03.03.1949
Efri deild: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1521 í B-deild Alþingistíðinda. (2089)

40. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það var nú frekar skrýtin ræða, sem hv. þm. Barð. hélt nú rétt áðan. En það er ekki svo sem neitt einsdæmi, að hann haldi skrýtnar ræður, því að hann hefur einhvern sérstakan hugsanaheim, sem hann lifir og hrærist í, sem er oft einhver annar, en hjá mönnum almennt. Hann taldi, að það kæmi úr hörðustu átt, ef Alþfl.-maður legði til, að láglaunamenn, verkafólk og aðrir lágtekjumenn fengju skattívilnanir. En það er það, sem felst í minni brtt. og annað ekki, að þeir fái skattívilnanir, ef aðrir menn, sem kannske hafa miklar tekjur, fengju skattívilnanir fyrir það að byggja yfir sjálfa sig. Mér er ekki kunnugt um, að þetta sé í ósamræmi við stefnuskrá Alþfl. Hv. þm. Barð. getur kannske bent á eitthvert stefnuskráratriði Alþfl., sem þetta stangast við. Mér er ekki kunnugt um það. — Ef hann heldur, að ég sé andvígur því, að nokkur maður vinni meira, en átta tíma á dag, þá er það röng ímyndun hjá honum. Með því að ákveða, að menn vinni átta stunda vinnudag, hef ég aðeins átt við það, að menn ættu rétt á því að hafa þann tíma dagvinnukaup og að menn ættu að fá meira kaup fyrir eftirvinnu, til þess að menn fái hærra kaup, þegar þeir leggja meira á sig og hætta heilsu sinni með löngum vinnutíma. Það er ekkert annað, sem liggur í þessu, og sízt af öllu, þegar um er að ræða aðeins að ná jafnrétti við aðra, eins og hér er um að ræða. — Hv. 1. þm. Eyf. var að tala um það, að það væri að vísu ekki náð fullu réttlæti, þó að mín brtt. væri samþ., því þó að frv. gerði ráð fyrir því aðeins, að þeir fengju skattívilnanir, sem verðu aukavinnu sinni til þess að byggja yfir sig hús, þá væru það nokkrir fleiri, sem kæmu undir þessi ákvæði um skattívilnanir, ef mín brtt. væri samþ., en ranglætið væri eins til eftir sem áður, af því að bændur fengju ekki skattívilnanir, þó að þessi brtt. væri samþ. Ég tel þetta vafasama fullyrðingu, því að hér er svo til orða tekið, að „allar tekjur verkafólks og annarra lágtekjumanna af aukavinnu“ verði undanþegnar tekjuskatti, sem lögð er fram utan venjulegs vinnutíma. (BSt: Vinnutími bænda er 10 til 12 og jafnvel 14 klst. á dag.) Ef menn, sem svona ynnu, væru lágtekjumenn, hefðu 20–25 þús. kr. á ári í tekjur, þá kæmu bændur að mínu áliti undir lögin, ef breytt væri til í samræmi við mína brtt. En aðalatriðið er hitt, að með frv. óbreyttu, sem hv. þm. ætlar að samþ., væri fjarri því, að verkamenn né bændur kæmu undir skattívilnunarákvæði þess. Og annað ranglæti blasir alveg beint við eftir frv., að bóndi, sem væri að byggja þak yfir höfuðið á sjálfum sér, gæti kannske komið undir ákvæði frv., en væri hann búinn að því, en væri að byggja peningshús, kæmi hann áreiðanlega ekki undir þessi ákvæði. Svona takmarkað er þetta. En ég vil segja, að ef hv. 1. þm. Eyf. telur rétt, að þeir, sem í frv. greinir, fái að njóta hlunnindanna, sem frv. á að veita, þá er það ekki á móti stefnu frv., þó að þetta næði einnig til verkamanna. En ég álít, að þetta næði líka til láglaunamanna í bændastétt og öðrum stéttum, eftir minni brtt. En þætti það ekki nógu skýrt í brtt. minni, þá þætti mér eðlilegt, að hv. 1. þm. Eyf. gerði það ljósara með brtt. og hann legði til, að það t.d. væri orðað þannig, að þetta næði til verkamanna, bænda og annarra lágtekjumanna, ef hann héldi, að bændur féllu þarna ekki undir eftir minni till.

Hv. þm. Barð. sagðist sjá þá hættu fram undan, ef mín brtt. væri samþ., að menn hættu vinnu á daginn og kappkostuðu að fá alla vinnu sína borgaða sem eftirvinnu og næturvinnu, og væri þá þetta slóttug aðferð til þess að hækka kaup í landinu um 50 til 100%. En þetta er ekki annað en hugarfóstur hv. þm. Barð. Eða er það kannske tilgangurinn með frv. að verðlauna þá menn, sem byggja hús fyrir sjálfa sig, en vinna ekkert á daginn, heldur á kvöldin og nóttunni, þannig að þeir menn eigi að fá skattívilnanir við það? Ég held ekki. Það er notað í brtt. alveg sama orðalag og í frv.: „Utan venjulegs vinnutíma.“ Þessi skelfilega hætta, sem hv. þm. Barð. er að vara við, hún væri til staðar, skilst mér — ef hún væri eitthvað annað en ímyndun hv. þm. Barð —, hvort sem mín brtt. væri samþ.. eða ekki. — Nei, hér er ekki mælt á móti brtt. minni með rökum, heldur út frá fáránlegum hugarórum hv. þm. Barð.

Það hafa ýmsir hv. þm. tekið fram, að brtt., sem fram eru komnar við frv., væru þannig, að þeir væru samþykkir prinsipinu í þeim. Aðrir hafa viðurkennt, að þær væru spor í réttlætisátt og að ákvæði frv. væru færð út á víðtækara svið og til aukins réttlætis, ef brtt. væru samþ. En samt hafa þeir svo fært eitthvað annað á móti því að samþ. þær. Ég skal ekkert ræða um þær röksemdafærslur hv. þm. En í raun og veru liggur fyrir viðurkenning flestra hv. þdm. á því, að frv. næði betur tilgangi sínum sem réttlætismál, ef brtt. væru samþ. ásamt frv. Menn hljóta að játa, að það er þröngur stakkur skorinn því réttlætismáli, að hér á aðeins að taka til leiðréttingar mál þeirra manna, sem byggja yfir sig íbúðarhús með vinnu, sem þeir verja til þess utan venjulegs vinnutíma. Og þar má engu skakka um þetta. Þetta skal gilda, ef um íbúðarhús er að ræða, en ef um er að ræða peningshús, þá koma þessi skattfríðindi ekki til. Og ef frv. er formað á þennan hátt, þá stappar nærri því, að það sé vitleysa og ekki annað.