16.12.1948
Efri deild: 39. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

102. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. um það, að kórónan á ráðherrastólunum sé ekkert annað en sögulegar minningar, sem ég tók fram, að ég sjái ekki nokkra minnstu ástæðu til að amast við, enda hélt ég því ekki fram í ræðu minni áðan, að þessi tákn beri að afnema. Ég tel, að slíkar sögulegar minningar eigi einmitt ekki að afnema. Ég mundi síður en svo vilja láta taka kórónuna af framhlið þessa húss og afnema hana út af þeim misskilningi, að hægt væri að slá með því striki yfir þá staðreynd, að Íslendingar hafa lotið Danakonungi. — En það hefur þegar borið nokkuð á slíkri tilhneigingu til þess að afnema ýmsa þætti úr sögu Íslands. Mér virðist, þegar legsteinn Páls Stigssonar er tekinn úr Bessastaðakirkju, að þar sé um tilraun að ræða til þess að fjarlægja minninguna um hinn óviðkunnanlega þátt úr menningarsögu staðarins. Ég hefði talið, að legsteinn Magnúsar Gíslasonar og legsteinn Páls Stígssonar hefðu báðir átt að vera kyrrir á Bessastöðum til minningar um þær dekkri og bjartari hliðar þessa sögustaðar. Sama segi ég um þær minningar, sem eru á þessu húsi um hið danska konungsvald hér á landi, að ég held ekki, að hin minnsta ástæða sé til þess að hagga við þeim.

Í því, sem hæstv. ráðh. sagði um það atriði ræðu minnar, að ég teldi óviðkunnanlegt, að Íslendingar sæktu um viss hlunnindi í Danmörku, sem þeir hefðu notið samkvæmt sambandslögunum, virtist mér hann leggja áherzlu á það í sínu svari, að hann héldi, að Danir mundu ekki veita slík réttindi sér í skaða. Það var alls ekki hagur Dana, sem ég bar fyrir brjósti, heldur hitt, að mér fyndist ekki sæmandi Íslendingum að sækja um fyrirgreiðslur samkvæmt lögum, sem þeir teldu sjálfir úr gildi fallin. Það er kannske ekki hægt fyrir íslenzk stjórnarvöld að standa í vegi fyrir slíku. En mín skoðun er, að þetta sé óviðkunnanlegt, eftir að Íslendingar líta þannig á, að sambandslögin séu ekki í gildi, hvorki einn né neinn stafur í þeim.