27.01.1949
Neðri deild: 53. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1530 í B-deild Alþingistíðinda. (2140)

101. mál, sala landræmu úr Öskjuholtslandi

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þetta er nú lítið mál og meinlaust, sem ég flyt hér eftir ósk bóndans í Skarði, um það að ríkisstj. verði heimilað að selja landræmu úr Öskjuholtslandi í Landsveit. Þessi ræma er utan við sandgræðslugirðinguna, og sandgræðslustjóri vill gjarna selja ræmuna. Fór ég fram á það við rn. að gefa heimild til þess, en það taldi sér ekki heimilt að leyfa það, nema gefin yrði til þess sérstök heimild frá Alþ., eins og bréf skrifstofustjórans, Gunnlaugs Briems, sem fylgir hér með frv., ber með sér.

Það er ástæðulaust að ræða þetta frv. nokkuð meir, en gefið er hér í skyn í frv. sjálfu. Ég geri ekki ráð fyrir, að Alþingi sjái sér neinn hag í að vera á móti því, að þessi landræma verði seld, þar sem enginn getur nytjað hana nema bóndinn á Skarði.

Ég vil svo mælast til þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn.