22.04.1949
Neðri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1609 í B-deild Alþingistíðinda. (2351)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Frsm. meiri hl. (Hallgrímur Benediktsson):

Herra forseti. Hv. frsm. minni hl. gerði skýra grein fyrir sinni afstöðu og vitnaði til þess, sem hann hefur tekið úr skýrslu viðskiptan., sem legið hefur fyrir þinginu áður. Hv. síðasti ræðumaður kom dálítið inn á eitt af þeim atriðum, sem hv. frsm. minni hl. minntist á, svo að ég læt það nægja, sem hann benti á í þeim efnum. En hvað við kemur öðru, sem hv. frsm. minni hl. sagði, að svo naumt væri skammtaður innflutningur af nauðsynlegri vöru, og vildi gera það að ástæðu til þess, að þetta ætti að haldast í l. eins og það er nú, þá vil ég minna hann á það, að við höfum á síðustu þingum setið saman í fjhn., og þegar þessi l. voru samþ., þá kom ég með brtt., sem gekk í sömu átt og hér um ræðir, og minnist ég ekki, að hv. þm. V-Húnv. hafi lagt sérstaka áherzlu á, að þetta væri brýn nauðsyn eins og l. endanlega urðu samþ. í d. En niðurstaðan varð þessi, ekki hvað sízt fyrir tilmæli og áhrif hæstv. viðskmrh. Ég hef alltaf litið svo til hæstv. viðskmrh., að hann væri ekki svo mjög hrifinn af þessum köflum, en hann hlýtur að minnast þess, að þegar þessi l. voru samþ., þá lagði ég áherzlu á það, að þetta væri ekki tekið svona bókstaflega. Nú hefur hæstv. viðskmrh. haldið því fram, að þetta gangi sinn eðlilega gang, og ætti þetta því að vera vel framkvæmanlegt, en þá skil ég ekki, hver hræðsla hefur gripið þessa menn nú, þó að þetta væri fellt í það horf, sem framkvæmdin hefur orðið.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. V-Húnv. minntist á, að þetta muni hafa sérstök áhrif á innflutning nauðsynjavöru og við yrðum að gæta þess að taka ekki gjaldeyri frá nauðsynjavörum, þá veit ég, að ég þarf ekki að benda hv. þm. á það, að það er allt annað, sem orðið hefur til þess að trufla nauðsynjavöruinnflutning til landsins. Fyrir meira en ári hefur hæstv. viðskmrh. gefið greinargóða skýrslu um það og jafnframt form. fjárhagsráðs. Það var sú eðlilega skipting milli eyðsluvöru og kapítalvöru. Það er alveg eins og ef einstaklingur bindur fé sitt um of í framkvæmdum, en hefur svo ekkert aflögu. Það voru ekki til vörur upp á þær ávísanir, sem menn fengu. Þarna hefur okkur fatazt. En nú er talið nauðsynlegt að kippa þessu í lag með því móti að auka aftur innflutning á nauðsynjavörum til landsins.

Hv. þm. V-Húnv. minntist á það, að það væri vafasamt, hvaða gagn væri að þeim ferðum, sem sumir af þessum mönnum fara. Mér hefur aldrei dottið í hug, að það væri svo rígbundið í hugum Íslendinga, hvernig menn megi haga ferðum sínum. En það felst ekki í þessu frv., að hver og einn verði ekki að gefa skýringu á því, með hvaða gjaldeyri og hvenær hann fer úr landi, því að það stendur beinum orðum: „Hver sá, er til landsins kemur frá útlöndum, skal gefa tollyfirvöldunum sundurliðaða skýrslu um þann gjaldeyri, er hann hefur meðferðis. Skulu einstaklingar, búsettir hér á landi, skila þeim gjaldeyri, sem þeir eiga, til þeirra banka, er rétt hafa til að verzla með erlendan gjaldeyri, og greiða þeir andvirðið í íslenzkum krónum. Einstaklingar, búsettir erlendis, skulu við komu sína til landsins undirrita yfirlýsingu um, að þeir selji gjaldeyri aðeins til þeirra stofnana, sem rétt hafa til gjaldeyrisverzlunar. Skal sala þeirra á gjaldeyri færð í vegabréf þeirra.“ Þetta viðgengst víðast hvar annars staðar, t.d. með verzlunarmenn, og við Íslendingar eigum nokkuð marga ættingja, bæði austan hafs og vestan. Það virðist vera rétt hjá hæstv. viðskmrh., að það hafi verið tekið tillit til þessa, og það er ekki meira, sem hér er farið fram á, en að þetta sé ekki með neinum duttlungum gert. Það kemur líka fram, að 500 beiðnum hefur verið neitað, en það er ekkert öryggi fyrir því, að þessir menn hafi ekki átt rétt á því að fá ferðaleyfi eins og hinir, sem leyfi fengu. Það er þetta, sem ég er algerlega á móti. Við erum smám saman komnir inn í svo strangar umbúðir, að menn mega ekki snúa sér við. Þetta þekkist ekki í nokkru landi. Í Englandi, jafnvel á stríðstímanum, þá gat verzlunarstéttin fengið ákveðna upphæð hvenær sem hún vildi fara úr landi. Ég geri þess vegna ekki mikið úr þeim getgátum, sem hv. þm. V-Húnv. kom með, hvaða gagn væri að för þessara manna, og svo enn fremur það, að hér mundi verða tekin upp sérstök atvinnugrein. Það eru ótal leiðir í dag, eins og við vitum. En það er ekkert óeðlilegt, þó að ég fylgi þessari breyt., því að hæstv. viðskmrh. man, að ég vék að þessu atriði við hann áður en l. voru samþ. Ég álít því, að það væri meiri sómi að því, að þessi seinasti hemill, eins og hæstv. ráðh. komst að orði, verði tekinn burt í því formi, sem hann er nú, því að það er auðvelt að hafa þetta eftirlit í gegnum útlendingaeftirlitið. Ég er alveg sannfærður um, að þetta verður ekki misbrúkað á neinn hátt meira, en gert er í dag, þó að þetta frv. verði samþ.

Þá er sú fyrirspurn frá hæstv. viðskmrh., hvernig fara ætti með skatta- og útsvarsskyldu. Ég tel þetta liggja alveg opið fyrir eins og var áður en þessi l. voru samþ.

Þá vildi ég aðeins minnast á þessa landkynningu, sem mér fannst bæði hv. frsm. minni hl. og hæstv. viðskmrh. ekki hafa skilið rétt. Ég tel utanfarir íþróttafélaganna mjög merkilega landkynningu, og til samanburðar vil ég taka það fram, að á mestu þrengingatímum Breta, þá var sú einasta undanþága, sem gefin var þar í landi, samhliða gjaldeyri til verzlunarmanna, það var til íþróttamanna til slíkra ferðalaga frá einu landi til annars. Þetta er framkvæmt um allan heim. Það er þessi landkynning, sem þessir tveir hv. ræðumenn hafa eiginlega verið að gera lítið úr, en þeir munu sjá, að þetta er ekki svo lítils virði, þegar á allt er litið, og ég tel, að við höfum haft sóma að þeim félagasamtökum, sem úr landi hafa farið.

Ég vil ekki lengja þessar umr., því að ég get vísað til þeirrar grg., sem gerð er hér á þskj. 86. Þessi breyt., sem hér er farið fram á, hún fer hvorki lengra né skemmra, en sú eina brtt., sem var flutt af minni hl. fjhn., þegar l. voru samþ.