23.04.1949
Neðri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1615 í B-deild Alþingistíðinda. (2360)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Frsm. meiri hl. (Hallgrímur Benediktsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh., hann eiginlega lítur á þá hlið málsins, sem hæstv. viðskmrh. virðist hafa mestan ugg af og telur rýra tekjur ríkissjóðs mjög. Þar finnst mér þeir nokkuð á ólíkum skoðunum, og verð ég að segja, að ég hallast miklu fremur að skoðun hæstv. fjmrh., en ég vildi minnast nokkuð á einstök atriði, sem komið hafa fram og eru kannske aðalatriði, eins og ég benti á í minni framsöguræðu, og það er þetta, hve hratt við setjum á alls konar höft og þvinganir, margendurteknar, og er eðlilegt, að menn kunni þessu illa, þegar þær þjóðir, sem eru í jafnmiklum þrengingum með gjaldeyri, leysa þessar þvinganir að miklu leyti, t.d. Danir, þar sem allir, sem vilja fara til útlanda, fá gjaldeyri, en nú vil ég víkja að aðalatriðunum, sem vitnað hefur verið í. — Hæstv. viðskmrh. segir, að það sé regla að hindra ekki ferðir þeirra, sem fara til að heimsækja skyldmenni sín, en ég veit um 3 dæmi, þar sem viðskiptanefnd hefur neitað um fararleyfi í slíkum tilfellum. Ég mun engin nöfn nefna, en kona ein í Danmörku bauð systur sinni hér í heimsókn, og sú kona fékk neitun. Henni var þó að lokum veitt fararleyfi, en hún fékk ekki grænan eyri í farareyri. — Þá minntist hæstv. viðskmrh. á það, að menn mættu ekki fara utan, nema þeir hefðu greitt útsvör og skatta. Þetta fyrirkomulag er á þann hátt, að hver, sem vill fara utan, er skyldur að gera grein fyrir, hvort hann hafi innt af hendi gjöld sín, og fá síðan fararleyfi hjá bæjarfélaginu, og byggist þetta á því, að áður, þegar útlendingar sóttu mikið atvinnu hingað, þá fóru þeir oft úr landi án þess að hafa greitt lögboðin gjöld. Það varð því að hafa kontral með þessu fólki, sem kom hingað í skyndiatvinnu. Því var það ákveðið, að það fengi þá fyrst að fara heim, er það hefði greitt lögboðin gjöld, en ég veit ekki til þess, að maður, sem er sjálfstæður ríkisborgari, að hann fái ekki fararleyfi, nema hann hafi að fullu greitt skatta áður. Það er augljóst, að þeir eiga þá að jafnaði eignir hér, sem hægt er að taka, ef í það fer, og er raunar þetta kontrol með erlendu, verkafólki hér óskylt því máli, sem hér um ræðir. Frelsisskerðingin, sem hæstv. viðskmrh. talaði um af þessum sökum, er því ekkert sambærileg við þá frelsisskerðingu, sem felst í gildandi l. Frá mínu sjónarmiði lítur það þannig út, að þótt samþykkt þessa frv. kostaði einhvern örlítið meiri gjaldeyri, þá sé það fjarstætt að þvinga menn svo, að þeir megi ekki fara ferða sinna nema með opinberu leyfi, og skil ég ekki, að jafnfrjálslyndur og skýr maður sem hæstv. viðskmrh. skuli ekki sjá, hvað þetta er stórt atriði. — Ég mun svo ekki á þessu stigi orðlengja þetta öllu meira, en ef ekki verður fjölskipaðra í hv. d., þá vildi ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann frestaði atkvgr.