09.02.1949
Neðri deild: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (2446)

122. mál, sala Hafnarness

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt eftir beiðni hreppsnefndar Hafnarhrepps, eins og fylgiskjöl með grg. bera með sér. Hafnarhreppur í Austur-Skaftafellssýslu tekur yfir þorpið Höfn í Hornafirði og fylgir því eitt sveitabýli, Hafnarnes, sem hafði í öndverðu afnot alls lands, sem Hafnarhreppur nær yfir. Nú er þorpið í örum vexti, og þarf því að skipuleggja vel úthlutun lóða. Er þá eðlilegt, að hreppsnefndin hafi hönd í bagga um það, en til þess þarf hún að fá umráð yfir landinu, enda segir svo í bréfi hreppsnefndarinnar, sem ég hef látið prenta sem fylgiskjal, að hreppsnefndinni hafi lengi leikið hugur á, að hreppsfélagið fengi tækifæri til að leita eftir þeim kaupum, sem um ræðir í þessu frv. En af því að hér er um þjóðjörð að ræða, má telja sjálfsagt, að ríkisstj. fái samþykki Alþ. til þess að gera samninga um sölu á þessari jörð. Ég hef þess vegna orðið við þeirri beiðni hreppsnefndarinnar að leggja fyrir þessa hv. d. þetta frv., sem hér um ræðir. Þó að Alþ. afgreiði l. í heimildarformi, eins og frv. gerir ráð fyrir, er sjálfsagt, að ríkið eftir sem áður hafi tök á að fá landið, ef þess þarf með vegna opinberra framkvæmda, án þess að sérstakur kostnaður falli á það eða að ríkið hafi af því aukin útgjöld, enda er svo fyrir mælt í 1. gr. frv., að þótt samningar takist um sölu á jörðinni til hreppsins, skuli hreppnum eigi að síður skylt að afsala ríkinu á kostnaðarverði hluta af landinu, sem hann eignast, ef ríkið þarf á því að halda vegna opinberra framkvæmda. Ég sé ekki ástæðu til að halda langa ræðu um þetta litla frv., en vænti þess, að því verði vel tekið af hv. d., og tel rétt, að því, að umr. lokinni, verði vísað til landbn.