11.11.1948
Efri deild: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1582 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Hér hefur ýmsu verið blandað inn í umr., sumu kannske skyldu, en öðru óskyldu. Það er t.d. skylt þessu máli, hvernig viðskiptan. eru lagðar hendur með leyfisveitingar, en á ekkert skylt við þetta mál, hvernig innflutningi á ýmsum varningi hefur verið varið til landsins, t.d. á vinnufötum og ýmsu þess háttar, en sannleikurinn er sá, að á þessum vörum hefur verið skortur. Það getur líka vel verið, að viðskiptan. hafi verið mislagðar hendur, en það breytir ekki því, sem fyrir mér er aðalatriðið í þessu máli. Ég tel, að það sé eðlilegt og eftir atvikum sjálfsagt og sanngjarnt, að þeir, sem til útlanda fara, geri viðskiptan. grein fyrir því, eins og segir í l., að þeir hafi aflað sér gjaldeyris til fararinnar á löglegan hátt. Ef þeir gera þetta, tel ég, að þeir hafi rétt á að fara, en annars ekki. Ég mótmæli því, að hér hafi verið, eins og hv. 1. þm. Reykv. orðaði það, viðhafðar ósæmilegar og óhæfilegar reglur, þar sem menn væru lokaðir inni. Það er út í bláinn sagt, að menn hafi verið lokaðir inni. Þar sem 2 þúsund manns hefur verið leyft að fara gjaldeyrislaust úr landi, er ekki hægt að segja, að menn hafi verið „katagoriskt“ lokaðir inni, eins og hv. 1. þm. Reykv. komst að orði. Ég tel þess vegna, að það sé sjálfsagt að hafa þetta ákvæði í l. og praktískt, eins og gert hefur verið. Það er vitað, að það eru möguleikar fyrir menn að komast til útlanda, sem eiga kannske ráð á erlendum gjaldeyri, sem ekki hefur verið talinn fram, og tel ég ekki ástæðu til að ýta undir það, að þessir menn fái séraðstöðu til þess að fara úr landi til þess að kaupa t.d. fatnað, sem þeir geta ekki fengið í landinu sjálfu, eins og hv. þm. Barð. sagði. Það er ekki af því að menn langi að takmarka þessar vörutegundir, að menn taka upp á þessu. Og ef þetta ástand ríkir, sem hv. þm. lýsir, þá er það ekki vegna þess, að gjaldeyrisyfirvöldin í landinu langi til þess, heldur vegna þess, að þau hafa verið þvinguð út í þetta. En ég skal ekki ræða um aukaatriði, heldur láta mér nægja að segja, að ég tel, að það litla, sem felst í þessum l. um ferðir manna til útlanda, sé sízt meira, en ástæða sé til, og ég veit ekki, hvort væri æskilegra að hafa þetta frjálsara. Þeir, sem kannske ættu ráð á erlendum gjaldeyri, án þess að menn vissu um það, gætu farið hvert á land sem þeir vildu og keypt sér allt og haft aðra aðstöðu, en aðrir þegnar þjóðfélagsins.

Hv. þm. Barð. innti mig eftir, hvort leitað hefði verið álits lögfræðinga um þetta efni. Það hefur ekki verið gert sérstaklega, en ég vil segja honum, að þegar frá þessu var gengið, voru þar tveir lögfræðingar, forsrh. og utanrrh., og ættu þeir að kunna á þessari lagalegu hlið málsins full skil. En allir ráðh. voru þar viðstaddir og gerðu ekki athugasemdir.

Hvað viðvíkur því, sem hv. þm. Barð. sagði, að það megi teljast kaldhæðni, að ég eigi nú að standa fyrir ferðamannaskrifstofu og landkynningu og takmarka um leið ferðalög til útlanda, þá má það vel vera. En fyrir mér vakir ekki að takmarka ferðalög til útlanda, nema að því leyti sem gjaldeyrisástandið í landinu gerir það nauðsynlegt, og til að menn geti ekki tryggt sér gjaldeyriseign, sem hvergi hefur komið fram og er illa fengin. Það er til þess að koma í veg fyrir slíkt, að þessar reglur eru settar, og meginhluti þjóðarinnar vill, að þetta verði framkvæmt svona.