23.04.1949
Neðri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1612 í B-deild Alþingistíðinda. (2356)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Ég hef skilið það á hæstv. fjmrh. í öðru sambandi, að honum væri ekki alveg sama um það, hvernig tekst að afla tekna til dýrtíðarsjóðs eða hvort þær áætlanir standast, sem gerðar voru, þegar dýrtíðarsjóður var ákveðinn, en það er augljóst, að ef þetta frv. verður samþ., þá hlýtur það að draga úr þeim tekjum, sem dýrtíðarsjóði eru ætlaðar af ferðamönnum til útlanda. Í þessu frv. er boðið upp á, að hver, sem til útlanda fer, geti í staðinn fyrir að semja við banka samið við einhvern, sem langar til að koma frá útlöndum til Íslands, að þeir hafi nokkurs konar clearing-verzlun, án þess að nokkurt skattgjald komi í ríkissjóð um leið. Eins og hv. frsm. minni hl. sagði í gær, þá er ekki heldur loku skotið fyrir, að einhver miðlarastofnun rísi hér upp, sem útvegi mönnum þessa fyrirgreiðslu gegn því, að útlendingar, sem þeir hafa á sínum vegum, fái alls konar aðstoð hér á landi. Mér virðist þess vegna opinn vegur til þess fyrir þá, sem til útlanda þurfa að fara, ef þetta frv. verður samþ., að gera það án þess, að gjaldeyriskaup eigi sér stað við bankana, og án þess, að ríkissjóður fái þann skatt af ferðapeningum, sem gert var ráð fyrir, þegar dýrtíðarlögin voru samþ. Ég veit ekki, hvort hæstv. fjmrh. er minna sárt um þessa peninga en öðrum, sem reikna með, að dýrtíðarsjóður fái þetta fé, en það er óvefengjanlegt, að þessir peningar koma ekki inn í ríkissjóð, ef frv. verður samþ. En þetta er kannske ekki nema aukaatriði í sambandi við afgreiðslu málsins. Aðalatriðið fyrir hv. flm. er að nema úr gildi þau höft, sem eru á ferðafrelsi manna. Ég spurði í gær, hvort ætti líka að nema úr gildi þau höft, sem eru nú á ferðafrelsi manna frá hendi bæjar- og sveitarfélaga í sambandi við innheimtu skatta og útsvars. Hv. frsm. sagði, að það væri ekki eðlilegt að tengja þetta tvennt saman, það væri sitt hvað, en hann sagði, að það væri ekki sín meining, að afnumin yrðu þau höft, sem nú eru á ferðafrelsi manna í sambandi við greiðslu gjalda til bæjar- og ríkissjóðs. Þá vil ég spyrja, hvaða munur er á því að takmarka ferðafrelsi manna á þann hátt að segja við mann, sem ætlar til útlanda: Heyrðu, góði minn, þú átt ógreidd gjöld til bæjarsjóðs og ríkissjóðs. Þú færð ekki að fara. — Þetta ófrelsi er ekki lagt til að afnema samkvæmt yfirlýsingu hv. frsm. í gær.

Nú eru af hálfu viðskiptanefndar þær einar hömlur settar á ferðalög, að menn verða að gera grein fyrir, hvernig þeir ætli sér að lifa í útlöndum, ef þeir fara, hvaða fjárvon þeir hafi og hvaða möguleika til að greiða sitt uppihald. Ef þeir, sem ferðast ætla, gera grein fyrir þessu á fullkomlega eðlilegan hátt, þá fá þeir að fara hindrunarlaust. Ég veit ekki, hvort þetta eru meiri hindranir á ferðafrelsi manna en þær, sem nú eru í sambandi við greiðslu gjalda í bæjar- og ríkissjóð. Hvort tveggja má segja, að séu takmarkanir á ferðafrelsinu, en ekki það stórar, að það eigi að vera til neins trafala eða afnáms á mannréttindum að hafa þær á. Mér finnst hvort tveggja jafneðlilegt. Og ef mönnum finnst ástæða til að afnema þau höft, sem eru á ferðafrelsi manna af hálfu viðskiptanefndar í sambandi við gjaldeyrinn, þá er eins eðlilegt, að menn fái að fara til útlanda án þess að borga útsvar og skatta. Þetta tvennt er alveg hliðstætt, það finnst mér liggja í augum uppi. Mér finnst þess vegna nokkuð langt gengið, ef á með þessu frv. að afnema þau höft, sem eru á ferðalögum í sambandi við gjaldeyrinn, en hreyfa ekki við þeim tálmunum, sem eru í sambandi við greiðslu skatta og útsvars. Annars vil ég ekki gera þetta að neinu stórmáli. Ég get látið það lönd og leið, hvort frv. er samþ. En mér finnst hjákátlegt að samþ. það með þeim tvískinnungi, sem forsvarsmenn þess gera. Svo er líka það, sem ég minntist á í gær, að ef við samþ. frv. svona, þá opnast möguleiki fyrir þá menn, sem kynnu að eiga fé erlendis, til að nota það í ferðalögum, án þess að gjaldeyrisyfirvöldin eigi þar nokkra íhlutun um.

Þetta frv. miðar því til hins verra í alla staði. Frelsisskerðingin er ekki afnumin í sambandi við útsvör og skatta, og þess vegna er ekkert unnið við að samþ. frv. En á hinn bóginn verkar það skaðlega á þann hátt, að það dregur úr gjaldeyristekjum þjóðarinnar og tekjum ríkisins.

Ég þarf svo ekki fleira um frv. að segja, en ég sé enga ástæðu til að breyta l. á þann hátt, sem þetta frv. fer fram á, og mun því greiða atkv. á móti því.