12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

42. mál, fjárlög 1949

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef fram á síðustu stund búizt við því, að það mundu koma fram frá hæstv. ríkisstj. nokkrar till. um að bæta opinberum starfsmönnum að einhverju leyti upp þeirra laun. Það er vitanlegt, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, með stjórn þess eða þing þess að baki, hefur snúið sér til hæstv. ríkisstj. og til allra hv. þm. til þess að fá framgengt nokkrum uppbótum á þeirra laun. Og hafa þeir fært rök að því, að svo framarlega sem launalögin frá 1945 ættu að lagfærast þannig, að starfsmenn þess opinbera hefðu svipuð kjör og aðrir launþegar, þá mundi launauppbótin verða 36%. Hins vegar hafa þeir fulltrúar B.S.R.B., sem hafa átt tal við ríkisstj. og bæjarráð Reykjavíkur og þingflokkana, lýst yfir, að svo framarlega sem 25% launauppbót fengist, mundu þeir vera ánægðir með það, sérstaklega ef um leið væri þannig tekið undir þeirra mál, að farið yrði að endurskoða launalögin. — Ég hafði búizt við, að fram mundu koma brtt. frá hæstv. ríkisstj., sem gengju eitthvað í þessa átt, því að það er vitað, að það er sótt mjög ákveðið og fast á með það af hálfu stjórnar B.S.R.B., að einhver litur verði á því sýndur, að þingið verði við kröfum þeirra, sem þeir álíta mjög réttlátar og sanngjarnar. Nú hefur ekkert komið fram enn þá, sem gengur í þá átt, eða hafði ekki komið fyrr í kvöld, er ég vissi. Og ég lagði hér fram brtt., sem ég hefði kosið, að menn úr fleiri flokkum væru með, á þskj. 733, um að ríkisstj. sé heimilað að greiða starfsmönnum ríkisins og ríkisstofnana 25% launauppbót á laun þeirra árið 1949 og skipa jafnframt nefnd, sem Bandalag starfsmanna ríkis og bæja eigi fulltrúa í, er endurskoði launalögin, þannig að unnt sé að leggja tillögur hennar fyrir næsta reglulegt Alþingi. Ég býst við, að því verði ekki neitað með rökum, að þessar kröfur, sem B.S.R.B. hefur borið fram, þær eigi við rök að styðjast. Og ég býst ekki við, að því hafi heldur verið neitað í þeim samtölum, sem átt hafa sér stað milli fulltrúa þessa bandalags og þingflokkanna, ríkisstj. og bæjarráðs Reykjavíkur, að það sé svo komið nú, að fjöldinn af starfsmönnum ríkisins og hins opinbera yfirleitt geti ekki lifað sómasamlegu lífi við þau kjör, sem þeir búa nú við. Og það er vitanlegt, að meginið af þeirri kjararýrnun, sem hefur átt sér stað hjá þessum mönnum síðan Alþ. bætti þeirra kjör með launal. 1945, hefur beinlínis verið framkvæmt af því opinbera. Það er ríkið með sínum miklu álögum, með hinni vaxandi dýrtíð í landinu, sem hefur valdið því, að kjör þessara manna hafa orðið svona léleg. Og svo er hitt, að ýmsir aðilar, sem verkfallsrétt hafa, hafa getað knúið fram bætur á sínum kjörum, þar sem þessir starfsmenn hins vegar eru sviptir þeim rétti og hafa ekki getað notað hann. — Ég held, að nauðsyn sé á því við afgreiðslu fjárlaganna að gefa ríkisstj. slíka heimild sem þessa, til þess að geta orðið við þessum kröfum. Það er vitanlegt, eins og þegar hefur komið fram við umr. um þær sparnaðartill., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram og er nú verið að setja í gegnum þingið, svo sem t.d. niðurfelling kjötuppbótar, að þar er verið að taka af launafólkinu í landinu um 10 millj. kr., svo að það er út af fyrir sig ekki nema réttmætt, ef það sýnir sig, að slíkar till. verði samþ., eins og allar horfur eru á eftir atkvgr., sem fór fram í hv. Nd. í dag, þá er ekki nema rétt, að Alþ. sýni sinn vilja á að það fé, sem þannig er tekið, verði að einhverju leyti notað til þess að bæta starfsmönnum ríkisins að einhverju leyti upp það, sem þeirra kjör hafa versnað. Að öðru leyti er nú hægt að benda á tekjuöflunarleiðir, sem mundu nú koma réttlátlegar niður, svo framarlega sem svo yrði, að þessi brtt. mín yrði samþ., en hæstv. ríkisstj. þætti samt ekki nógu vel séð fyrir tekjuöflunum og hag ríkissjóðs. Ég vil þess vegna leyfa mér að vonast eftir, að hv. þm. samþykki þessa till. Það komu á fund okkar í Sósfl., eins og ég býst við einnig annarra flokka, fulltrúar frá BSRB. til þess að æskja eftir stuðningi við þetta. Ég álít að vísu, að miklu æskilegra hefði verið, að allir þingfl. gætu sameinazt um þetta. Ég hafði búizt við, að hæstv. ríkisstj. hefði þar forustuna. En af því að líklega er komið fram á síðustu stundu með að bera fram brtt. við fjárl. og af því að það var látið í veðri vaka, að ekki fengjust afbrigði fyrir brtt. eftir kl. 9 í kvöld, þá hef ég nú flutt þessa brtt. Ef það sýndi sig, að verulegur vilji væri í þingflokkunum fyrir þessu, mundi ég gjarna vilja hafa samstarf við aðra hv. þm. um þetta og taka þá þessa brtt. til baka, ef enn væri hægt að koma brtt. að. Málið er þess eðlis, að ég álít, að það þurfi að fá afgreiðslu nú þegar. Ég álít varhugavert að afgr. fjárl. þannig, að ætlazt sé til þess, að allir starfsmenn ríkisins vinni þar áfram, svo framarlega að ríkisstj. verði ekki gefin þessi heimild. Það er vitanlegt, að einn stór þáttur í ríkisbúskapnum í okkar þjóðfélagi verður að hafa það tryggt, að starfsmenn ríkisins geti verið sæmilega ánægðir með sín kjör og að ekki verði ofboðið þeirra þolinmæði. Starfsmenn ríkisins hafa ákaflega oft orðið að bíða lengi eftir réttlátum launauppbótum. Við vitum allir, að þegar Alþ. setti launal. 1945, þá voru allar aðrar stéttir í þjóðfélaginu — og jafnvel þær stéttir, sem reka sjálfstæða atvinnu — löngu búnar að fá verulegar kjarabætur. En starfsmenn ríkisins voru a.m.k. þremur árum á eftir t.d. verkamönnum með að fá bætt sín launakjör, og höfðu þeir samt ekki, fjöldinn af þeim, haft allt of góð kjör á árunum á milli styrjaldanna. Svona hefur það alltaf gengið með þá, vegna þess að þeir hafa ekki haft rétt til þess að neita að láta sína vinnu af hendi, nema tekið sé tillit til þeirra krafna. En samt sem áður eru þeirra kröfur ekki meiri en það nú, að þeirra kjör séu samræmd við kjör annarra. Og við vitum, að sá flokkur, sem forustu hefur í ríkisstj., Alþfl., sem um leið á forseta Alþýðusambands Íslands, hefur látið þau boð út ganga gegnum Alþýðusambandið í öllum verkalýðsfélögum á landinu, að segja upp sínum samningum við atvinnurekendur. Og við vitum, að þau félög, sem þessi flokkur á ítök í, hafa látið koma til ákaflegra langra verkfalla, sem hafa verið mjög dýr fyrir þjóðfélagið. Þegar þannig er búið að fara að af flokki, sem forustu hefur í ríkisstj., er ekki nema von, að starfsmenn ríkisins og ríkisstofnana segi: Er það ekki rétt, að við fáum samræmd okkar kjör við það, sem verkamenn og launþegar hafa fengið? — Ég býst við, að allir viðurkenni, að þessi krafa er sanngjörn. Það er þá aðeins eitt, sem við þm. erum spurðir að af hálfu þessara manna, sem sé, hvort við þm. viljum nota okkur það, að starfsmenn ríkisins hafa ekki verkfallsrétt og að við höfum fyrir löngu síðan tekið þann rétt af þeim. Og sá móralski grundvöllur, sem álitinn hefur verið til þess, að hægt væri að taka þennan rétt af þeim, er, að við treystum Alþ. til þess að veita þeim rétt sinn, án þess að þeir þurfi harðvítuga baráttu til þess að knýja fram sitt réttlætismál í launamálum. Þess vegna álít ég, að okkur beri að verða við óskum og kröfum þessara starfsmanna ríkisins, ekki sízt þegar mikið er um það rætt, að við þurfum að endurskipuleggja ríkisbúskapinn og jafnvel kannske að samþ. ákvarðanir viðvíkjandi því, að við þurfum að bæta vinnuafköst í ríkisstofnunum og þurfum að skapa miklu meira starf í ríkisstofnunum og annað slíkt. Svo framarlega að einhver árangur eigi að fást af slíkum endurbótum, þá er alveg gefið, að Alþ. á að vera með því að sýna þeim mönnum, sem þarna starfa, að það vilji verða við réttlátum kröfum þeirra. Ég vil þess vegna leyfa mér að vonast til þess, — ef ekki koma aðrar till., sem ganga í sömu átt, annaðhvort frá öllum flokkum þingsins eða ríkisstj. sjálfri, — að hv. alþm. geti orðið við því að samþ. þessa brtt. mína á þskj. 733, um að heimila ríkisstj. að greiða starfsmönnum ríkisins og ríkisstofnana þessa launauppbót og skipa nefnd til þess að endurskoða launalögin.