28.04.1949
Neðri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (2373)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Till. sú, sem ég boðaði siðast þegar þetta mál var til umr., liggur nú fyrir á þskj. 591. Legg ég þar til, að í upphafi 2. gr. segi: Ekki má setja reglugerð samkv. l. þessum, sem bannar mönnum brottferð úr landi, og hefur mér skilizt á meiri hl. fjhn., að það væri þetta, sem hann legði mesta áherzlu á að fá fram. Hins vegar legg ég til, að heimilt verði eð krefja hvern Íslending, sem fer úr landi, upplýsinga um það, hvaðan hann hefur þann gjaldeyri til ferða- og dvalarkostnaðar erlendis. Eins og nú er ástatt í þessum málum hjá okkur, þá tel ég það nauðsynlegt, að slík ákvæði séu í lögum, þannig að unnt sé fyrir gjaldeyrisyfirvöldin á hverjum tíma að vita, hvernig þeir, sem æskja að fara til útlanda, hafi aflað gjaldeyris og hvort þeir hafi aflað hans með löglegum hætti. Þykir mér ósennilegt, að nokkur sé á móti þessu. 4. gr. l., sem lagt er til, að verði breytt, er að mestu umorðuð, en þó er ein málsgrein eftir, sem segir, að upptaka eigna samkv. lögunum skuli heimil vera. Þetta ákvæði var sett í fyrra, og sé ég ekki ástæðu til að fella það burt nú, og hafi ástæða verið til að setja það þá, ætti sú sama ástæða að öllum líkindum enn að vera fyrir hendi. Mun ég svo ekki fara um þetta fleiri orðum, nema sérstakt tilefni gefist.