10.12.1948
Efri deild: 28. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

93. mál, tollskrá o.fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Mér þykir vænt að heyra, að hæstv. ráðh. ætlar að gefa upplýsingar um það, hve miklar tekjur eru áætlaðar af þessu frv. út af fyrir sig. Það er hlutur, sem mjög fróðlegt er að vita og hefur náttúrlega sérstaklega þýðingu, þegar meta á þetta frv. (Fjmrh.: Meinar þm. þá að fá upp gefið, hvað sé áætlaður verðtollur og vörumagnstollur með þeirri hækkun, sem þarna er um að ræða?) Ég á bara við hækkunina, aðeins þær tekjur, sem fást með samþykkt þessa frv. Annars býst ég nú við, að það sé nokkuð tilgangslaust af okkur hæstv. ráðh. að deila lengi um þetta atriði. Hér er um að ræða mjög mikinn grundvallarskoðanamismun, og ég býst ekki við, að miklar líkur séu til, að við sannfærum hvor annan með löngum umr.

Út af því, sem ráðh. sagði um það, að ekki væri farið fram á annað, en framlengingu þessarar tollahækkunar um eitt ár, þannig að frv. bæri það ekki með sér, að hér væri um frambúðarráðstafanir að ræða, þá vildi ég bara segja það, að það er ekkert nýtt, að skattar, sem hafa orðið fastir skattar, hafa einmitt verið gerðir að föstum tekjustofnum á þann hátt, að þeir hafa verið framlengdir ár eftir ár og jafnvel um áratugi. Og mér virðist, að þegar nú er lagt til, að þessi tekjustofn verði enn framlengdur, — það er í annað skipti, sem hann er framlengdur, — þá sé einmitt til þess ætlazt, að hér verði um áframhaldandi tekjustofn að ræða, enda hefur hæstv. ráðh. ekki gefið neitt fyrirheit um, að hann verði ekki framlengdur áfram, og ef svo er, held ég, að rétt sé að láta fara fram allsherjar endurskoðun á tollskránni, því að þessi skattur raskar óneitanlega öllum grundvelli hennar.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að hann sæi enga leið betri til þess að afla þeirra tekna, sem hann teldi nauðsynlegar fyrir ríkissjóð. Ég verð aftur á móti að segja það, að ég tel þetta allra verstu leiðina, sem hægt, sé að láta sér til hugar koma, af þeim ástæðum, sem ég sagði áðan, að hún hefur það í för með sér, að dýrtíðin í landinu stóreykst. Ekki aðeins, að allar tollvörur hækki í verði, heldur líka innlendar vörur. Þetta er stundum borið saman við tekjuskattinn og spurt, hvort þeir, sem andmæla svona leið, telji þá rétt að hækka tekjuskattinn, og er á það bent í þessu sambandi, sem rétt er, að flestum muni nú þykja tekjuskatturinn nægilega hár. En þá er bara því til að svara, að þetta er líka skattur. Þetta er engu síður skattur á öllum almenningi en tekjuskatturinn, og hækkun á tekjuskattinum kæmi ekki verr niður á millistéttinni, þó að hann sé orðinn svona hár, en þetta hér. Millistéttin, sem er orðin pínd af háum tekjuskatti, verður enn þrautpíndari, þegar svona skattur er á hana lagður. Munurinn er aðeins á, að þessi skattaleið kemur tiltölulega þyngra niður á þeim, sem hafa lágar tekjur, og það er kannske einmitt þetta, sem ráðh. telur kostinn við þessa leið.

Hæstv. ráðh. talaði mikið um þenslu í útgjöldum ríkissjóðs og tók sem dæmi fjárframlög til fræðslulöggjafarinnar. Skildist mér á honum, að þarna væri nú einn af þeim útgjaldaliðum, sem kæmi til greina að draga saman, ef menn vildu heldur fara þá leið. Ég verð að segja, að ég álít, að þetta sé eitt af því, sem sízt komi til greina. Það er rétt, að margt þarf að draga saman og þótt fyrr hefði verið. En það, sem ég álit að komi þar til greina, er sjálft ríkisbáknið. Það er að draga úr þeirri miklu þenslu, sem hefur orðið í sjálfu ríkisbákninu síðustu ár. Og hvað fræðslumálin snertir, þá er það náttúrlega misskilningur, að öll sú þensla, sem hefur orðið í útgjöldum til fræðslumála, sé eingöngu hinu nýja fræðslukerfi að kenna, þótt það hafi aukinn kostnað í för með sér, en það er fjarri því, að öll sú þensla sé af þeirri ástæðu. Það var orðin brýn nauðsyn að byggja fjölda skólahúsa vegna þess, hvað það hafði verið vanrækt um langan tíma. Skólarnir voru að grotna niður í landinu, og það hefði ekki verið hægt að koma á hinni nýju fræðslulöggjöf né heldur framkvæma þá gömlu, enda þótt engin ný fræðslulöggjöf hefði verið sett.

Hæstv. ráðh. óx kennaralaunin mjög í augum. Það er rétt, að þegar nýju l. voru sett, bötnuðu mikið laun kennara, og má segja, að þau laun hafi verið sæmileg. En síðan hefur orðið stórbreyting á, því að dýrtíðin hefur stóraukizt, þannig að það er fjarri því, að ástæða sé til að láta sér vaxa í augum þau laun, sem kennarar hafa nú. Þau eru orðin of lág, ef gert er ráð fyrir, að kennarar þurfi ekki að afla sér aukatekna með því að vinna á sumrin.

Hæstv. ráðh. minntist á, að einn af stærstu útgjaldaliðum fjárl. væru dýrtíðarráðstafanirnar. En ég vil benda á í því sambandi, að einmitt þetta frv. eða þessi lög, sem hér er lagt til að framlengja, hafa orðið til þess, þegar þau voru sett á sínum tíma, að hækka stórlega þennan útgjaldalið, og er það ein röksemdin fyrir því, hvað þessi leið er óheppileg sem tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð á þeim tíma, sem viðurkennt er af öllum, að aðalvandamálið sé að draga úr dýrtíðinni.