11.11.1948
Neðri deild: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1551 í B-deild Alþingistíðinda. (2239)

54. mál, sjúkrahús o.fl.

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg orð um þetta frv. Það er svipað að stíl eins og frv., sem við þessir sömu flm. höfum flutt á tveim undanförnum þingum um héraðshæli. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ástandið í sjúkrahúsmálum er á þá leið víðs vegar um landið, að það eru hreinustu vandræði að koma fyrir sjúklingum, hvorki eru ástæður til að koma þeim fyrir heima í héruðunum og engin önnur ráð til bjargar, en að flytja þá, oft eftir langan tíma, til hinna stærri bæja, oft Reykjavíkur. Eins og vikið er að í grg. frv., er það svo, að fjárhagsástand héraðanna er orðið þannig, að þeim er um megn að koma upp þessum byggingum, sem hér um ræðir, og reka þær án þess að fá til þess mikinn styrk af hálfu ríkisins. Í núgildandi lögum er hámark þess styrks, sem ríkið veitir í þessu skyni, 2/5 hlutar kostnaðarins. Það hefur verið sett út á okkar frv. að undanförnu, að við hefðum verið að fara fram á að byggja nýjar stofnanir í stað sjúkrahúsa, og þykir okkur rétt að taka þær aðfinnslur til greina. Okkur er það ekkert kappsmál, hvort þær heita héraðshæli eða sjúkrahús, en hitt leggjum við mikla áherzlu á, að þeim sé heimilt að taka við sjúklingum með mismunandi sjúkdóma og sömuleiðis farlama fólki, sem að sjálfsögðu verður að vera sér, en ekki innan um venjulega sjúklinga. Ég veit, að hv. þm. er svo ljós nauðsyn þessa máls, að þeir finna, að hér er um að ræða þá þörf, sem ekki verður lengur þagað við. Ég vænti þess vegna, að frv. fái góðan gang gegnum hv. Alþ. Ég leyfi mér að stinga upp á, að því verði vísað til heilbr.- og félmn.