25.03.1949
Sameinað þing: 54. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

42. mál, fjárlög 1949

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég gat nú því miður, af óviðráðanlegum ástæðum, ekki verið viðstaddur hér, þegar hv. frsm. meiri hl. fjvn. flutti hér sína framsöguræðu fyrir fjárl., og heyrði ég þess vegna ekki hans mál. En bæði hefur mér verið tjáð og eins hef ég lesið það í blöðunum hér, að hann hafi sveigt þar mjög að stofnun, sem heyrir undir mitt ráðuneyti, og það á þann hátt, að ég vildi ekki láta hjá líða að fara um það nokkrum orðum. Ég hafði, eins og ég sagði, ekki tækifæri til þess að hlusta á hans ræðu, og vegna þess að það blað, sem birti þessa frétt, er ekki alla jafna sú ákjósanlegasta og ábyggilegasta heimild, þá fór ég nú til hv. frsm. meiri hl. fjvn. og óskaði eftir því að fá hjá honum það, sem hann hafði um þetta sagt. En hann færðist undan því og sagðist ekki hafa það við höndina, svo að ef eitthvað er öðruvísi sagt af mér samkv. þeim heimildum, sem ég hef í höndum, heldur en vera ber, er það því að kenna, að ég hef ekki getað séð eða heyrt það, sem hann sagði. Þennan fyrirvara vil ég hafa til skýringar því, að ég get ekki haft upp þau orð, sem hv. frsm. meiri hl. fjvn. sagði um þetta efni. En eftir því sem þetta blað, sem fréttina birti, sagði frá, á þetta að hafa verið þann veg, að sú stofnun, sem heyrði undir mína stjórn, hafi gert það, sem í blaðinu er þannig orðað, að ríkisstj. hafi tekið í heimildarleysi á þriðju millj. kr. af orlofsfé verkamanna og hendi því sem vaxtalausu láni í sérleyfisbílarekstur. Þetta skilst mér nú, að sé aðalefnið í því, sem hv. frsm. meiri hl. fjvn. sagði, hvort sem það var sagt með þessum orðum alveg eða ekki. Ég skil náttúrlega ekki til fulls samhengið í þessu hjá þessum hv. þm., hvað þetta kemur beint afgreiðslu fjárlaganna við. Og ef þetta hefur verið svona sagt, þá skil ég það svo sem hann sé að reyna að ná sér niðri á pólitískum andstæðingi, því að það er engu líkara. — En ég vil gera grein fyrir því, hvers vegna sérleyfisakstur ríkisins við fólksflutninga með bifreiðum var stofnaður, hvernig hann var rekinn og hvaðan hann hefur haft sína fjármuni frá upphafi. Þessi ríkisrekstur er ekki til kominn vegna þess, að þau stjórnarvöld, sem með völdin fóru í landinu, þegar hann var upp tekinn, hafi sérstaklega langað til þess að hefja hann, heldur gerðu þau það af illri nauðsyn, vegna þess að á þeim tíma fékkst enginn annar til þess að gera það. Þessi rekstur var ekki hafinn í tíð þeirrar ríkisstj., sem nú situr, og mér skilst, að það hafi ekki heldur verið í tíð þeirrar ríkisstj., sem var þar næst á undan, heldur í tíð þeirrar ríkisstj., sem var þar á undan, utanþingsstjórnarinnar, sem var við völd frá 1942 til 1944, enda voru um þetta leyti samþ. lög um skipulag fólksflutninga á landi, sem heimiluðu, að ríkisstj. í vissum tilfellum tæki upp þann rekstur, þegar henni fyndist tækifæri og ástæða til þess. Árið 1944 skeði það, að sérleyfishafar, sem þessi leyfi höfðu haft með höndum og ráku þessa flutninga, fengust ekki til þess að halda flutningunum áfram, og sjálfsagt vegna þess, að þeim hefur ekki fundizt það borga sig, eða af því, að þeir hafa ekki haft til þess tæki eða tækifæri, svo að á þeirri stundu, þegar sérleyfistímabilið var á enda, sem þá hafði um nokkurra ára skeið verið starfað eftir, fékkst enginn til þess að reka leyfið. Þá var póststjórninni falið að gera þetta á sinn reikning, en án þess að leggja henni nokkurt fé til rekstrarins. Og þannig hefur þetta verið síðan. Hún hefur haft rekstur þennan með höndum, án þess að henni hafi af Alþ. verið lagt til nokkurt fé sérstaklega til rekstrarins. Það liggur því í hlutarins eðli, að hún hefur orðið að taka það fé af sínum sjóði, sem hún hefur þurft til þess að kaupa fyrir nauðsynleg tæki o.þ.h. En að það fé sé orlofsfé verkamanna, er fjarri öllum sanni, því að orlofsfé verkamanna hefur verið borgað út skilvíslega öll þessi ár, sem póstsjóður hefur rekið þessar sérleyfisferðir, þó að stofnunin hafi fest í rekstrinum það fé, sem hún hefur gert. Póstsjóðurinn hefur ýmsar aðrar tekjur og hefur í sínum rekstri verulegt fjármagn, sem hann getur séð af í bili. Og þess vegna er ekki hægt að segja, að hann taki það fé frá neinu öðru, þó að hann hafi fest þarna í nokkra upphæð. Sagan endurtók sig svo tveim til þremur árum síðar, í ársbyrjun 1947, þegar enginn fékkst til þess að taka að sér helminginn af rekstri fólksflutninganna milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Þá, nákvæmlega á sama hátt og fyrr hafði átt sér stað, varð ríkið að fela póststj. að hlaupa þar undir baggann, til þess að taka upp reksturinn, þegar aðrir fengust ekki til þess, ef þessi rekstur átti ekki að leggjast niður. Þó var það nokkuð á annan veg en í fyrra skiptið, vegna þess að þá var verulegur hluti þess fjár, sem þurfti til stofnkostnaðar, tekinn að láni, þó að það hafi ekki komið fram hjá hv. frsm. meiri hl. fjvn., að þetta hafi ekki allt verið tekið úr póstsjóði. En þá var tekið lán til vagnakaupa og annarra nauðsynlegra útgjalda, um 2 millj. kr., svo að útgjöld póstsjóðs í því skyni urðu ákaflega smávægileg. — Ég veit ekki, hvort hv. þm. hafa áhuga fyrir því, en vegna þess að þessi sérleyfisbílarekstur hefur verið hafður á oddinum ákaflega mikið, bæði af einum og öðrum og jafnvel af þeim, sem staðið hafa fyrir því að koma honum á, svo undarlega sem það hljóðar, þá vildi ég gera nokkra grein fyrir því, hvernig þessi rekstur hefur borið sig frá upphafi og til þessa dags, vegna þess að það hefur nokkuð farið á milli mála og ekki alltaf verið notaðar þær tölur, sem réttar eru.

Á rekstri Norðurlandsferðanna var árið 1945 rekstrarafgangur 121.600 kr. Árið 1946 var rekstrarafgangurinn á þeim leiðum 38.967 kr. Árið 1947 var rekstrarreikningur þeirra ferða nokkurn veginn sléttur, og 1948 hefur orðið tap á þessum rekstri um 166.335 kr., eða svipað eins og hagnaðurinn var samtals hin fyrri árin, þegar hagur var af rekstrinum. Nú er þess að geta, að í þessum reikningi er ekki gert ráð fyrir afskriftum, og verður þess vegna að gera þær upp sérstaklega. En bein útgjöld og beinar tekjur hafa nokkurn veginn staðizt á, þegar ekki er tekið tillit til afskrifta. Hvað svo ber að reikna í hæfilegar afskriftir þessi ár, er kannske ekki víst, að mönnum komi alveg saman um. Eitt getur einum sýnzt í því efni og annað hinum. En ég hygg, að afkoman í þessu efni hafi á þessu tímabili ekki orðið miklu lakari en hjá ýmsum, sem hafa haft með þennan rekstur að gera í einkarekstri, vegna þess að samkvæmt þeim reikningum, sem þeir hafa sýnt, og skilgreiningu í sambandi við það, hefur afkoma rekstrar þeirra sumra hverra sízt gefið betri raun. En allan þennan tíma hefur verið reynt að halda niðri fargjöldunum, ekki aðeins á sérleyfisleiðum bílanna, heldur yfirleitt þar, sem ríkissjóður annast rekstur farartækja.

Á Hafnarfjarðarleiðinni var árið 1947 tap á rekstrinum 196 þús. kr., en hagnaður á árinu 1948 kr. 21.849, einnig þetta án afskrifta. Ég skal geta þess út af þessu fyrra rekstrarári á Hafnarfjarðarsérleyfisferðunum, að þá varð póststjórnin fyrirvaralaust að taka að sér þennan rekstur, þ.e.a.s. það var aðeins með nokkurra daga fyrirvara, að sérleyfishafar sögðu þessu af sér. Póststjórnin varð því að kaupa gamla, óhentuga vagna til þess að byrja með. Og þeir kostuðu mikið viðhald, og varð að selja þá flesta, þó án verulegs taps. En þó varð reksturinn á fólksflutningunum þarna þetta fyrsta ár verulega óhagstæðari en ef reksturinn hefði verið undirbúinn á venjulegan hátt.

Ég tel þess vegna, eftir atvikum, að þessi rekstur allur frá upphafi sé á engan hátt þannig, að hv. fjvn. gæti fundið ástæðu til þess með sanngirni að fetta fingur út í hann, og sízt með þeim hætti, sem hv. frsm. fjvn. hefur sagt, ef rétt er haft eftir honum það, sem í blaðinu stendur. Ég tel, að þessi rekstur póststjórnarinnar á sérleyfisleiðinni milli Akraness og Akureyrar og milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar sé sízt lakari hvað afkomu snertir heldur en við mætti búast, bæði eftir þeim reikningum, sem fyrir liggja um rekstur annarra á fólksflutningi með bifreiðum, og þegar hliðsjón er höfð af því, að enginn einstaklingur fékkst til þess að taka að sér reksturinn á þeim tíma, sem póststjórnin varð fyrirvaralaust að taka hann að sér, til þess að samgöngurnar féllu ekki niður. Ég skal geta þess, — án þess að ég ætli að láta neitt uppi um hug minn þar um að öðru leyti, — að það var ekki vegna þess, að það hafi verið um sérstakar þjóðnýtingartilraunir að ræða í þessu sambandi, heldur var það af illri nauðsyn, að út í þetta var farið af því opinbera.

Það er varla ástæða til að rifja upp 5 ára gamlar aðgerðir í sambandi við norðurleiðina. En af því að hitt er nýrra, væri kannske ástæða til að minnast á það, hvernig greitt hefur verið fyrir það, sem Hafnarfjarðarleiðin hefur eignazt af vögnum og áhöldum, sem allt er vitaskuld í lánum, þar sem ríkissjóður hefur ekki lagt neitt fram af mörkum sjálfur í þessu sambandi.... Af þessu hefur póstsjóður lagt fram um 1/5, en hitt hefur verið fengið að láni hjá viðskiptabönkunum. Að vísu er rétt, að hér er ógreiddur tollur til ríkisins 691 þús. af nýjum bílum, sem kemur til af því, að tollurinn er reiknaður sem af venjulegum fólksbifreiðum, en ekki eins og af sérleyfisbifreiðum, og eru nokkrar deilur um það, í hvorum flokknum þeir eigi að vera. Ef um bíla er að ræða, eru þeir settir í hærri flokk og þurfa að greiða 59%, en færast niður í 16%, ef um venjulegar sérleyfisbílagrindur er að ræða, eða úr 700 þús. kr. niður í 200 þús. Þetta er enn óuppgert og sett hér á reikninginn eins og það getur hæst orðið sem skuld við ríkið. — Ég hef nú gert grein fyrir, hvernig til þessa fyrirtækis var stofnað og hvernig það hefur aflað fjár allan tímann, sem það hefur starfað, án stuðnings úr ríkissjóði. Ég tel ekki ástæðu til að ætla að þetta hefði verið rekið betur, þó að það hefði verið falið einhverjum öðrum eða einstaklingum, því að þeir hafa rekið sambærilegar leiðir með ekki minna tapi, enda fengust engir einstaklingar til að reka þetta. Það leynir sér þó ekki, að tapið á norðurleiðinni er meira s.l. ár en ástæða væri til að ætla, og kemur það til af ýmsu og ég tel, að verði að athuga það. Í fyrsta lagi hafa flugferðir milli Reykjavíkur og Akureyrar færzt í það horf, að engu líkist, sem við höfum áður. þekkt, svo að brúttótekjur ferðanna hafa á einum mánuði lækkað um 120–130 þús. kr. En þeir, sem ráku ferðirnar, töldu skyldu sína að hafa jafnan nægan vagnkost, og voru vagnarnir bundnir, þegar ekki var hægt að fljúga. Það kemur því til álita, hvað gera skal. Það veldur nokkrum óþægindum, ef kaupa þarf farmiða deginum áður, en ef ekki verður hægt að lagfæra þetta öðruvísi, verður að grípa til þess. Í öðru lagi hafa vetrarferðirnar verið reknar með meiri krafti, en í tíð einkarekstrarins til Húnavatnssýslu og Skagafjarðar og jafnvel alla leið til Akureyrar, og var þetta stundum mjög erfitt, og tóku sumar ferðirnar 2–3 daga, en rík áherzla var lögð á að halda þeim alltaf uppi. Og þá 10 daga, sem ekki var hægt að fara í vetur, ætlaði allt að springa yfir því, að ekki var farið. Þeir, sem að sérleyfisferðunum standa, hafa lagt allt kapp á að veita farþegum sem bezta þjónustu, nýja og góða vagna í stað hinna gömlu og úreltu, og reynt að halda uppi vetrarferðum og að greiða fyrir þeim mönnum, sem ætluðu með flugvélum, en komust ekki. Í nál. hv. meiri hl. fjvn. er að því vikið, að n. sé óskiljanlegt, hvernig þessi rekstur hefur verið rekinn. Ég verð að segja, að mér er ekki alveg ljóst, hvað í þessari yfirlýsingu felst. Reksturinn er hafinn á þann hátt, sem lýst hefur verið, og í neyðarástandi, þegar enginn annar fékkst til þess. Hann er hafinn án fjárveitingar á fjárl., og varð þá að taka úr sjóði rekanda eða fá lán, og hvort tveggja var gert, en að hér hafi verið tekið í óleyfi eða ófrjálsri hendi, eins og virtist koma fram hjá hv. þm. Barð., kemur ekki til mála. Og ef einhvern lærdóm ætti að draga af yfirlýsingu hv. n., þá er það ekki annar en sá, að rn. fari fram á fjárveitingu til greiðslu á starfskostnaði þessum, og mun ég bera fram brtt. um það. Ég veit ekki, hvort það verður nú eða ekki fyrr en við 3. umr., en ég vona, að hv. þm. Barð. og aðrir hv. nm. veiti mér lið.

Það er annað atriði, ekki óskylt, að lesa á sama blaði, og er þar skýrt frá því af hv. form. fjvn., hv. þm. Barð., að n. hafi borizt bréf frá verkamanni, sem vinnur við að rífa bragga fyrir póststjórnina, þar sem bornar eru þungar sakir á þá, sem því verki stjórna. Ég verð að segja, að ég er undrandi yfir því, að hv. þm. Barð. skuli hafa blandað þessu máli inn í umr. hér. Ég skal því reyna að upplýsa þetta. Það mun hafa verið í febrúar í fyrra, að mér barst í hendur bréf frá manni, sem hafði verið leystur frá störfum við akstur hjá póststjórninni. Í sambandi við, að hann var leystur frá störfum, skrifaði hann þetta bréf, sem var mjög líkt og það, sem hér liggur fyrir. Ég vék þessu til endurskoðenda ríkisins og lét jafnhliða athuga málið eftir öðrum leiðum og komst að því, að ekki hefði verið hér um trúnaðarbrot að ræða. Greiðsla hafði komið fyrir þetta starf í efni sem póststjórnin þurfti að kaupa hvort sem var, og var greiðslan fullkomlega eins mikil og um peninga hefði verið að ræða Ég skildi því, að póststjórnin hefði fengið sitt og fullkomlega það. Í desembermánuði barst svo hv. form. fjvn. sams konar bréf, sem hann sendi mér til umsagnar. Ég lét þá safna gögnum á ný um þetta, m.a. frá símanum, sem gaf samhljóða yfirlýsingu. Þetta allt sýndi ég hv. form. fjvn. og hélt, að málið væri að fullu upplýst, en gat þess, ef hv. form. teldi ekki svo vera, þá væri það eitt eftir að höfða réttarrannsókn. Nú er ekki nema um tvennt að ræða fyrir hv. form., annaðhvort að taka, þetta gilt, og eru mennirnir þá sýknaðir, eða þá að taka það ekki gilt og hefja þá réttarrannsókn. En algerlega ósæmandi er að koma fram með þetta sem dylgjur á Alþ. Ég skal láta þetta nægja um þessi tvö atriði. Ég tel hvorugt sérstaklega vítavert, en skorast þó ekki undan ábyrgð. Þau snúa ekki að mér persónulega, en ég sé ekki annað en þau séu rétt, eðlileg og sanngjörn. Það má ef til vill segja, að þarna sé um formgalla að ræða að greiða ekki póststjórninni í peningum, en í efnivöru sem hún þarf þó á að halda, en verð að segja, að grannt sé skoðað, ef ekkert verra fyndist af hv. form. n. og þeim meiri hl., sem að baki honum stendur.

Ég vil nú ræða einstök atriði í brtt. þeim, sem snúa að mér eða rn. mínu. Ég hef ekki getað athugað nál. og brtt. svo vel sem ég hefði viljað, og skal því ekki nefna nema fá atriði. Í nál. er lagt til, að til viðhalds þjóðvega verði varið 9 millj. kr. og til nýrra akvega 3 millj. kr. Ég hef margbent á, bæði í upphaflegu till. til hæstv. fjmrh. og í viðræðum við hæstv. fjmrh. og alla hv. fjvn., að þessi upphæð er ekki til annars en blekkja sjálfan sig. Viðhaldið hefur undanfarin ár kostað 11—12–13 millj. og þar yfir, og s.l. ár mun kostnaðurinn hafa numið 13.350.000 kr., en var á fjárl. fyrir það ár áætlaður 9 millj. kr. Eyðslan var því rúmar 13 millj., en aðeins 9 millj. áætlaðar á fjárl. Þá var veitt 1.100.000 kr. umfram fjárl., en hitt gekk yfir á næsta ár. Og er því búið að eyða 3 millj. af 9 millj. kr. fjárveitingu þessa árs fyrirfram, svo að aðeins eru eftir 6 millj. kr. til viðhalds á vegum þetta ár, sem er ekki helmingurinn af því, sem þarf. Hæstv. fjmrh. sagði áðan, að það væri sorglegt, að vegavinnuvélar gætu ekki lækkað kostnað við vegaviðhald, en ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að óvinnandi vegur væri að halda við vegunum, ef vélarnar væru ekki, þegar bílafjöldinn hefur þrefaldazt, en það verður að athuga, að slit á vegum vex ekki í beinu hlutfalli við bílafjöldann, heldur mun örar á vissu stigi. Ég fullyrði því, að óvinnandi vegur hefði verið að halda vegunum í sæmilegu horfi, ef vélarnar hefðu ekki verið. Hins vegar hefur reynslan sýnt, að kostnaðurinn við vegaviðhald er nú orðinn 12–13 millj. kr. á ári, og það er að stinga hausnum í sand, ef minni upphæð er á fjárl., því að ekki verður við það unað að halda ekki við þjóðvegunum: Hv. form. fjvn. sagði, að ráðh. yrði að gera upp við sig, hvort hann vildi una við þá upphæð, sem ákveðin væri í fjárl. En ég uni ekki við 6 millj. kr. framlag. Hv. n. segist ekki vilja hækka þetta án þess að ætla fé á móti. Ég held, að væri nær að reyna að halda við þeim vegum, sem fyrir eru, en að dreifa fé því, sem varið er til nýbygginga á fjölda staða um allt land. Það er eðlilegt kjördæmissjónarmið að vilja fá nýja vegi, en ætli heyrðist ekki hljóð úr horni, ef þeim gömlu væri ekki haldið við. Það er því hreinn feluleikur að setja aðeins 9 millj. kr. og það nægir vart hálft árið, þar sem þurfti að færa 3 millj. kr. frá 1948 yfir á þetta ár. Það, sem þarf að gera, er að færa allán kostnaðinn 1948 yfir á það ár og hafa 12–13 millj. til afnota fyrir 1949, sem er það minnsta, sem hægt er að komast af með. Út af vegum að öðru leyti sé ég, að framlag til nýbygginga er hækkað úr 4 millj. í 7 millj. og fénu dreift á 144 staði, svo að ekki kemur mikið í hvern hlut, en það, sem sérstaklega er athugavert, er það, að ég tei, að um of sé dregið úr framlagi til Selvogsvegar og Öxnadalsheiðarvegar. Öxnadalsheiðin er það eina, sem skilur að gott bílvegasamband á milli Reykjavíkur og Akureyrar; þar sem Holtavörðuheiði og Vatnsskarði er lokið, og er áætlað, að um 600 þús. kr. nægðu til að ljúka við veginn yfir Öxnadalsheiði, og það mun vegamálastjóri hafa lagt til, en hv. n. þóknaðist að lækka þá upphæð niður í 400 þús. til að peðra hinum 200 þús. niður út um hvippinn og hvappinn. Svo er hitt, að Selvogsveg eru ekki ætlaðar nema 200 þús. Ég ætla mér ekki að fara að tala um hinn fræga Krýsuvíkurveg. Það hefur svo oft verið gert, en það hefur komið á daginn í vetur, að vegurinn var fær í 50 daga til mjólkurflutninga, þegar allar aðrar leiðir til bæjarins tepptust, og var þó ekki fullgerður. Ég veit ekki, hvort á að knýja fram, að framlag til þessa vegar verði það lægsta, sem verið hefur, þegar hann er búinn að sýna, hvað hann getur. Það er lífsnauðsyn, bæði fyrir Reykjavík og Suðurlandsundirlendið, að þessum vegi verði lokið. Hann hefur sýnt það í vetur, jafnvel ófullgerður, hvers af honum megi vænta. Það er því ófært, að ekki sé veitt meira til þessa vegar, en til minni háttar vega, sem ekki liggur eins á. Það má um það deila, hvaða vegir eru nauðsynlegastir, og hv. þm. Barð. hefur komið því til leiðar, að einn vegur í hans kjördæmi fær eins mikið og þessi höfuðvegur.

Þá vil ég minnast á eitt atriði. Ég sé í brtt., að n. hefur sett nokkurn hluta af fé til Þjórsárbrúar á 22. gr., en þetta er blekking, því að þetta á að vera á rekstrarútgjöldum fjárl. Hér eru aftur á móti færðar 900 þús. kr., sem vitanlega á að vera á 13. gr. Þjórsárbrúin er pöntuð fyrir löngu og um það bil að koma til landsins. Undirbúningi brúargerðarinnar lauk í fyrra, og í sumar verður lokið við að setja upp brúna. Því þarf allt fé til hennar að vera á rekstrinum, því að annars gefur þetta ranga mynd. Ég vil, að þetta verði veitt óskilorðsbundið af þinginu, því að það er ekki hægt að hætta við þetta verk í miðjum klíðum.

Það eru ýmsir aðrir liðir, sem væri e.t.v. ástæða til að fara út í, en ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins nema að litlu leyti. Ég hef ekki séð í brtt. fjvn., að nein upphæð væri ætluð til Miðnesvegar. Fjvn. sá þó ástæðu til að heimila fjárveitingu til hans í fyrra, þó að hann væri ekki kominn í þjóðvegatölu, og skal ég þó viðurkenna, að eðlilegra hefði verið, að hann væri kominn inn á vegalög áður. Í fyrra var heimilað að verja allt að 200 þús. kr. til þessa vegar, en þegar hætt var að vinna í honum í nóvembermánuði, hafði af ýmsum ástæðum ekki verið unnið fyrir meira en 40–50 þús. kr. Það minnsta, sem nú hefði verið hægt að hugsa sér, er það, að endurveitt hefði verið sú upphæð til vegarins, sem óunnið var fyrir í fyrra. Þessi vegur hefur reynzt mjög vel — eins og Krýsuvíkurvegurinn, því að byrjað er að nota hann nú þegar, og hægt væri að fullgera hann fyrir tiltölulega lítið fé; því að aðstaðan er góð að ýmsu leyti. Vona ég, að fjvn. og aðrir hv. þm. sjái sér fært að stuðla að fjárveitingu til þessa vegar.

Ég skal nú ekki sérstaklega fara út í þá hlið, sem fjvn. hefur snúið að mínu kjördæmi. Það er nú ekki svo mikið, sem Hafnarfjörður hefur farið fram á, en það litla, sem er, hefur n. tekizt að skera mjög við nögl, svo að ég hef enga ástæðu til að þakka henni sérstaklega fyrir það.

Þá hefur n. fellt niður framlag til iðnskólaþings, og sýnir það mjög vel hug hennar til þess máls. Þessi norrænu iðnskólaþing hafa verið haldin 5. hvert ár síðan 1929, nema á stríðsárunum. Íslendingar hafa tekið þátt í öllum þessum þingum og notið þar bæði gestrisni nágrannaþjóðanna og lærdóms á þessu sviði. Fullyrði ég, að iðnskólar okkar væru ekki eins vel á vegi staddir, ef ekki hefði komið til ýmiss konar fróðleikur og fræðsla á þessum þingum, sem Íslendingar hafa notið. Og nú er röðin komin að okkur í fyrsta sinn að halda hér norrænt iðnskólaþing í sumar. Það hefur verið farið fram á fjárframlag frá ríkinu til stuðnings þessu máli, og hæstv. fjmrh. tók fjárframlag til þess inn á fjárlagafrv. sitt. Það er ekki hægt fyrir íslenzku ríkisstj. að skorast undan þessu, þar sem Íslendingar hafa tekið þátt í öllum þessum þingum í öðrum löndum og notið þar fyrirgreiðslu og fyllstu gestrisni á margan hátt. En meiri hl. fjvn. hefur lagt til, að þetta framlag verði skorið niður, og er það alveg út í hött. Og það er e.t.v. margt fleira í till. n., sem sama mætti segja um. En um þetta atriði get ég fullkomlega dæmt, Og mér var sérstaklega umhugað um það.

Ég geri ráð fyrir, að ég flytji hér brtt., ef ekki fæst veruleg leiðrétting á þeim liðum, sem ég hef talað hér um og ég læt mig sérstaklega varða. En ég býst ekki við, að það geti orðið við þessa umræðu, m.a. af því, að ég hef ekki haft nógu mikinn tíma til að athuga brtt. n. eins vel og ég hefði óskað, og læt ég þetta því nægja að sinni.