15.12.1948
Efri deild: 33. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (1829)

83. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. þm. Dal., hvort ríkisstj. muni leggja kapp á að framfylgja 14. lið 1. gr. að hraða svo endurskoðun laganna, að niðurstöður þeirra rannsókna verði komnar til ríkisstj. fyrir 1. okt. n.k., þá mun ég leggja á það mikla áherzlu, að næsta þing fái að fjalla um breyt. á tryggingalögunum eftir þessa endurskoðun. Ég vona því, að þetta sé fullnægjandi svar við fyrirspurn hv. þm. Dal.

Ég vil nú með örfáum orðum víkja að frv. og ástæðum þeim, sem liggja til þess, að ríkisstj. hefur frestað framkvæmd HI. kafla laganna. Eins og menn muna, var sams konar frestun samþ. á síðasta þingi. Aðalorsökin var sú, að ekki náðist samkomulag milli lækna og Tryggingastofnunarinnar um taxta við framkvæmd heilsugæzlukaflans. Þegar sýnt þótti, að ekki mundi nást samkomulag, var um tvennt að velja, að fresta framkvæmd kaflans eða framkvæma hann og heilbrmrn. setti læknunum taxta. Og það var ekki hvað sízt af þeim ástæðum, að frestað var framkvæmd heilsugæzlukaflans. Að þessu, sinni var ekki reynt til þrautar að ná þessu samkomulagi, en allt virtist þó benda til þess, að afstaða lækna og Tryggingastofnunarinnar væri svipuð og verið hafði og djúpt bil milli þessara aðila. Ég segi ekki, að það sé frágangssök að setja taxta af heilbrmrn., og ef til vill fer svo, að það verður að gera það, en óneitanlega verður framkvæmdin erfiðari í vöfum, ef læknarnir standa á móti og ráðuneytið verður að þvinga þá. Ég held því, að reyna verði til þrautar að ná samkomulagi við þá, og held ég, að gildi svipuð rök nú og á síðasta ári fyrir því, að fresta verði framkvæmd þessa kafla.

Það er talað um það með réttu, að því hafi verið lofað í lögunum frá 1946, að kaflinn um heilsugæzlu kæmi til framkvæmda 1948, en svo væri fólk svikið um þetta í 2 ár. En þá er rétt að líta á það, að meðan ekki eru byggðar fleiri heilsuverndarstöðvar, en nú er gert, þá verður hagnaður almennings af framkvæmd IH. kaflans vafasamur.

Þá var það þungt á metunum hjá ríkisstj., að ríkissjóður þurfti að leggja fram 31/2 millj. og létta af sveitarfélögunum 2 millj. Þetta var því þungt á metunum, þegar erfitt var að afgreiða hallalaus fjárlög. En ég sagði það áðan og skal færa fyrir því nokkur rök, að engin vissa er fyrir því, að fólk bíði nokkurt tjón við það, þó að frestað verði framkvæmd þessa kafla um eins árs skeið til viðbótar. Og það má geta þess, að það eru jafnríkar ástæður til þess að hika ekki við að gera það, sem unnt er með aðstoð Tryggingastofnunarinnar, til að byggja ný sjúkrahús, bæta við þau, sem fyrir eru og leggja grundvöll að því að byggja nýjar heilsugæzlustöðvar, sem að mínu viti er kannske þungamiðjan í framkvæmd heilsugæzlukaflans, þó að hann verði ekki framkvæmdur á árinu 1949. Einnig má minna á það, að gróðinn er ekki einsýnn fyrir almenning, þó að heilsugæzlukaflinn kæmi til framkvæmda. Ef miðað er við núverandi iðgjöld einhleyps manns í Reykjavík til sjúkrasamlagsins, sem hefur 15 kr. iðgjöld á mánuði, og við þau tryggingagjöld, sem hver einstaklingur þarf að greiða til almannatrygginganna, þá mundi framkvæmd heilsugæzlukaflans aðeins létta örlitið af hverjum einstaklingi hvað snertir árlegar greiðslur vegna trygginganna. Þótt það yrði um 100 kr., sem létti á einstaklingi hér í Reykjavík, miðað við það, sem iðgjöld eru hæst, en yrði ekkert sums staðar annars staðar, þar sem iðgjöld eru t.d. 8 kr. á mánuði, þá kemur annað til greina, þar sem almenningur missir nokkur réttindi við framkvæmd heilsugæzlu kaflans, þ.e. bæði það, að þá á hver einstaklingur að greiða 1/4 af læknishjálp til almennra sjúkrasamlagslækna og þá á hver, sem leitar til læknis, að greiða 1/4 af því, sem Iæknisvitjun hefur í för með sér. En nú greiðir hver einstaklingur ekki neitt við slíka læknisvitjun. Þegar heilsugæzlukaflinn kemur til framkvæmda, þarf hver maður, sem þarf lyf, að greiða helming lyfjakostnaðar, en nú eftir reglum, sem gilda hjá sjúkrasamlaginu hér í Reykjavík, þá á hver einstaklingur að fá greitt 3/4 af lyfjum. Það er því ekki unnt að segja um það með nokkurri vissu, það fer eftir því, hvað mikið menn leita til lækna og kaupa lyf, hvort það er nokkuð dýrara, þótt frestað sé framkvæmd heilsugæzlukaflans. Ég vildi benda á þetta atriði, af því að í því leynast tilraunir, sem gerðar eru til þess að ófrægja þessa frestun, en það hefur verið þagað yfir þessu atriði, sem er þó nokkurs virði og rétt að benda á.

Það má einnig benda á það, að þar sem til stendur allsherjar endurskoðun á tryggingalöggjöfinni, sem vonazt er eftir að verði lokið við fyrir 1. okt., svo að breyt. á löggjöfinni í heild gæti verið gerð í samræmi við þær till., sem fram kynnu að koma á næsta reglulegu Alþ., þá styður það einnig það, að rétt sé að fresta um eins árs skeið framkvæmd III. kafla tryggingarlöggjafarinnar. Ég vildi aðeins taka fram, af því að ég stóð upp til að svara fyrirspurn hv. þm. Dal., þessi almennu orð, vegna þess að ég var ekki viðstaddur, þegar málið kom til 1. umr. hér í d.