hækkað um 1.883.250 kr., og þessu skipt á þann hátt, sem fram kemur í till. Langsamlega mestur hlutinn af þessari upphæð er endurveiting á þeim 35%, sem skorið var niður á framlögum til brúa á s.l. ári, en auk þess er nauðsynleg viðbót, til þess að unnt sé að ljúka smíði þessara sömu brúa, eftir því sem áætlað er að þær kosti. Einnig leggur n. til, að veitt verði fé til 4 nýrra brúa, samtals 320 þús. kr. Fyrir n. lágu till. frá vegamálastjóra um framlög til 19 annarra brúa, sem mjög aðkallandi er að byggðar verði og talið er að kosta muni rúmlega 2 millj. kr. Þó að n. viðurkenni þörfina á, að þessum brúm verði komið upp, þá telur hún sér ekki fært að leggja til, að fé verði veitt til þess á þessu ári.

Í sambandi við rekstur strandferða vildi ég fara hér nokkrum orðum, þó að n. geri ekki neinar till. til breyt. hér að lútandi. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 1 millj. 676 þús. kr. útgjöldum vegna strandferðanna. „Esja“ er áætluð með 508 þús. kr. rekstrartapi, „Hekla“ með 438 þús., og „Skjaldbreið“ og „Herðubreið“ með 300 þús. kr. hvor.

Þykir rétt að benda á í þessu sambandi, að þegar það var ákveðið í milliþn. á sínum tíma að byggja strandferðaskipin „Heklu“, „Skjaldbreið“ og „Herðubreið“, og síðar enn önnur tvö af sömu gerð, lágu fyrir áætlanir um, að „Esja“ og „Hekla“ gætu borið sig, og því til sönnunar var bent á „Esju“, sem jafnan skilaði allverulegum rekstrarafgangi á strandferðunum, og því þá beinlínis haldið fram, að hin strandferðaskipin væru starfrækt með tapi vegna þess, hversu óhentug og gömul þau væru. Það var þá beinlínis talinn hagur að því fyrir ríkissjóð að fá þessi nýju skip til viðbótar við „Esju“. Ég verð að segja það, að mér eru það mjög mikil vonbrigði, að eftir að skipin eru orðin tvö af Esjugerð, að þá skuli vera gert ráð fyrir því, að hallinn á rekstri þeirra verði 1 millj. kr. á ári.

n. hefur ekki lagt til, að þessari áætlunarupphæð yrði breytt til lækkunar, stafar af því, að upplýst er, að hallinn á útgerðinni árið 1948 var ekki ein milljón og ekki heldur 2 milljónir, heldur var hallinn á 10 fyrstu mánuðum ársins, eða þangað til 31. okt. s.l., orðinn 3 millj. kr. Að vísu var þar 1 millj. kr. halli á „Súðinni“. Fæ ég ekki skilið, hvers vegna er verið að halda því skipi úti með slíkum árangri eftir að búið er að afla nýrra og hentugra skipa í ferðirnar. Þau voru aldrei smíðuð til þess að flytja farþega milli landa og tapa á þeim ferðum, til tjóns bæði fyrir ríkissjóð og strandferðirnar, en „Súðin“ svo látin annast strandferðirnar á meðan og tapa enn miklu meir en „Esja“. Því hefur verið haldið fram við n. af hæstv. samgmrh., að þessum ferðum yrði ekki haldið áfram, nema tryggt væri, að ríkissjóður tapaði ekki á þessu, en nú sé ég, að áætlað er að halda strandferðaskipi í utanlandssiglingum í sumar, þar sem „Hekla“ á að vera í siglingum milli Íslands og Bretlands. Ég vil því vænta þess, að ríkisstj. geri nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að tryggt sé, að útgerðin verði ekki rekin með halla, hvorki þau skip, sem í millilandasiglingum eru, né heldur hin, sem strandferðirnar annast á meðan, eins og sýnt var fram á af mér, að verið hafði á s.l. ári, en þá hafði hallarekstur ýmissa báta, sem hafðir voru í strandferðum, verið 475 þús. kr.

Þetta er myndin af útgerð strandferðaskipanna eins og hún er rekin í dag, þó að n. hafi ekki séð ástæðu til að gera breytingar á þessum lið, af ástæðum, sem ég tók fram áðan. Ég vil einnig benda á í þessu sambandi, að við uppskipun og útskipun er gert ráð fyrir 140 þús. kr. halla hér í Reykjavík einni saman, og geta allir gert sér í hugarlund, hvers konar vinnubrögð þar munu vera ríkjandi. Ef slík vinnubrögð eru í hverri höfn alls staðar á landinu og með sams konar ráðstöfunum og með hlutfallslega jafnmiklum halla, þá held ég að óhætt væri að hækka þennan lið allverulega, þ.e.a.s. ef Skipaútgerðin ætti að bera hallann. Þess er því einnig vænzt, að þetta verði gaumgæfilega athugað af ráðherra og reynt að skipa þessum málum betur en gert er í dag.

Nefndin hefur ekki skipt sér neitt af framlagi til flóabáta, en samvn. samgmn. mun hafa lagt fram till., sem gera grein fyrir þessu, og mun ég því ekki ræða það hér.

Þá ætla ég að ræða hér nokkuð um áætlunarferðirnar á vegum póststjórnarinnar. Þetta er nýr liður á þessari gr. frv. í ár, en áður var þetta fært á 3. gr. Á síðustu fjárl. voru gjöldin áætluð 2,3 millj. kr. og jafnháar tekjur á móti. Á frv. eru gjöldin nú færð 3.550 þús., eða 850 þús. hærri, og jafnháar tekjur á móti. Fjvn. hefur kynnt sér þennan rekstur mjög rækilega, og verður ekki komizt hjá því að ræða hann nokkuð hér. Samkv. upplýsingum frá póststjórninni hafa gjöldin á norðurlandsleiðunum orðið 1 millj. 656 þús. kr., en tekjur á móti 1 millj. 490 þús., eða 166 þús. kr. rekstrarhalli, og er þá ekkert ætlað fyrir afskriftum. Ef reiknað er með 10% afskriftum á kaupverðinu, 1 millj. 220 þús. kr., bætast enn 122 þús. kr. við hallann. Nú er það hins vegar vitað, að það er alls ekki nóg að afskrifa þessar eignir um 10%, ef marka má kostnað við viðhaldið á norðurlandsbifreiðunum, sem samkv. reikningunum hefur orðið rúml. 708 þús. kr. á árinu. Er hér því um að ræða annaðhvort mjög vafasama stjórn á þessum málum og ábótavant eftirlit, eða þá að vagnarnir eru í svo slæmu ástandi, að það þarf að afskrifa þá miklu meira en 10%. Svipað er að segja um Hafnarfjarðarleiðina. Rekstrargjöld þar hafa orðið 1 millj. 615 þús. kr. án afskrifta. Sé hér einnig gert ráð fyrir 10% afskriftum af 2.6 millj, kr. kaupverði, bætist einnig við útgjöldin 260 þús. kr., og verða þau þá 1 millj. 875 þús. kr. Tekjur á móti eru 1 millj. 636 þús., svo að hér er um rekstrarhalla að ræða, sem nemur 239 þús. kr. Og þetta er á þeirri leið á landinu, sem fluttir eru um 900 þús. farþegar á ári, eftir þeim bezta vegi, sem enn hefur verið lagður hér á landi, og undir betri aðstæðum en á nokkrum öðrum stöðum á landinu. Hér við bætist, að vagnarnir eru allir nýir, en samt hefur viðhaldskostnaður orðið 472 þús. kr. Annaðhvort er, að viðhaldskostnaðurinn er óskiljanlega hár eða vagnarnir svo lélegir, að 10% afskrift er allt of lítil.

Þá þótti það einkennilegt að sjá, að vaxtakostnaður er ekki nema 82 þús. kr., þegar upplýst var, að skuldir fyrirtækisins, sem þessa vaxtabyrði átti að bera, nema 5 millj. kr. Hvar gat ríkissjóður fengið lán með svo hagkvæmum kjörum, þegar vextir eru almennt reiknaðir 6% og vaxtakostnaður þá nálægt 300 þús. kr.? Kemur síðar í ljós, að það er póstsjóður, sem lánar út þetta fé. Nú þótti óskiljanlegt, hvernig póstsjóður gæti lánað svo stórar upphæðir, þar sem álitið var, að hann hefði ekki yfir öðru fé að ráða en því, sem ætlað er til rekstrarútgjalda við þá stofnun, enda vitað, að tekjur hans hafa ekki hrokkið fyrir útgjöldum. En þá upplýsist, að hér er um að ræða fé, 2 millj. 220 þús. kr., sem póststjórnin innheimtir fyrir aðra, m.a. orlofsfé, sem innheimt hefur verið, — fé sem greiða verður fyrirvaralaust, þegar viðkomandi eigendur krefjast. Ég get sannarlega ekki skilið í því, hvernig þeir, sem þessum málum stjórna, geta talið sig hafa heimild til að fara þannig að, hvort heldur um er að ræða orlofsfé eða aðrar upphæðir, sem póstsjóði er trúað fyrir og hann er ekki eigandi að. Verður að krefjast þess, að því verði kippt í lag nú þegar.

Þá er það einnig upplýst, að skuld við sérleyfissjóð er 750 þús. kr., og virðist að hér bresti einnig heimild til að nota það fé til þess að standa undir þessum útgjöldum ríkissjóðs. Hlutverk sérleyfissjóðs er allt annað, en að standa undir slíkum hallarekstri. En væntanlega verður það ekki heldur látið dragast, að þetta verði lagfært og féð þegar endurgreitt sjóðnum. Er þá fengin full skýring á því, hvers vegna vaxtakostnaður er ekki meiri en 82 þús.

Þá skal einnig upplýst, að snemma á þessu þingi fékk fjvn. erindi, þar sem ákveðnir aðilar, sem þessum málum stjórna, eru bornir sökum í sambandi við rekstur bifreiðanna, þannig að blandað hafi verið saman þeirra eigin viðskiptum og viðskiptum sérleyfisferðanna, ríkissjóði í óhag. Sendi n. þetta erindi til ráðherra, sem löngu síðar endursendi það nefndinni, með bréfi og skýrslum frá póststjórninni. Segir póststjórnin m.a. svo í bréfinu: „Telji háttvirt fjárveitinganefnd þessar upplýsingar ekki nægilegar, virðist eðlilegast, að réttarrannsókn yrði látin fara fram“. Fjvn. er ekki saksóknaraðili í máli þessu og þaðan af síður dómari, og vísar því þess vegna til ríkisstj. Gögnin liggja fyrir, en það er ekki fjvn. að dæma, hvort ákæran er rétt eða ekki. En hins vegar væri ekki óeðlilegt, að ákærðir væru látnir bera ábyrgð, eftir því hvort ákæran reyndist rétt eða ekki. Þykir eðlilegt, að gerð verði gangskör að því að rannsaka, hvernig þessum rekstri öllum er háttað, og gera hann hreinlega upp sem þrotabú, ef ekki er hægt að koma honum á fjárhagslega öruggan grundvöll, því að engin ástæða er til þess að ríkissjóður reki slík fyrirtæki með stórhalla, sem einstaklingar hafa áður getað rekið með ágætum hagnaði og auk þess greitt ríkissjóði drjúga skatta af rekstrinum. Hins vegar gerir n. engar till. um þetta, en ég vil aðeins benda á þetta til athugunar fyrir hæstv. ríkisstj.

Þá leggur n. til; að liðurinn IX. ásamt undirliðum verði felldur niður. Hefur þessi kafli verið tekinn sem nýr liður í frv. Þetta hefur engin áhrif á afkomu ríkissjóðs, en gert er ráð fyrir 200 þús. kr. halla, sem taka á úr sérleyfissjóði. N. sér ekki ástæðu til þess, að ríkissjóður sé að taka á sig áhættu af þeim viðskiptum, sem hér eru rekin. Eins og ég tók fram áður, hefur þessi burtfelling engin áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Nefndin leggur til, að framlag til hafnarmannvirkja og lendingarbóta verði hækkað um 195 þús. og því skipt eins og fram er tekið í brtt. Hafa n. borizt fjölmargar óskir um meira en tvöfalt þetta framlag, og mér þykir rétt að upplýsa, að ríkissjóður á ógreitt framlag til ýmissa bæjar- og sveitarfélaga, sem nemur 4.235.000.00 kr., svo þó að allt framlagið verði samþ., mundi það ekki nægja nema rúmlega. til að greiða vangreidd framlög. Nú þótti n. ekki rétt að gera till. um, að þetta fé fari allt til að greiða þessi framlög, sem ég hef lýst hér. Það mundi hafa stöðvað ýmsar nauðsynlegar framkvæmdir annarra hafna. Hún fór þó nokkuð eftir því og flokkaði hafnirnar þann- ig, að þær fengju hærri framlög, sem ættu mest inni hjá ríkissjóði og jafnframt höfðu í hyggju mestar framkvæmdir á þessu ári. Komust þannig tvær hafnir í hæsta flokk. Önnur þeirra höfnin á Patreksfirði, sem á nær 900 þús. kr. hjá ríkissjóði og ætlar að gera framkvæmdir þar í ár fyrir 1 millj. 200 þús. kr. Hin, höfnin á Akranesi, sem á um 500 þús. kr. hjá ríkissjóði og ætlar að framkvæma þar fyrir 1.5 millj. kr. á árinu. Lagt er því til, að þessar hafnir fái hvor um sig 300 þús. kr. Hins vegar er einnig lagt til, að 300 þús. kr. verði lagðar til landshafnarinnar í Njarðvíkum og Keflavík. Fjvn. þótti ekki viðeigandi að leggja ekki til, að tekið væri upp framlag til einu landshafnarinnar sem til er á landinu. Aðrar hafnir hafa verið áætlaðar með tilliti til þess, hve mikið þær eiga hjá ríkissjóði og hve mikið þær ætla að framkvæma á þessu ári.

Þá er eitt atriði í sambandi við þetta mál, sem óhjákvæmilegt er að minnast á. Margvíslegar umkvartanir hafa komið frá ýmsum sveitarfélögum um það, hvernig stjórn þessara mála hafi verið. Hefur þegar verið lýst beinum skaðabótakröfum á hendur ríkissjóði fyrir mistök í framkvæmd þessara mála, sem talið er að stafi frá undirbúningi málanna á vitamálaskrifstofunni. Fjvn. leggur að sjálfsögðu engan dóm á það, hvort þessar ásakanir eru réttar, en hitt er öllum augljóst, að hin almennu sveitarfélög hafa ekki tök á því að láta undirbúa eða stjórna þessum málum sjálf og treysta að fullu þeim aðila, sem ríkið hefur valið til að sjá um þau og sendir fyrir sína hönd til þess að gæta þess, að framlag ríkissjóðs, sem er 40–50% af verðmætunum, komi að sem beztum notum. Hafnir þær, sem sent hafa slíkar umkvartanir, eru: Bakkafjörður, Bolungavík, Hofsós, Sauðárkrókur og Ólafsfjörður. Hafa allir þessir staðir orðið fyrir það miklum áföllum, að það er vafasamt, hvort ekki þarf að gera sérstakar ráðstafanir, til þess að þeir geti haldið áfram framkvæmdum og borgað það sem borga verður og borga þarf. Þetta er svo alvarlegt atriði fyrir þessa staði og fyrir ríkissjóð sjálfan, að á þessu máli verður að taka föstum tökum. Ég endurtek það, að hér er ekki um neinar ásakanir að ræða frá fjvn. Hún leggur engan dóm á það, hvort þetta er stofnuninni að kenna, en skýrir aðeins frá staðreyndum, sem hafa kostað viðkomandi sveitarfélög stórkostlegar fjárfúlgur. Þetta hefur verið rætt við samgmrh. og honum gert ljóst, hvaða hætta er hér á ferðum.

Þá hefur fjvn. lagt til, að teknar séu upp í fjárlagafrv. 1.200 þús. kr. til hafnarbátasjóðs. Þetta er samkv. lögum. Er ekki hægt annað en að taka þetta inn á fjárl. nema lögunum verði breytt. Og þá kemur að því, eins og ég sagði í upphafi, að ræða um, hvort það eru endilega þessi lög, sem þarf að breyta, eða einhver önnur, sem meiri sparnað gæfu og frekar mætti án vera.

Eins og fyrr er getið, er áætlun til flugmála 600 þús. kr. hærri, en á fjárl. Nefndin leggur til, að laun samkvæmt I. verði lækkuð um 114–300 þús. kr. og laun og annar kostnaður samkv. III. um 34 þús. kr., eða alls 392.300 kr. Í þessari stofnun hefur orðið mikil útþensla sem er kannske eðlileg, en það er þá einnig eðlilegt, að allt sé gert, sem unnt er, til þess að halda þessum kostnaði niðri. Þó að þetta verði samþ., hefur eigi náðst niðurfærsla að fullu til móts við hækkun frá fyrra ári.

14. gr. — Áætlaður kostnaður til kirkju- og fræðslumála hækkar um 4 millj. kr. frá fjárl. 1948. Þetta mun stafa allmikið af því, að það hefur ekki verið reiknað að fullu með þeim launum, sem þarf að greiða eftir nýju fræðslulögunum. En þar er ætlazt til, að ríkissjóður greiði verðlagsuppbót á laun kennara við ýmsa skóla. Nefndin leggur til, að liðurinn „Ljós og hiti í biskupsbústaðnum“, kr. 45.00, falli niður. Meiri hl. n. leit svo á, að þegar biskup væri búinn að fá sæmileg launakjör og hefði frítt húsnæði, þá ætti hann sjálfur að kosta hita í sambandi við bústaðinn, og sá n. ekki ástæðu til að bæta við launin á þennan hátt. Þá leggur n. einnig til, að ferðakostnaður biskups lækki um 2 þús. kr. og að kostnaður við kirkjusöng lækki um 7.500 kr. Það er nýr liður í sambandi við húsnæði hér í Reykjavík. Nefndin leggur til, að kostnaður við kirkjuráð, kr. 1.500, falli niður. Nefndin leggur einnig til, að tekinn verði upp nýr liður til útgjalda: Viðbót á eftirlaun presta og ekkna þeirra, 31 þús. kr., sem hefur verið á fjárl. áður, en fallið niður. Ég vil, í sambandi við framlag til byggingar á skólum, benda á, að fjvn. hefur ekki gert till. um að færa niður þau útgjöld; sem tekin hafa verið upp í frv., m.a. vegna þess, að vangreidd framlög ríkissjóðs til skólabygginga eru í dag 8 millj. kr. Þó að þessi upphæð verði samþ., sem lagt er til að gert sé í frv., þá er hún engan veginn til þess að greiða áfallin framlög, og því engin ástæða til þess að setja það fé í nýjar byggingar á árinu. Það hefur mjög verið óskað eftir, að þessar skuldir yrðu greiddar. Mér skilst, að Reykjavikurbær sé orðinn langeygður eftir framlagi frá ríkissjóði í sambandi við þessi mál. — Þá leggur n. til, að risna til háskólarektors, kr. 7.500, falli niður, að framlag til verkfræðideildar og tímakennslu lækki um 20 þús. kr., að liðirnir „Námskeið í kennslufræðum“, 20 þús. kr., og „Til íþróttakennslu“, 13.500 kr., falli niður og ýmisleg gjöld lækki um 60 þús. kr., eða lækkun alls á þessum lið 121 þús. Er þetta þó ekki að fullu sú hækkun, sem hefur orðið frá fjárl. s.l. ár. — Þá gerir fjvn. till. um, að laun við Keldur lækki um 54 þús. kr. og „annar kostnaður“ um 50 þús. kr. Þegar fé til þessarar stofnunar var ákveðið á síðustu fjárl., var gert ráð fyrir því, að sú stofnun annaðist allar rannsóknir í sambandi við sauðfjársjúkdóma, og framlagið miðað við það. Nú hefur rn. upplýst, að þetta hafi ekki verið framkvæmt í stofnuninni, og þess vegna þótti rétt að leggja ekki þá upphæð til Keldna, sem þarf til þessarar starfsemi, fyrr en full trygging er fengin fyrir því, að þetta verk verði framkvæmt þar, heldur er lagt til, að þetta verði lagt við það fé, sem ætlað er til sauðfjársjúkdómavarna.

N. hefur ekki gert till. um hækkun á styrkjum til námsmanna erlendis, og tel ég rétt að segja nokkur orð um þennan lið. Það lágu fyrir erindi, bæði frá menntmrh. og menntamálaráði um að auka þessa styrki. En þegar vitað er, að menntamálaráð hefur ekki í einu tilfelli, heldur fleiri tilfellum, úthlutað þessu fé til barna hátekjumanna og stóreignamanna á Íslandi, þá sér fjvn. ekki ástæðu til að hækka þetta framlag. Þegar það sést, að menntamálaráð úthlutar þessum styrkjum til þeirra, sem fátækastir eru og þurfa þess mest með, en ekki til þeirra, sem ríkastir eru, er hægt að tala um hækkun á þessu framlagi. — N. leggur til, að tekinn sé upp nýr liður í þessa grein, styrkur til Elíasar Eyvindssonar læknis, til að nema svæfingaaðferðir í Ameríku, 12 þús. kr. - N. leggur til, að kostnaður við skólastjórn við menntaskólana, 6 þús. kr. til hvors, falli niður. Þegar launal. voru samþ. á Alþ., var gert ráð fyrir því, að þessir liðir væru innifaldir í launum skólastjóranna, enda voru þau hækkuð með tilliti til þess. N. leggur einnig til, að „annar kostnaður“ við Akureyrarskóla lækki um 20 þús. kr. Þá leggur nefndin til, að tekinn sé upp nýr liður: „Til að semja kennslubók í vélfræði, 25 þús. kr.“ Í rúm 30 ár, sem vélstjóraskólinn hefur starfað, hafa nemendur engan kost átt á því að nema þessa erfiðu námsgrein á sínu eigin máli. Er þess vænzt, verði till. samþ., að þá verði gerðar ráðstafanir til þess að hefja þetta verk samstundis, og er þess þá einnig vænzt, að hv. alþm. samþ. þessa till. og sjái, að hún er ekki ósanngjörn.

Lagt er til, að lækkað sé framlag til byggingar á útihúsum á Hólum um 40 þús. kr. Var þetta rætt við skólastjóra. Einnig er lagt til, að framlag til útihúsabygginga á Hvanneyri verði lækkað um 30 þús. kr., en teknir séu upp nýir liðir til viðhalds á íþróttahúsi á Hvanneyri, 25 þús., og til framhaldskennslu í búfræði, 40 þús. kr. Þykir nauðsynlegt, að deild sú, sem nú er starfrækt við skólann, haldi áfram, og leggur n, því til, að þetta verði tekið inn í frv. N. leggur til, að viðhald á skólahúsi á Reykjum lækki um 25 þús. kr. og kostnaður vegna utanfara kennara, 20 þús., falli niður. Framlag til útgáfu námsbóka fyrir gagnfræðaskóla lækki um 15 þús. kr., framlag til lagfæringa á íþróttavöllum á Laugarvatni, 25 þús. kr., falli niður, og að styrkur til blaðamannafélagsins, 10 þús. kr., falli niður. Fer það eftir vilja hæstv. Alþ., hvort sú till. verður samþ. eða ekki, en meiri hl. fjvn. sér ekki ástæðu til að styrkja þennan félagsskap fremur en annan. Styrkur Alþýðuskólans í Reykjavík, kr. 4 þús., falli niður, en styrkur til Alþýðusambandsins lækki um 2 þús. kr., og framlag til rannsókna á þroskastigi íslenzkra barna, kr. 72.300, falli niður. Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda á, að þetta er ekki gert til þess að vanþakka þeim manni, sem hefur haft þetta starf með höndum og hefur rækt þarna mikið vísindastarf, en hins vegar ætti að vera hægt að koma þessu þannig fyrir, að einhverjir skólarnir, t.d. háskólinn, gætu notað hæfileika þessa manns og þá jafnframt látið hann vinna þetta starf þar. Áður hafði Sigurður heitinn Thorlacius skólastjóri Austurbæjarbarnaskóla þetta starf með höndum með sínu skólastjórastarfi. Er allt annað að vinna þetta þannig, en að setja upp fyrir það nýja stofnun, eins og nú hefur verið gert.

Þá er lagt til, að tveir liðir verði teknir upp til útgjalda: Til Hallgríms Helgasonar, kr. 12500, og til Sigursveins Kristinssonar, kr. 4.000.

N. hefur ekki gert neinar till. til breytingar á framlagi til byggingar skólahúsa, né heldur skiptingu á því fé, sem tekið er upp til þessa í frv.

15. gr. — Áætlaður rekstrarkostnaður á þessari grein hækkar um 543 þús. kr. frá fjárl. Er. hækkun þessi mest við atvinnudeild háskólans, 329 þús. kr., og við veðurstofuna, 159 þús. kr.

N. gerir þá till., að lækkuð verði laun við náttúrugripasafnið um kr. 28.800, þ.e. að ekki verði ráðinn maður að nýju, til safnsins; að styrkur til Vísindafélags Íslendinga, 9 þús. kr. til útgáfu héraðssagnarita, 15 þús. kr., og til Norræna félagsins, 5 þús. kr., falli niður; að styrkur til skálda og listamanna lækki um 75 þús. kr. Þykir mér rétt að fara nokkrum orðum um þennan lið. Það er upplýst frá stjórn útvarpsins, að gerður hafi verið samningur við tónlistarmenn og rithöfunda um, að ákveðinn hluti af tekjum útvarpsins skuli ganga til þeirra, sem útvarpið flytur verk eftir, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir. Þetta eru 150 þús. kr. á ári. Með þessu eru skáldum og listamönnum tryggðar betri tekjur en áður hefur verið, auk þess sem vitað er, að bókaútgáfa gefur mikið fé í aðra hönd.

N. leggur til, að styrkir til fræðimanna lækki um 30 þús. kr. og tillag til Bandalags íslenzkra listamanna, kr. 14.000, falli niður. — Þessi styrkur til fræðimanna er að mestu leyti til ýmissa manna, sem eru í embættum, en hafa laun af þessari upphæð fyrir aukastarf. Hins vegar fá þessir menn talsvert fyrir handritin, og sér fjvn. því ekki ástæðu til að halda þessum lið áfram. Þá leggur n. til, að upp séu teknir eftirfarandi nýir liðir: Til bókasafna 16 þús. kr., til Jóns Dúasonar 25 þús. kr. og styrkir til námsmanna 16 þús. kr.

Við B-kafla. Framlag til Atvinnudeildar háskólans lækki sem hér segir: Til iðnaðardeildar 70 þús. kr., til fiskideildar 66.400 kr., til landbúnaðardeildar 107.280 kr. og sameiginlegur kostnaður kr. 53.425. Ég vil í sambandi við þessa stofnun leyfa mér að benda á það, að það einkennilega fyrirbrigði á sér stað í þessari stofnun, að í hverri deild hennar virðast vera menn sem vinna ekki mikið fyrir þau laun, sem þeir taka þar. Ég átti ýtarlegar umr. um þetta við deildarstjórana. — Virðast sumir þessara manna svo önnur kafnir við önnur störf fyrir ríkið, að annaðhvort hafa þeir ekki tíma til þess að sinna störfum hjá atvinnudeildinni eða þeir hafa þar ekkert verkefni að vinna. Ég tel, að mjög nauðsynlegt sé að taka þetta mál til rækilegrar athugunar. Það á ekki að skera við neglur sér það fé, sem þessi deild þarf með, en það á ekki heldur að líða, að embættismenn sitji í slíkum stofnunum og kosti ríkissjóð hundruð þúsunda, en síðan sést enginn árangur. af starfinu, og því síður að hafa þá á háum launum hjá ríkinu á sama tíma til þess að vinna þar að öðrum verkefnum. Þegar einn forstjóri þessarar deildar ræddi við mig um það, hvers vegna þetta fé væri skorið niður, benti ég honum á þessi atriði, og hann viðurkenndi, að þetta sjónarmið væri ekki óeðlilegt og að nauðsynlegt væri að þessum málum yrði kippt í lag.

Þá leggur n. til, að tekinn sé upp nýr liður, til rannsóknar á biksteini, 15 þús. kr. Er búizt við, að hann geti orðið útflutningsvara í allverulegum mæli. N. leggur til, að framlag til veðurstofunnar verði lækkað um 110621 kr. Af þessari upphæð eru 30 þús. kr. lækkun á framlagi til kaupa á nýjum tækjum og 25 þús. kr. lækkun á stofnkostnaði fyrir verkstæði. Sá maður, sem hugsað er að stjórni þessu verkstæði, er við nám, og er ekki búizt við, að á þessu fé þurfi að halda á þessu ári. Aðrir liðir eru laun og aukavinna. Lagt er til, að kostnaður við landmælingar lækki um 25 þús. kr., „annar kostnaður“ við sjómælingar um 19 þús. dr., og annar kostnaður hjá húsameistara ríkisins lækki um 10 þús. kr. Húsameistari ríkisins kvartaði undan því, að lækkað væri framlag til hans, en honum var bent á, að með því að ekki væri gert ráð fyrir, að byggt yrði eins mikið á þessu ári og undanfarin ár, væri lækkun þessi ekki óeðlileg.

16. gr. — Áætluð rekstrarútgjöld á þessari grein hækka um 604 þús. kr. frá fjárlögum. Önnur útgjöld á þessari grein eru að langmestu leyti lögbundin, svo að þeim verður ekki breytt, nema l. sé breytt eða framkvæmd þeirra frestað um stund.

N. leggur til, að framlag til Búnaðarfélagsins lækki um 100 þús. kr., en það er í frv. 115 þús. kr. hærra, en á fjárl. Þetta var rætt við búnaðarmálastjóra, sem var einn af þeim forstjórum, sem féllust á, að framlagið yrði lækkað og að hægt yrði að gera það, án þess að stofnunin liði tjón við það. Fiskimálastjóri féllst einnig á lækkun. Þá leggur n. til, að eftirfarandi framlög verði lækkuð sem hér segir: Styrkur samkv. jarðræktarl. 150 þús. kr., styrkur til framræslu 100 þús. kr., til eftirlits með vélakosti 100 þús. kr., styrkur til að kaupa veggjamót 360 þús. kr. og framlag til verkfærakaupasjóðs, 80 þús. kr., falli niður. Lagt er til, að eftirfarandi liðir verði hækkaðir: búreikningaskrifstofa um 10 þús. kr., og Búnaðarfélagið taki við þeirri starfsemi, enda hafði Búnaðarfélagið þá starfsemi áður. Fyrirhleðsla á Þverá og Markarfljót hækki um 100 þús. kr. Jafnframt verði teknir upp nýir liðir: Til fyrirhleðslu á Kaldaklifsá, Svaðbælisá og Laugará undir Eyjafjöllum 50 þús. Til fyrirhleðslu á Jökulsá í Lóni 127.5 þús. kr. (endurveiting) og til framræslu á löndum ríkisins á Stokkseyri 39 þús. kr.

Þá leggur n. til, að framlag til skógræktar sá lækkað um 150 þús. kr., og er það gert í samráði við skógræktarstjóra, sem þó óskar eftir að geta fengið hærri upphæð. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að benda á, að hæstv. landbrh. hefur heimilað skógræktinni að kaupa Norðtunguskóg fyrir 55 þús. kr., án þess að hafa haft sérstaka heimild til þeirra kaupa. Það er að fara beint fram hjá ákvæðum um kaup fasteigna, að ætla að láta skógræktina, sem er ein stofnun ríkisins, kaupa fasteignir. Er þetta furðulegra fyrir það, að þetta mál var í fyrra borið undir fjvn., sem þá vildi ekki mæla. með því, en ákvað þó að taka þetta til athugunar, ef fyrir lægi beiðni um það. Var þá talað um að greiða 45 þúsund kr. fyrir þessi lönd. Nú hefur þetta verið keypt þegjandi og hljóðalaust fyrir 10 þús. kr. hærri upphæð.

Lagt er til, að kostnaður við veiðimálastjóraembættið verði lækkaður um 6 þús. kr. og styrkur til Loðdýraræktarfélags Íslands, 10 þús. kr., verði felldur niður. Væri ekki óeðlilegt, að starfsemi loðdýraræktarinnar væri falin Búnaðarfélaginu, og er það til athugunar fyrir ríkisstj., hvort á því mætti spara einhver útgjöld.

Um framlag til sauðfjárveikivarna þykir rétt að taka eftirfarandi fram; Forstjóri þessarar stofnunar mætti hjá fjvn., til þess að ræða við hana um þetta mikla vandamál, og lét henni í té yfirlit yfir þær áætlanir, sem hugsaðar eru til ársins 1955 og sýna, að ef á að framkvæma þær, þarf að verja til þeirra úr ríkissjóði 35 millj. kr. á þessu tímabili. Nú er augljóst, að nauðsynlegt er fyrir ríkisstj. að gera sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja það, að þetta fé sé fyrir hendi, þegar á því þarf að halda, ef tryggja á það, að þessar ráðstafanir komi að fullu gagni, eins og fyrirhugað er. Er það að sjálfsögðu verk ríkisstj. að athuga það mál. Þetta hefur verið rætt nokkuð við hæstv. landbrh. Veit ég ekki, hvað hann hugsar sér um þetta atriði, en það virðist vera alveg áhjákvæmilegt, að hugsað sé fyrir þessum áætlunum meir, en frá ári til árs, ef árangur á að nást. Fjvn. hefur ekki gert till. um að lækka þetta framlag, nema lítilfjörlega í sambandi við mannahald í skrifstofu hér í Reykjavík. Hins vegar hefur fjvn. ekki fallizt á að gera brtt. til hækkunar til þess að mæta 340 þús. kr. umframgreiðslum á síðasta ári og 150 þús. kr., sem stofnunin hefur orðið að greiða vegna rannsókna, sem ætlazt var til að færu fram á Keldum, en ekkert varð úr þar, vegna þess að sú stofnun framkvæmdi ekki það verkefni, sem henni var ætlað. En rætt var um það við forstjóra sauðfjárveikivarnanna, að hann gæti hagað svo sínum rekstri á þessu ári, að þær upphæðir, sem áætlaðar eru til þessarar starfsemi í 16. gr., rúmlega 5 millj., gætu nægt einnig til þess að mæta þessum útgjöldum.

N. leggur til, að framlag til Fiskifélags Íslands lækki um 50 þús. kr. Er það gert í samráði við stjórn félagsins.

N. leggur einnig til, að styrkur til iðnskólabyggingar sé lækkaður um 50 þús. kr. Hún sá ekki ástæðu til að draga ekki einnig úr því framlagi eins og framlagi til annarra skóla. Einnig leggur n. til, að framlag til Tóvinnuskólans verði fellt niður, einnig að styrkur í sambandi við yrkisskólaþinghald á Íslandi verði felldur niður. Hér er um nýjan útgjaldalið að ræða. Meiri hl. n. sér ekki ástæðu til, að ríkissjóður veiti 100 þús. kr., til að þessir menn geti komið saman á Íslandi.

N. leggur einnig til að gera nokkrar breytingar í sambandi við raforkumál. Leggur hún til, að kostnaður við stjórn þeirra lækki um tæpar 150 þús. kr. og tekinn verði upp nýr kafli yfir rekstur á Rafmagnsveitum ríkisins til að sýna, hvernig reksturinn er á hverjum tíma. Þetta var í fjárl. áður, og þótti n. rétt að þetta væri tekið upp á ný, og hefur það verið gert í samráði við raforkumálastjóra. N. leggur til, að framlag til nýrra raforkuframkvæmda verði hækkað um 1 millj. og til dieselrafstöðva um 150 þús. kr., er lánað verði með hagkvæmum kjörum til sveitarfélaganna. Rafmagnsframkvæmdir eru svo aðkallandi mál fyrir öll héruð, að meiri hl. taldi rétt, að allt væri gert, sem unnt er, til að hraða þeim málum, enda er þetta till. raforkuráðs, og stjórn þess væntir þess, að þm. og stjórn sjái sér fært að fylgja þessari till. Þá er lagt til, að kostnaður við rafmagnseftirlit ríkisins sé lækkaður um 40 þús. kr. og kostnaður við jarðboranir um 250 þús. kr.

N. leggur til, að nokkrar breyt. verði gerðar á 17. gr.

Framlag til sumardvalaheimila lækki um 100 þús. kr. Þessi kostnaður er síðan á stríðsárunum, þegar nauðsyn þótti að skapa aðstöðu til að flytja börn úr bænum, ef hér í borginni kæmi til árásar. Þessi ástæða er fallin burt. Hins vegar viðurkennir n., að það væri að sjálfsögðu gott að geta haldið þessu áfram, og þess vegna hefur meiri hl. n. lagt til, að þetta verði ekki fellt niður þótt hins vegar sé ljóst, að hér er um að ræða mál, sem Reykjavíkurbæ beri að annast á sinn kostnað.

Þá leggur n. til, að framlag til kvenréttindafélags Íslands lækki um 15 þús. kr. Var þessi upphæð veitt s.l. ár til eins árs, en ekki hugsað að taka hana upp aftur. Framlag til vinnumiðlunar lækki um 50 þús. kr. Upphæðin ætti raunverulega að hverfa úr frv. svo lengi sem ekkert atvinnuleysi er í landinu.

N. leggur til, að framlag til barnaverndarráðs lækki um 11 þús. kr. Er mikið af þessu fé veitt sem laun til embættismanna, sem eru á fullum launum fyrir, og ætti að vera unnt að koma þessu fyrir á ódýrari hátt.

Lagt er til, að niður falli framlag til upptökuheimilis, þar sem þetta mál heyrir eingöngu undir bæjarfélagið.

Þá leggur n. til, að styrkur Bálfarafélags Íslands falli niður.

N. leggur til, að kostnaður við framkvæmd orlofslaganna lækki um 360 þús. kr. Ég vil í því sambandi benda hæstv. fjmrh. á, að athugandi væri, hvort ekki væri hægt að koma þessu öðruvísi fyrir, svo að ríkissjóður þyrfti ekki að hafa stórkostleg útgjöld við þessa innheimtu. Mætti t.d. breyta fyrirkomulaginu þannig, að orlofsféð, sem ekkert er annað en 4% kauphækkun, greiddist beint til þessara manna, um leið og launin eru greidd þeim.

N. hefur ekki gert mjög miklar breyt. við 18. gr. En í sambandi við hana vil ég leyfa mér að benda á það sama og fjvn. benti á, á síðasta þingi, að það er alveg óþolandi, að þessi gr. verði framvegis á þann hátt sem hún er nú. Það er engan veginn hægt að ætlast til, að þingnefnd breyti henni í það horf, sem nauðsynlegt er og samræmi greiðslur launa ýmissa aðila, og því verður að gera þá kröfu til ríkisstj., að þessi grein verði athuguð mjög gaumgæfilega fyrir næsta þing, því að ógerlegt er lengur að una við hana eins og hún er nú, þar sem ætlaðar eru t.d. 490 kr. til einnar ekkju, en upp undir 20 þús. til annarrar. Verður þetta misræmi að lagast. Það er m.a. nauðsynlegt að skapa fastar reglur um það, hvaða hámark skuli greitt sem eftirlaun til embættismanna. Eru nú t.d. allmargir menn á þessari grein með fullum launum, greiða ekki framlag í lífeyrissjóð og hafa því mun betri lífskjör en þeir höfðu meðan þeir voru á fullum launum og urðu að vinna fyrir þeim fulla vinnu og greiða af þeim launum tryggingargjöld.

Ég vil enn fremur beina því til hæstv. fjmrh., hvort hann vill ekki taka til baka til 3. umr. till. um framlag til Jóhanns skipherra, vegna þeirra umr., sem hafa átt sér stað um það mál, til að tryggja, að þetta verði veitt úr lífeyrissjóði, en ekki ríkissjóði.

Um 19. gr. vil ég segja það, að n. leggur til, að þar verði gerðar þær breyt., sem ég minntist á í upphafi, aðeins til að uppfylla lagafyrirmæli. — Sé ég ekki ástæðu til að fara frekar út í það hér.

Við 20. gr. leggur n. til að gerðar verði eftirfarandi breyt.: Framlag til ríkisspítalanna hækki um 440 þús. kr., til byggingar tilraunastöðva á Reykhólum og Hafursá um 100 þús. kr., til byggingar á prestssetrum 300 þús. kr. Framlag til byggingar vitavarðarbústaðar, 170 þús. kr., bygging bráðabirgðatollbúðar, 100 þús. kr., falli niður, og framlag til flugvalla lækki um 550 þús. kr.

Viðvíkjandi till. um framlag til tollbúðar vil ég taka fram, að n. leggur ekki til, að sá liður falli niður af því, að hún viðurkenni ekki, að sé þörf á byggingu tollbúðar, heldur vegna þess, að ljóst er, að þessum 100 þús. kr. er kastað á glæ, ef aðeins á að byggja bráðabirgðaskýli. N. telur réttara að gera ráðstafanir til að undirbúa framtíðarbyggingu og veita síðan fé til hennar, þegar þeim undirbúningi er lokið.

Út af 4 millj. kr. framlagi til greiðslu á skuldum, sem eru í vanskilum, telur n. óhjákvæmilegt, að hver aðili, hvort sem það er sveitarsjóður, hafnarsjóður, raforkumálasjóður eða einhver annar, sem ríkið er í ábyrgð fyrir og getur ekki staðið í skilum, sé settur undir sterkt fjárhagslegt eftirlit ríkisins. Ríkissjóður er nú í ábyrgð fyrir meira en 300 millj. kr. Ef ekki er strax haft sterkt fjárhagslegt eftirlit með þessum stofnunum, þá veit ríkissjóður ekki, hvenær hann er búinn að missa algerlega stjórn á þessum málum. Því skorar n. á ríkisstj. að athuga þetta mál nú þegar.

N. leggur til nokkrar breyt. við 22. gr., og leyfi ég mér þar ,:að vísa til viðkomandi þskj.

Að síðustu skal ég gera yfirlit yfir þær breyt., sem verða á frv. samkvæmt till. nefndarinnar.

Hækkun tekna í 2. gr. …………….. 18640000 kr.

+E- lækkun gjalda í 3. gr. …………… 238760 –

19478760 kr.

Þar frá dregst:

Hækkun gjalda í 3. gr. ………………. 521000 kr.

Tekjuhækkun alls …………………..18957760 kr.

Hækkun gjalda alls ……………….. 52584215 kr.

lækkun gjalda alls ………………… 5998544 -

Gjaldahækkun 46585671 kr.

Eignabreytingar.

Hækkun útborgana samkvæmt 20. gr. er samkvæmt till. n. 20000 kr.

Ef till. n. verða allar samþ., munu niðurstöðutölur fjárlfrv. verða á þessa leið:

Rekstraryfirlit.

Tekjur ...................................... 260215127 kr.

Gjöld . ................................... 260423914

Rekstrarhalli ………………………… 208787 –

260423914 260423914 kr.

Sjóðsyfirlit:

Útborg. skv. rekstrarr. 260423914 kr.

Aðrar greiðslur 20. gr. 30045588 290469502 kr.

Innborg. skv. rekstrarr.260215127

Aðrar greiðslur 20. gr. 2210000

Greiðsluhalli ........ 28044375

290469502 290469502 kr.

Mér er ljóst, að áður en frv. fer út úr þinginu, verður að ræða nánar um, á hvern hátt hægt er að mæta þeim 28 millj. kr. greiðsluhalla, sem enn er á því, og væntir n. að hafa um það samráð við hæstv. fjmrh. Mér er einnig ljóst, að ef ekki er samhugur þm. um að vilja fylkja sér um till. fjvn. til sparnaðar, þá mun sú viðleitni, sem hér er gerð, verða einskis virði, og þess vegna vænti ég þess, að hv. þm. geti almennt fallizt á till. n., sem eru þó ekki meira en 6 millj. lækkun, eða tæplega 1/3 af þeirri hækkun, sem varð á frv. frá því, sem áætlað var á fjárl. síðasta árs.