11.11.1948
Neðri deild: 13. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

63. mál, lántaka handa ríkissjóði

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Eins og segir á þskj. 93 í greinargerð fjhn., er frv. þetta flutt samkv. beiðni fjmrh. Eins og kunnugt er, varðar það tilraun til að afla ríkissjóði tekna með svokölluðu happdrættisláni. Á s.l. sumri ákvað ríkisstj. að efna til slíks lánsútboðs, en undirbúningur þess tók nokkurn tíma, sem orsakaðist af vandasamri prentun o.fl. Upplýsinga var aflað hjá nágrannaþjóðunum, sem nokkuð hafa tíðkað þessa aðferð um fyrirkomulag hjá þeim. Lán þetta, að upphæð 15 millj. kr., var síðan boðið út og varð mjög vinsælt, þannig að öll skuldabréfin seldust upp á tæpum mánuði, og hefði verið hægt að selja meira. Fé því, sem inn kom við þetta lánsútboð, var varið til að grynna á skuld ríkissjóðs við Landsbankann og hjálpa til að ríkissjóður gæti staðið við ákvæði fjárlaga. En þrátt fyrir þetta lánsútboð nemur skuld ríkissjóðs við Landsbankann enn hárri upphæð. Allmikið af þessari skuld stafar af venjulegum útgjöldum ríkisins, en mikill hluti hennar stafar af öðrum fjárskuldbindingum ríkissjóðs, einkum ábyrgðum fyrir ýmsar stofnanir. Þess er að vænta, að allverulega grynnist á þessum skuldum um áramótin með inngreiðslu tekju- og eignarskatts. Tollstjóri hefur sagt mér, að óvenjulega háar upphæðir séu enn útistandandi af tekjuskattinum og hugsanlegt, að verði erfiðara að ná honum nú, en að undanförnu. En beita verður venjulegum aðferðum til að ná honum fyrir áramót.

Ríkisstj. hefur nú ákveðið að fleyta annarri lántöku þessarar heimildar. Þetta happdrættislán er frábrugðið öðrum happdrættum að því leyti, að stofnfé tapast ekki, heldur er aðeins bundið um tíma, og getur þetta því hjálpað til að binda fé sem sparifé. Vinningarnir jafnast á við, að greiddir væru 5% vextir af láninu. Ætlazt er til, að tilhögun verði svipuð á þessu lánsútboði og hinu fyrra. Með fyrra lánið voru nægar heimildir í lögum, en fjmrn. áleit, að réttast væri að leita til Alþ. með þetta útboð. Mjög er líklegt, að góður sölutími sé nú um áramótin, sérstaklega í desember. Mér hefur verið bent á, að miklar annir séu nú í prentsmiðjunum. Er því nauðsynlegt að hraða frv. sem mest gegnum þingið, svo að hægt sé sem fyrst að hefja prentun skuldabréfanna.

Ég ætla, að ekki sé þörf fleiri orða um þetta mál. Ég vænti þess, að Alþ. veiti þessa heimild, og vona, að hæstv. forseti reyni að hraða málinu.