05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

54. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Heilbr - og félmn. ræddi þetta frv. á einum fundi og lagði til einróma, að það væri samþ. Málið hefur tvívegis verið flutt áður sem frv. um héraðshæli, en er nú flutt sem breyt. á l. um sjúkrahús. Upphaflega var farið fram á, að 2/5 hlutar kostnaðar við að reisa slík hæli væru greiddir úr ríkissjóði, en nú er ætlunin, að ríkissjóður greiði bæjarfélögum allt að 2/5 kostnaðar, en öðrum sveitarfélögum allt að 2/3 kostnaðar af að reisa almenn sjúkrahús, sjúkraskýli eða læknisbústaði, ef þeir eru reistir samkv. þessum l. og ráðh. fellst á þörf þeirra. Þarna er verið að gera þá breyt. á l., að fámenn byggðarlög fái hærri styrk, en fjölmennari bæjarfélög, þörfin er hin sama hjá báðum, en fjárhagsleg geta bæjarfélaganna er meiri. Í frv. um héraðshæli, sem hv. þm. A-Húnv. og fleiri fluttu 1947 og 1948, var gert ráð fyrir, að hælunum yrði skipt í deildir, og í grg. fyrir þeirri breyt., sem farið er fram á nú, geta þeir þess, að þeir geri ráð fyrir, að hægt verði að ætla sjúkrahúsbyggingunum svipað hlutverk og héraðshælunum. Þó er ekkert um þetta í frv., eins og það er flutt nú. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. N. er sammála um málið.