12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

42. mál, fjárlög 1949

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég á sjálfur enga brtt. við fjárl., en er hins vegar meðflm. að tveimur till. Önnur er á þskj. 730, og fer hún fram á aukið framlag til sjúkrahúss í Rvík. Það vita allir, í hve miklu öngþveiti þessi mál eru og hversu brýn nauðsyn er að bæta úr sjúkrahúskostinum. Það mun alloft koma fyrir að sjúklingar, sem þurfa brýnna aðgerða við, verða að bíða vikum saman eftir sjúkrahúsvist. Slíkt er auðvitað alveg óviðunandi og hefur auk þess þær afleiðingar, að miklu fleiri verða að leita til útlanda en ella væri þörf. Annars fer ég ekki nánar út í þetta mál, það hljóta allir að skilja.

Hin till., sem ég er meðflm. að, er á þskj. 685 og er um það að veita Helga Hjörvar leyfi frá störfum eitt ár á fullum launum í tilefni 20 ára starfs hans við útvarpið. Það er óþarfi að mæla með þessari till., því að ég veit, að þm. sjá, að það er sanngjarnt, að hún nái fram að ganga.

Ég ætla svo ekki að fara frekar út í einstaka liði frv., en vil þó segja mína skoðun á því í nokkrum orðum. Það er greinilegt, að í þessu frv. er engin stefnubreyting frá þeirri leið, sem þing og stjórn hafa fylgt, þó að hverjum þm. sé ljóst, að þessi leið er ekki fær lengur. Það er svo komið, að nærri er ógerningur að koma fjárlagaendunum saman, hvernig sem reynt er að lækka útgjöldin og auka tekjurnar. Mér reiknast, að fjárl. hafi hækkað um 10 millj., síðan þau komu frá fjmrh., á öðrum liðum en til dýrtíðarráðstafana. Þrátt fyrir nýja skatta lítur svo út, að milljónatug vanti enn, til þess að endarnir nái saman, og er ekki hægt að sjá, að annað ráð sé fyrir hendi en hækka áætlaða tekjuliði. Öll afgreiðsla frv. verður því ákaflega hæpin og því hæpnari, þar sem þessir tekjuliðir hafa verið áætlaðir svo hátt, að vafasamt er, að þeir skili eins miklum tekjum og gert er ráð fyrir. Gjöld ríkisins hækka svo ört, að venjulegir tekjustofnar hrökkva ekki fyrir þeim greiðslum. Afleiðingin af því er sú, að leita verður að nýjum leiðum til að skatta þjóðina til að láta enda mætast og yfirleitt öll ráð notuð til að afla nýrra tekna til þess að standast ný útgjöld. Nýir skattar og tollar, sem lagðir hafa verið á undanfarin tvö ár, nema nú orðið um 85 millj. kr., og auðvitað hafa þeir verið teknir að meira eða minna leyti af neyzlu almennings og valda því vaxandi dýrtíð og útþenslu. Þessi skatta- og tollahækkun mun samsvara 20–22% gengislækkun og er raunverulega ekkert annað, þó að sú gengislækkun sé að vísu grímuklædd. Þetta hefur orðið að gera til að standa undir sívaxandi útgjöldum ríkisins, er hefur um leið í för með sér enn aukna útþenslu og dýrtíð.

Ef athuguð er sú þróun, sem átt hefur sér stað síðan 1946 í fjármálum þjóðarinnar, þá er niðurstaðan sú, að bankaútlánin hafa aukizt um 350–400 millj. Niðurgreiðslurnar hafa vaxið úr 16 millj. upp í 75 millj. og fjárl. hækkað úr 143 millj. í 293 millj. Þetta sýnir að mínu áliti ekkert annað en það, að sú fjármálastefna, sem fjárl. eru nú byggð á, er röng og þjóðhættuleg og hlýtur að enda í þjóðargjaldþroti, ef þessu er haldið áfram eins og nú er. Ég er því í grundvallaratriðum andvígur afgreiðslu þessara fjárlaga, eins og hún nú liggur fyrir, og ég mun því lítinn þátt taka í afgreiðslu þeirra. En það virðist sýnt vera, að þing og stjórn hafi þegar ákveðið þá leið, sem á að ganga í þessum efnum.