03.05.1949
Efri deild: 93. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (2388)

204. mál, einkasala á tóbaki

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er auðskilið mál, að ríkissjóður þarf að fá leiðir til tekjuöflunar, til þess að hægt sé að láta enda fjárl. ná saman. Það er líka vel skiljanlegt, að gripið sé til þess að hækka tóbak, og út af fyrir sig hef ég ekkert við það að athuga. En ég vil vekja athygli á því, hvort ekki er rétt að hafa þessa heimild víðtækari, svo að ekki þurfi að leita samþykkis Alþ. í hvert skipti, sem breyt. er gerð á þessu verði. Þetta mun vera í þriðja skiptið nú á skömmum tíma, sem heimildar til hækkunar hefur verið leitað, og mér virðist, að svo gæti farið, eftir öllu útliti nú, að enn þyrfti að leita tekna með þessari leið, þó að þessi hækkun fengi samþykki. Ég vil aðeins benda á þetta, en að sjálfsögðu er vel farið, ef ríkisstj. telur sig ekki þurfa meiri hækkun á þessari vöru. Annars virðist mér ráðh. ekki taka djúpt í árinni, ef hann telur ekki vanta nema 30 millj. á tekjur ársins, því að sé tekið tillit til ábyrgðarverðsins á fiskinum með hliðsjón af þeim samningum, er gerðir hafa verið við Breta, þá skilst mér, að ríkissjóð vanti a.m.k. 40 millj. í tekjum á þessu ári. Hafi ráðh. hins vegar hugsað sér aðrar leiðir, sem hann telur betra að grípa til, en meiri hækkunar á tóbaki, þá tel ég gott, ef ekki þarf að höggva frekar í þann knérunn.