11.02.1949
Neðri deild: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1477 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

74. mál, kirkjugarðar

Frsm. (Hallgrímur Benediktsson):

Herra forseti. Frv. það, er hér liggur fyrir, er komið frá Ed. og var afgreitt þar eins og það liggur fyrir á þskj. 294.

Heilbr.- og félmn. hefur haft frv. til athugunar og varð sammála um að leggja til, að það verði samþ., eins og nál, sýnir.

Sú breyting, sem hér um ræðir, er í sambandi við bálstofu þá, sem gerð hefur verið í Rvík. Í sambandi við bálstofuna hefur Bálfararfélagi Íslands verið falið að hafa umsjón með hluta af kirkjugarðinum í Fossvogi. Út af þessari breytingu er hér svo farið fram á, að Bálfarafélagið fái fulltrúa í kirkjugarðsstjórn. Þetta sýnist vera réttlætismál, og tel ég því óþarft að hafa um það lengri framsögu, þar sem Ed. hefur líka afgr. það án nokkurs ágreinings.

Nefndin leggur því til, að frv. verði samþ. eins og það kom frá Ed.