11.02.1949
Efri deild: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (1928)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það hafa spunnizt hér umr. út af þeim fáu orðum, sem ég sagði áðan, og hæstv. fjmrh. hefur talað um, að ég hafi gert árás á ríkisstj. út af afgreiðslu fjárl. En þótt honum finnist ég hafa gert árás, þá vil ég leyfa mér að benda á, að ég hef ekki minnzt á annað, en þær staðreyndir, sem fyrir liggja. Það, sem ég sagði, var það, að þar, sem lag væri á fjármálastjórn, væri það sums staðar svo að minnsta kosti, að þm. mættu ekki bera fram brtt. til hækkunar á fjárl., nema gera jafnframt till. um samsvarandi auknar tekjur á fjárlfrv. eða sjá fyrir tekjum. Ég sagði enn fremur, að þetta hefði verið gert hér á landi fyrr á árum, eða þannig var það praktíserað, en á því hefði nú orðið breyting, og á síðasta ári vantaði nokkra milljónatugi í tekjuhlið fjárlfrv., er það var lagt fram, sem þurfti að afla vegna dýrtíðarráðstafana. Þegar frv. var lagt fyrir Alþ., vantaði 35 millj. kr., sem afla þurfti, en ríkisstj. benti ekki á sérstakar leiðir í því efni, og við það sat þingið þar til rétt fyrir jól. Ég sagði aldrei neitt um það, hvort það stafaði af ósamkomulagi innan stj., það lét ég ósagt, en ég sýndi fram á, að það er ekki lag á afgreiðslu fjárl., og það kannast raunar allir þm. við.

Ég hef ekki gert annað en draga fram staðreyndir, en ég bendi aðeins á eitt dæmi, sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. sjálfum og er miklu alvarlegri ádeila á ríkisstj. en það, sem ég benti á. Hann sagði, að í byrjun þings hefðu verið heimtaðar af honum starfsmannaskrár, og hæstv. ráðh. upplýsir, að þó að hann hafi gengið eftir þessum skrám svo að segja á hverjum degi síðan, þá nái hann þeim ekki. Hvað hefði hann sagt, ef ég hefði komið fram með þessa ádeilu? Ég talaði ekki um, hvaða orsakir lægju til þess, að fjárlfrv. var lagt þannig fyrir þingið sem raun ber vitni, en þegar hæstv. ráðh. lýsir því yfir, að hann þurfi 4–5 mánuði til að ná í skrár yfir það starfsfólk, sem hér á hlut að máli, þá þarf ég ekki eftir slíka yfirlýsingu að fara lengra út í umræður um þetta. Allar staðreyndir, sem ég benti á, verða skiljanlegar, þegar búið er að færa þetta fram.

Ég vil út af því, að hæstv. ráðh. talaði hér um kjötstyrkinn og úthlutun hans og deildi á mig og Framsfl. í því sambandi, segja það, að Framsfl. hefur alltaf verið til með að breyta þeim reglum. En eigin flokksmaður fjmrh. setti þessar kjötstyrksreglur, sem eru þannig, að menn geta alltaf borðað kjöt og grætt á því, af því að þeir má meiri styrk, en kjötkaupunum nemur. Ég veit, að ef hæstv. fjmrh. rifjar það upp, þá man hann, hvaða ráðh. setti þessar reglur undir stöðugri ádeilu af hálfu framsóknarmanna. Það er því alveg óþarfi að beina þessu til mín, og ekki heldur hefur ræða mín gefið tilefni til annarra orða, sem hér hafa fallið í minn garð, þó að ég sé ekkert að kvarta undan því, að til mín hefur verið talað.

En ég kem þá líka að öðru. Hæstv. ráðh. segir, að nú séu mjög óvenjulegir tímar og því sé eðlilegt, að fjárl. verði seint fyrir. Ég er alveg á öfugri skoðun, og ég er alveg undrandi, hvað sem stj. og samvinnu hennar liður, að jafngreindur og glöggur maður og hæstv. fjmrh. er á ýmsa lund skuli láta slík orð falla, því að það er vitað mál, að einmitt á erfiðum tímum má sem minnstu skakka í sambandi við fjárlög, þau þarf að gera með fastri áætlun og fastri stefnu, ekki sízt á slíkum tímum, enda er þetta höfuðeinkennið hjá þeim þjóðum, sem lent hafa í mestum erfiðleikunum á síðustu árum og eru að vinna að viðreisn sinni. Einmitt á svona tímum er allra verst að kasta fjárlfrv. óundirbúnu fyrir þingið. Og þegar hæstv. ráðh. lét svo um mælt við afgreiðslu dýrtíðarl. fyrir jólin, að hann skyldi engan dóm á það leggja, hvort þar væru farnar hinar beztu leiðir, sem hægt væri að finna og fara, þá eru það slík ummæli, að ég hefði aldrei leyft mér að hafa þau um dýrtíðarmál íslenzka ríkisins eða ætla honum ekki meiri stefnufestu, og úrræði, því að þetta sýnir, að stefnan er ekki algerlega föst og íhuguð til hins ýtrasta. Það er ríkisstj. á hverjum tíma að íhuga gaumgæfilega fjármálastefnu sína og segja að athuguðu máli: Þetta er yfirveguð stefna stjórnarinnar. Ef þingið treystir sér ekki til að fylgja henni í aðalatriðum, þá förum við, við treystum okkur ekki til að bera ábyrgð á öðru. — Í öðrum löndum er það algengt og mjög eðlilegt og sjálfsagt, að ríkisstjórnir leggi fram stefnu sína í höfuðdráttum og leggi við tilveru sína, að hún sé framkvæmd. Og það er aldrei meiri háski, en nú að kasta fjárlögum illa undirbúnum inn í þingið. Nú segir hæstv. fjmrh., að stefna hans hafi raunverulega verið sú að hætta niðurgreiðslum vegna dýrtíðarinnar, og því hafi vantað þessar 35 millj. En þessi yfirlýsing sýnir ekkert annað en það, að stj. hefur verið algerlega ósammála um öll fjármál ríkisins, er fjárlfrv. var lagt fyrir þingið. Stj. hefur verið svo gersamlega ósammála í þessu efni, að hæstv. fjmrh. vill hætta niðurgreiðslunum, en hin stefnan verður ofan á í stj. og hæstv. ráðh. situr samt hér. Hvar er eiginlega fjármálum okkar og dýrtíðarmálum komið? Er engin stefna til í þeim, en er það bara það, sem verður hér ofan á nokkrum dögum fyrir jól? Í ræðu minni leyfði ég mér ekki að fara eins djúpt í þessi mál og hæstv. ráðh. hefur sjálfur gert. En það er svo sem ekkert undarlegt, þótt þessi mál beri á góma, þegar það sýnir sig, að það er ekki til stefna hjá ríkisstj. í fjármálum. Fjárlfrv. er kastað óundirbúnu inn í þingið, fjvn. semur svo fjárl. og yfir þessu situr svo þingið.

Ég ætla svo ekki að segja meira um þetta. En hæstv. fjmrh. minntist á það hér að tilefnislausu, að það hefði nú verið annað og auðveldara að semja fjárlög þegar ég átti sæti í ríkisstj., þá hefði eingöngu verið fastir liðir að fást við. Ég hef nú sýnt fram á, að það er aldrei meiri þörf á því en nú, að undirbúningur fjárlaga sé tekinn föstum tökum og að fjármálastefnan sé föst, þegar fjárl. eru lögð fyrir þingið. En ég get líka sagt hæstv. fjmrh., að gefnu tilefni, frá aðstöðunni og vinnubrögðunum, er ég kom í stjórn, og það get ég sagt af því, að ég átti ekki aðalþáttinn í þeim vinnubrögðum, heldur þáv. fjmrh. fyrst og fremst. Þá tókum við, við 5 millj. kr. skuld, er ríkið varð að borga eftir nokkra daga. Þá var hér hálfur afli í mörg ár miðað við meðalafla, þá brást síldin algerlega eitt árið, eins og hún gerði í sumar, og þá fékkst ekki nema hálft verð fyrir fiskinn miðað við það, sem áður hafði verið, og margs konar erfiðleikar aðrir voru þá. En samt var það svo, og einmitt sérstaklega nauðsynlegt vegna erfiðleikanna, að fjárlög voru lögð fyrir þingið fyrsta eða annan daginn eftir að það kom saman. Og fjárl. voru vel undirbúin og ákveðin stefna bak við þau, og þá var hægt að segja. og var sagt: Svona vill ríkisstj. hafa þetta í aðalatriðum, þetta er hennar stefna, sem hún hefur yfirvegað og hvikar ekki frá. — Þáv. fjmrh. sat iðulega á fundum fjvn. langt fram eftir nóttu og sagði: „Ég tek ekki við þeim“, ef lagðar voru til hækkanir án tilsvarandi lækkana, sem hann gat ekki sætt sig við. Ég man t.d. eftir því einu sinni, er rætt var um 300 þús. kr. fjárveitingu til vegarins um Siglufjarðarskarð, að hann sagði, þegar hann var búinn að greiða þrisvar atkvæði á móti þessari fjárveitingu: „Ég skal greiða atkvæði gegn þessu með nafnakalli í fjórða sinn, ef þess gerist þörf, ríkið þolir ekki meiri útgjöld en búið er að samþykkja, og ef þetta verður samþ., þá förum við.“ Þar sem ég átti hér ekki hlut að máli; heldur annar ráðh. úr þeirri stjórn, sem ég sat í, þá get ég gjarnan rifjað þetta upp. Það er langt frá því, að ég vilji draga úr því, að ríkisstj. eigi nú við erfiðleika að etja, ég dreg ekki úr því. Ég deildi ekki á annað, en staðreyndir, sem liggja fyrir. En það kemst ekki lag á fjármál ríkisins fyrr en ríkisstj. kemur, leggur fjárlfrv. fyrir í upphafi þings og segir: Þannig vil ég hafa það innan vissra takmarka, sem fjvn. starfar innan. Þetta er höfuðstefnan, og ef henni er ekki fylgt, þá fer stjórnin.

Það ríður ekki á öðru meir fyrir ríkið, en hafa góðan framkvæmdastjóra, sem gerir till. sínar með fullkominni ábyrgð og gerir þá líka að fráfararatriði, sé ekki farið eftir þeim í megindráttum. Það ríður ekki á öðru meir, en ríkið hafi góðan og traustan framkvæmdastjóra, það er ríkisstj. eða fjmrh. En það er ekki auðvelt verk að stjórna ríkisbúinu vel, og það felst ekki í orðum mínum, að þetta verk sé nú létt unnið, en fyrr en það verður gert, eins og ég hef lýst, leiðréttist þetta ekki. Á meðan ekki verður stungið við fótum og leiðrétt það, sem aflaga fer um samningu og afgreiðslu fjárl., þá heldur þetta áfram þangað til ekki verður erfitt, heldur ómögulegt að semja fjárl. Sé ekki stefnt að leiðréttingu á þessu og algerri stefnubreytingu, dregur að því innan stundar, að ekki sé hægt að semja fjárlög fyrir íslenzka ríkið.