10.12.1948
Neðri deild: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (1679)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð í tilefni af því, sem hæstv. menntmrh. sagði. Hann er nú ekki sjáanlegur hér í d. Ég hefði frekar óskað eftir því, að hæstv. forseti gerði tilraun til þess, að hæstv. ráðh. mætti vera hér innan veggja.

Það hefur komið glöggt í ljós við þessar umr., að hæstv. menntmrh. er ekki umhugað að vera við þessar umr. hér um þetta mál. (Menntmrh.: Ég var hér áðan.) Já, um tíma. En hæstv. menntmrh., sem hefur þótt vera einn helzti málsvari sjávarútvegsins hér á þingi, sagði við þessa umr., að hann hefði ekki ætlað sér að blanda sér inn í þessi mál nú. Hvað er það, sem gerir það að verkum, að hann ætlar sér ekki að blanda sér í þessi mál? Hvað er það, sem tefur þennan sérfræðing Framsfl. í sjávarútvegsmálum í því að láta ljós sitt skína, þar sem líka er hér að ræða um mál, sem snertir kjördæmi okkar beggja. Það er það, sem að lokum kom fram í ræðu hæstv. ráðh. áðan, að hann veigrar sér við því að koma í umr. nærri þessu máli, sem hér liggur fyrir. Hann vill ekki ræða það. Hæstv. ráðh. býr aðeins til nokkrar setningar um það, hvað ég vilji gera í þessu máli, þvert ofan í það, sem hv. þm. hafa heyrt mig tala um, hvað hér yrði að gera. Svo leggur hann út af því. Hann bætir svo við nokkrum orðum frá sjálfum sér um það, að þetta sé tilraun til þess að ráða við málið, og talar svo ekki frekar um þær ráðstafanir. Hæstv. ráðh. segir, að ég sé mjög andvígur því, þegar slaka á á skuldakröfum hjá útgerðinni. Hver skyldi hafa heyrt mig vera á móti því, ef hægt væri á raunhæfan hátt að létta ranglátum skuldabyrðum af bátaútveginum? Ég veit, að enginn hefur nokkru sinni heyrt þetta frá mér. Ég er reiðubúinn til þess að athuga tillögur til þess að létta þann þunga skuldabagga, sem nú hvílir á bátaútveginum. En þegar á að gera það á þennan hátt, að það á að steypa um koll þeim samtökum útvegsmanna, sem þeir hafa komið sér upp í sambandi við sinn rekstur og eru þeim nauðsynleg, þegar á að fara þannig með skuldir nokkurra bátaútvegsmanna, að segja við þá, nú skuluð þið láta biða að borga ykkar samtökum, olíusamlagi, veiðarfæraverzlunum og viðgerðarverkstæðum, sem þið hafið komið upp, og nú skuluð þið láta þessi félög ykkar lána ykkur, og svo skuluð þið steypa þessum félögum á hausinn, þá segi ég, að þetta séu ekki till. til lausnar á vandamálum sjávarútvegsins. Og þetta veit ég, að hæstv. menntmrh. skilur og veit, og ég veit, að hann kvíðir fyrir að ræða um þetta við menn í okkar kjördæmi, sem hann hefur eggjað lögeggjan um og styrkt í þessu. Hæstv. ráðh. veit, að hann muni ekki fá þá menn til þess að samþ. þessar aðgerðir. Hann veit, að skuldabyrðar, sem hvíla á bátaútveginum, eru hjá bönkum landsins, t.d. í stofnlánadeild sjávarútvegsins og Fiskveiðasjóði Íslands, og að þessar skuldir er hægt að geyma og veita gjaldfrest á þeim og slaka til með afborganir á þeim. Þetta er hægt að gera. Af hverju er það ekki gert? Lausnarorðið er að veita gjaldfrest á skuldum, sem hvíla á útgerðinni í sambandi við nauðsynjakaup hennar, sem hún kaupir í mörgum tilfellum af sínum eigin samtökum.

Þá heldur hæstv. ráðh. því fram, að ég sé á móti því, að útgerðin fái gjaldfrest. Ég er ekki á móti því, að hún geti fengið raunverulegan gjaldfrest, og ég vildi gjarnan fara þá leið, að henni yrði hjálpað, eins og stundum áður þegar illa hefur tekizt til með veiði, til þess að fá lán til þess að létta af sér nokkrum af þeim þús. kr., sem nú hvíla svo þungt á henni. En það er með öllu þýðingarlaust að ætla að snúa staðreyndunum svona við og reyna að vinda sig út úr þessu alvarlega máli með því að segja, að ég sé á móti því, að útgerðinni sé veittur gjaldfrestur, þegar hún þarf á að halda. En ég held því fram, að slíkar ráðstafanir þurfi að vera á annan veg, til þess að þær komi að raunverulegum notum og eyðileggi ekki þá uppbyggingu, sem hún hefur haft með höndum í sambandi við sína framleiðslu. Svo stendur hæstv. menntmrh. upp og segir, að við sósíalistar viljum aðeins leysa inn þetta lögveð og láta svo allt eiga sig. Hver hefur heyrt þetta frá okkur? Við höfum sagt þvert á móti, að það muni þurfa meira en 6 millj. kr. til þess að leysa þessar lögveðskröfur. Og ég sagði, að ef þessi upphæð dygði ekki, yrði hæstv. Alþ. að horfast í augu við það, að hafa þessa fjárveitingu nokkru rýmri. Ég hef áður bent á, að það er auðvelt að lækka ýmsan kostnað í rekstri útgerðarinnar, sem útgerðinni er mjög nauðsynlegt, að verði gert. Mér er það fullkomlega ljóst, að það þarf að rétta útgerðinni hjálparhönd fram yfir það að leysa lögveðin, en hitt er síður en svo til bóta.

Þá sagði hæstv. menntmrh., að þeir vildu fyrirbyggja, að hver og einn gæti gengið að útgerðinni og gert hana upp. Ég er nú líka alveg fullviss um það, að hæstv. ráðh. þekkir það mikið til þessara mála, að hann veit, að hér er um hreina vitleysu að ræða. Heldur kannske hæstv. ráðh., að þeir, sem eiga hjá útgerðinni olíuskuldir, veiðarfæraskuldir og viðgerðarskuldir af bátum, að þeir mundu láta leggja sér út bátana til greiðslu á veðum, sem hvíla á bátunum? Nei, þeir eru fáir. Hitt væri auðvelt að setja ákvæði um, að heimilað væri til 1. júlí næsta sumar, að ganga megi ekki að nokkrum bát og gera hann upp án þess að setja gjaldfrest gagnvart þeim aðilum, sem ég hef gert að umtalsefni. — Þó að hæstv. ráðh. talaði um, að þessar till. væru tilraun til þess að ráða við málið, þá ráða þeir í raun og veru ekkert við það.

Ég vil að lokum undirstrika það, að ég beindi þeirri einföldu spurningu til ráðh., hvort hann hefði gert sér grein fyrir þeirri hættu, sem steðjaði að samtökum útvegsmanna og öllum þeim félögum og rekstri, sem eiga viðskipti við útgerðina, ef þetta frv. yrði að l. Ráðh. svaraði henni á þá leið, sem ég hef lýst, og svo geta menn gert upp við sig, hvort þetta svar var fullnægjandi hjá hæstv. ráðh.