14.02.1949
Neðri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (2247)

54. mál, sjúkrahús o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var út af svari hv. frsm. heilbr.- og félmn. við fyrirspurn, sem ég gerði, sem ég vildi segja nokkur orð. Það er augljóst mál, að hv. frsm. hefur alveg misskilið það, sem ég sagði, og var þetta í rauninni ekkert svar við því, sem ég vildi fá upplýst. Ég þarf ekki að biðja um upplýsingar um, hvað sé kaupstaður og hvað sé hreppsfélag. Ég veit skil á því, og það vita allir, svo að þar er ekkert um að villast. Hins vegar er svo hitt atriðið, þar sem hér stendur, að ríkissjóður greiði bæjarfélögum allt að 2/5 kostnaðar, en öðrum sveitarfélögum 2/3 kostnaðar af að reisa almenn sjúkrahús, sjúkraskýli eða læknisbústaði. En þegar svo háttar til, að í sama læknishéraðinu er kaupstaður og 2–3 sveitarhreppar, sem allir byggja sama sjúkrahús fyrir sitt læknishérað eða sama læknisbústaðinn fyrir sinn héraðslækni, þá þarf svar við því, hvort í þessum tilfellum á að greiða ríkisstyrk að 2/3 hlutum eða 2/5 hlutum. Það er augljóst mál, að ætti að haga þessu þannig, að bara vegna þess, að lítill kaupstaður er í læknishéraði með 3–4 sveitarhreppum, þá eigi þeir sveitarhreppar ekki að verða þessa hækkaða styrks aðnjótandi, þá skapast þarna mikið misræmi. Það er ekki hægt að vísa til l. eins og þau hafa verið framkvæmd frá 1935, vegna þess að þá var eitt og sama hlutfall gildandi fyrir alla aðila, þá fengu allir, sem byggðu sjúkrahús, sjúkraskýli eða læknisbústað, 2/5 kostnaðarverðs, en nú á að fara að gera þarna mun á kaupstöðum og öðrum sveitarfélögum. Þetta er alveg glöggt þar, sem glöggar markalínur eru um þetta, en þar sem þessir aðilar byggja saman, hvort eiga þeir að fá greiddan 2/3 kostnaðar eða 2/5? Ég þykist sjá, að þetta hefur ekki verið athugað af n. Það þarf að liggja fyrir yfirlýsing um það, hvernig þetta á að framkvæmast. Þess vegna teldi ég mjög æskilegt, að heilbr.- og félmn. tæki þetta til athugunar, a.m.k. milli umræðna, til þess að taka af allan vafa. Ég vænti, að ég hafi nú skýrt þetta svo, að hv. frsm. hafi skilið, hvað ég á hér við.