16.12.1948
Efri deild: 39. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1790)

102. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þær ágætu upplýsingar, sem hann hefur gefið um þetta mál, en vildi þá mega spyrja um, hvort það sé út af fyrir sig nokkur ástæða til að binda þessi tvö mál saman, hin endanlegu sambandsslit og fiskveiðiréttindi Færeyinga hér við land. Gæti það ekki hugsazt, að gengið yrði frá sambandsslitunum, þó að Færeyingar héldu þessum rétti, m.a. á þeim grundvelli, sem hæstv. ráðh. talaði um, að ekki yrði afsalað sér að fullu rétti til Grænlands, með því t.d. að hafa það mál óafgert. Ég er ekkert að andmæla þessu frv., sem hér liggur fyrir. Síður en svo. Og ég mun greiða atkv. með því. En mér datt þetta bara í hug, vegna þeirra upplýsinga, sem nú liggja fyrir, að þetta sé kannske ekki svo mjög bundið við sjálft málið, hvort um fiskveiðiréttindin sé samið síðar meir, því að mér skilst á hæstv. ráðh., að ekki mundi vera hægt að semja um fiskveiðiréttindi Færeyinga hér við land og fiskveiðiréttindi okkar við Grænland gagnkvæmt, ef endanlega væri ekkí búið að ganga frá málum okkar gagnvart Grænlandi.

Ég vildi einnig gera nokkra fyrirspurn út af því, sem hæstv. ráðh. tjáði okkur hér, að Danir teldu sambandslögin enn í gildi og hefðu þau sem lög hjá sér, hvort það sé rétt, sem frétzt hefur hingað, að heiti konungsins í Danmörku sé þannig, að hann kalli sig konung Danmerkur og Íslands o.s.frv. Þetta út af fyrir sig hefur ekki mikla þýðingu, hvernig heiti þessa konungs er látið vera. En ef þetta er rétt, sem heyrzt hefur, væri gott að fá um það upplýsingar. Kæmi það þá heim við það, sem hæstv. ráðh. upplýsti hér, að Danir telji sambandslögin enn í gildi.

Þá vildi ég enn fremur spyrja hæstv. dómsmrh. um, hvort nokkuð frekara hafi verið gert í þeim málum, sem minnzt var á hér í sameinuðu þingi, um dánarbætur fyrir Íslendinga þá, sem drepnir voru í Danmörku saklausir, sem vitað er um tvo, og bætur til þeirra manna, sem haldnir hafa verið þar í fangelsi í fjölda mörg ár. Mér er kunnugt um, að hæstv. dómsmrh. hefur lagt mikla vinnu í það og orðið mikið ágengt í því að fá þessa menn leysta úr fangelsi fyrir þann tíma, sem ákveðinn var með dómum, að þeir skyldu lausir látnir. Nú vil ég spyrja um, hvort það hefur verið minnzt á þessi mál í sambandi við sambandsslitin eða hvort hugsað er að gera þau mál upp eða hvort hugsað er af hæstv. utanrrh. að gera ekkert í þeim málum frekar. Ég hef frétt í dag, að í Svíþjóð sé hafinn málflutningur út af sömu ástæðum, út af a.m.k. einum aðila sænskum, sem hafa vakið mjög mikla athygli í Danmörku. Og í þeim fréttum, sem ég hef fengið um þetta, sem ég vil ekki segja, að séu ábyggilegar, er mér tjáð, að öll líkindi séu til þess, að Danir tapi því máli. — Vildi ég gjarnan fá að að heyra álit hæstv. dómsmrh. um það atriði, sem ég hef nefnt hér, um leið og ég vil þakka honum fyrir það mikla starf, sem hann hefur unnið í sambandi við þessi mál, sumpart sjálfur og sumpart látið aðra gera allmikið til þess að lina þrautir þeirra manna, sem hnepptir voru í fangelsi og tóku oft út miklar þrautir í fjölda mörg ár.